Fréttir

Tilkynningar

Viðburðir

22.04.2025 kl. - Bókasafn Kópavogs

Umhverfisofurhetjan

Umhverfis ofurhetjan er vitundarvakningarverkefni sem er samstarfsverkefni Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem börn geta leyst fimm umhverfistengd verkefni og að því loknu fá þau afhent viðurkenningar skjal um að þau séu umhverfis ofurhetjur. Einnig fá þau fræ í verðlaun sem þau geta gróðursett heima. Verkefnið mun svo standa fram á haust. Hægt er að velja 5 af eftirfarandi atriðum, sum þeirra eru verkefni sem öll fjölskyldan vinnur saman, og sum eru árstíðarbundin. Þegar barnið hefur klárað 5 verkefni getur það komið á safnið og fengið skjalið og verðlaunin afhent annað hvort í barnadeild eða hjá starfsmanni náttúrufræðistofu: Taka bók á bókasafninu um náttúruna og náttúruvísindi t.d. dýr, gróður, himingeiminn og lesa heima eða fá einhvern til að lesa fyrir sig. Skoða vandlega náttúrufræðisýninguna í Náttúrufræðistofu Kópavogs. Fara með einhverjum fullorðnum á endurvinnslustöð eða í grenndargám með flokkað rusl og efni.   Plokka, fara með einhverjum fullorðnum og týna upp rusl úr náttúrunni. (Athuga að vera með hanska, og fara varlega og rólega í verkefnið og ræða fyrir fram um að passa sig að taka ekki upp neitt oddhvasst eins og nálar og glerbrot). Fá fjölskylduna sína til að elda eina máltíð úr frystinum. Borða afganga. Fá fjölskylduna til að elda eina grænmetismáltíð (kjöt og fiskvinnsla skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor, og það að borða einu sinni í viku grænmetismáltíð er mjög gott fyrir umhverfið) Velja að gefa fremur upplifun eða notaða gjöf í afmælis- eða tækifærisgjöf. Taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu, gefa, selja eða kaupa notaða hluti frekar en nýja. Labba einu sinni eitthvert sem þið farið venjulega á bíl. Búa til pödduhótel í garðinum. Leyfa túnfíflunum að vera í garðinum (ekki tína þá, ekki slá þá) en þeir eru nauðsynleg næring fyrir fyrstu skordýrin á vorin. Planta birkitré (birki er eina skógmyndandi tegundin í íslensku flórunni og birkiskógar eru fjölbreytt vistkerfi þar sem fjöldi lífvera lifir í samlífi hver við aðra.)  Umhverfisverkefni að eigin vali
03.05.2025 kl. 13:00 - Salurinn

Herra Hnetusmjör - Fjölskyldutónleikar

Eitt ár síðan ég sá ykkur 10 sinnum í Salnum og síðan þá hef ég droppað Elli Egils, Steik og Sushi, Til i allt 3 og ég veit ekki hvað og hvað Ég hlakka til að taka á móti öllum kynslóðum 3. og 4. maí í Salnum Tónleikarnir eru styrktir af 66 Norður EKKERT ALDURSTAKMARK
21.05.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga á 2. hæð aðalsafns. Heitt á könnunni og öll velkomin! Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Kaðlín | Bókasafn Kópavogs.
21.05.2025 kl. 20:00 - Salurinn

Púlsinn | AGLA & Flesh Machine

Molinn, miðstöð unga fólksins og Salurinn kynna Púlsinn, nýja tónleikaröð sem verður haldin í Salnum, Kópavogi í vor. Markmið Púlsins er að gefa ungu tónlistarfólki tækifæri að koma fram á tónleikum í einum fallegasta tónleikasal landsins en jafnframt gefa þeim verkfæri og tól til þess að vinna í tónlistarferli sínum. AGLA Agla Bríet Bárudóttir er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur sem byrjaði nýlega að gefa út tónlist sem AGLA. Tónlistina semur hún í herberginu sínu á kassagítar og Juno-106 hljóðgervil sem hún elskar. Tónlistinni hennar má lýsa sem persónulegri popptónlist, singer-songwriter, alternative poppi með hjartnæmum textum sem segja sögur úr hennar lífi. Hún sækir mikinn innblástur í náttúruna og syngur á íslensku. AGLA vinnur eins og er með Baldvini Hlynssyni pródúsent.AGLA er á fullu að vinna í tónlist og má búast við nýju efni frá henni á árinu. Flesh Machine Flesh Machine er hugarfóstur stofnmeðlims sveitarinnar, Kormáks Jarls Gunnarssonar, sem samdi lögin um tíma sinn í tónlistarnámi í Berlín þar sem hann kljáist við mikinn kvíða, þunglyndi og lágt sjálfsmat. Með hjálp vina og núverandi meðlima hljómsveitarinnar, Baldur Hjörleifsson, Jón G. Breiðfjörð, Viktor Árna Veigarssyni og Lukas Zurawski, hafa þeir tekið upp lög fyrir tilvonandi fyrstu plötu “The Fool”. Hlaut hljómsveitin mikla athygli og góðar undirtektir við fyrstu útgáfu fyrir lagið “F Is For Failing” árið 2023, m.a. Frá helsta tónlistargagnrýnanda á Yoututbe, Anthony Fantano, sem stjórnar Youtube rásinni The Needle Drop. Hljómaveitin hlaut árið 2024 verðlaun á Stockfish Film Festival fyrir tónlistarmyndband af laginu ,,Problems”, leikstýrt af Snæfríði Sól Gunnarsdóttur Púlsinn 26.mars - Amor Vincit Omnia & Woolly Kind 9.apríl - HáRún & Laufkvist 21.maí - AGLA & Flesh Machine Molinn er miðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára þar sem hægt að mæta og nota aðstöðuna á ýmsan hátt, til dæmis með að bóka stúdíó og vinna í tónlist, æfa sig á sviði, halda viðburði en einnig til að slaka á, læra eða hafa gaman. Molinn er einnig skipuleggjandi Skapandi sumarstarfa í Kópavogi sem fagna 20 ára starfsafmæli í sumar.
21.05.2025 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs

Sumarlestursgleði

Miðvikudaginn 21. maí kl.17.00 ætlum við að hefja sumarlestursátakið okkar með smá gleði á Bókasafninu. Ævar Þór Benediktsson kemur í heimsókn til okkar og les upp úr bókum sínum og verður með lestrarhvatningu fyrir börnin. Síðan munum við kynna sumarlestursátakið. Hlökkum til að sjá ykkur í sumarlestursskapi.
22.05.2025 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs

Konukvöld | Leyndardómar tarotspilanna

Íris Ann hefur notað tarotspil frá unga aldri og haldið fjölda námskeiða um hvernig nota megi spilin í daglegu lífi. Hér mun hún segja frá því hvernig hún notar spilin, hver saga þeirra er og hvað þau tákna fyrir henni. Að því loknu gefst tími til spurninga og spjalls.  Íris Ann er ljósmyndari, listamaður, fyrrum eigandi Coocoo‘s Nest og kaffihússins Lólu Florens. Hún er lærð í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð sem í stuttu máli er eins konar heilun og jafnframt er hún lærð í Kundalini Activation sem er orkuvinna. Fimmtudaginn 22. maí efnum við til konukvölds á löngum fimmtudegi á Bókasafni Kópavogs. Tarotspil, draumráðningar og fleiri skemmtiatriði verða á dagskrá. Viðburðurinn verður í ljóðahorni á 2. hæð aðalsafns.Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
22.05.2025 kl. 18:00 - Bókasafn Kópavogs

Konukvöld | Draumráðningar

Símon Jón verður með erindi á konukvöldi um draumaráðningar en hann er m.a höfundur bókanna Draumaráðningar A-Ö, Nýja draumaráðningabókin og Stóra draumráðningabókin. Frítt er á viðburðinn og öll velkomin meðan húsrúm leyfir. Símon Jón Jóhannsson er fæddur á Akureyri árið 1957. Hann með BA-próf í íslensku og bókmenntafræði, Cand.mag. próf  í menningarsagnfræði, MA-próf í þjóðfræði auk kennsluréttindaprófs í uppeldis og kennslufræðum. Símon Jón hefur um árabil starfað sem framhaldsskólakennari í Flensborg í Hafnarfirði og samhliða því fengist við ritstörf. Hann hefur skrifað og tekið saman um þrjátíu bækur, einkum um þjóðfræðileg, sagnfræðileg og bókmenntaleg efni.
22.05.2025 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs

Konukvöld | Blush

Blush verður á staðnum á konukvöldi Bókasafns Kópavogs með skemmtilegan sölubás þar sem þau kynna sínar vinsælustu vörur. Lukkuhjól og 10% afsláttur. Öll þau sem versla fá að snúa hjólinu og fá unaðslegan vinning með sér heim.
23.05.2025 kl. 20:00 - Salurinn

Textarnir hans Jónasar Friðriks

Jónas Friðrik skildi eftir sig ótrúlegt safn texta og ljóða sem fyrir löngu hafa orðið þjóðargersemar. Hann samdi fyrir Ríó Tríó, B.G og Ingibjörgu, Björgvin Halldórsson o.fl. o.fl. ‘Ég skal syngja fyrir þig, Eina nótt, Tár í tómið, Ég er ennþá þessi asni sem þú kysstir þá, Gullvagninn og Góða ferð’ eru meðal þeirra laga sem flutt verða í Salnum þann 23.maí. Einar Ágúst og Gosarnir frá Vestmannaeyjum færa ykkur margar af þekktustu perlum Íslandssögunar þetta kvöld. Frábær kvöldstund sem tónlistarunnendur munu hafa gaman af. Silfurtún er skipuleggjandi tónleikanna
23.05.2025 kl. 11:00 - Bókasafn Kópavogs

Get together

Get Together meet-ups will be held at the Library in Kópavogur, on the first floor in the Tilraunastofa - meeting room. The meet-ups are international meetings open to refugees, asylum-seekers, immigrants, and anyone seeking companionship. Whether you're a family or an individual, you're welcome to join us. Each week, we gather and do relaxing activities like painting, weaving, crafting, and more. It's all about getting together, making new friends, and sharing stories in a warm, supportive space.Get Together meet-ups are a collaboration between GETA aid organization and the Library in Kópavogur.We offer free coffee and treats for everyone! These meet ups are a part of the project The library in a multilingual society sponsored by Nordplus and Bókasafnasjóður. Get Together heldur alþjóðlegan fjölskyldu- og vinahitting á Bókasafni Kópavogs, á fyrstu hæð í Tilraunastofunni. Þetta er alþjóðlegur hittingur fyrir flóttafólk, hælisleitendur, innflytjendur og öll sem vilja félagsskap.Viðburðurinn er bæði fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Í hverri viku munum við hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman eins og að mála, prjóna, föndra o.fl. Í Get together hittum við nýja vini og deilum sögum okkar í þægilegu og öruggu umhverfi. Get Together er samstarfsverkefni milli GETA hjálparsamtök og Bókasafn Kópavogs. Við munum bjóða upp á kaffi og með því! Þessi viðburður er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölþjóðlegu umhverfi sem er styrkt af Nordplus og Bókasafnasjóði.
24.05.2025 kl. 13:00 - Salurinn

VÆB Fjölskyldutónleikar

VÆB fjölskyldutónleikar VÆB halda sína fyrstu tónleika og bjóða allri fjölskyldunni á skemmtun sem er engri lík. Eftir að hafa unnið Söngvakeppnina 2025 með laginu sínu RÓA hefur VÆB æðið aldrei verið stærra. Landsmenn hafa verið að bíða eftir tónleikum og VÆB bræðurnir róa eins og enginn sé morgundagurinn og svara kallinu! Ekki láta þig vanta í geggjað fjör og upplifun fyrir alla aldurshópa í Salnum í Kópavogi. Gestir verða tilkynntir síðar.
24.05.2025 kl. 14:00 - Gerðarsafn

Leiðsögn | Margrét Norðdahl

Verið hjartanlega velkomin á leiðsögn um sýningu Guðrúnar Bergsdóttur með Margréti Norðdahl laugardaginn 24. maí kl. 14:00 í Gerðarsafni. Margrét og Guðrún Bergsdóttir unnu saman um árabil og Margrét sýningarstýrði fjölda sýninga á verkum Guðrúnar Bergsdóttur frá 2007 til 2022. MA verkefni hennar frá LHÍ var eigindleg rannsókn á stöðu listafólks með þroskahömlun þar sem Guðrún Bergsdóttir var einn viðmælanda. Margrét ritaði texta um Guðrúnu og feril hennar í nýútkominni bók um Guðrúnu og verk hennar.  Margrét M. Norðdahl er myndlistarkona, kennari og listrænn stjórnandi með yfir tuttugu ára reynslu af myndlist, menntun og menningarstjórnun. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum og gjörningum á Íslandi og erlendis. Hún vinnur með teikningar, málverk, innsetningar og ýmsa miðla og verk hennar fjalla gjarnan um mynstur í samskiptum og hegðun fólks, sýnilegum og ósýnilegum reglum samfélagsins, fegurð hversdagsins og leitina að kyrrð. Margrét er með BA í myndlist og MA í listkennslu frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað víða sem kennari, m.a. við LHÍ, Myndlistaskólann í Reykjavík og hjá Fjölmennt. Hún er stofnandi og framkvæmdastýra Listvinnzlunnar, listmiðstöðvar og stýrði hátíðinni List án landamæra um árabil. Margrét hefur einnig setið í stjórnum Listahátíðar í Reykjavík, Safnasafnsins og List án landamæra, auk þess að sinna sýningarstjórn, ráðgjöf og fyrirlestrahaldi. Fyrir störf sín hefur hún hlotið margvíslegar viðurkenningar. Í allri sinni vinnu sameinar hún listræna sköpun, samfélagslega meðvitund og djúpa trú á mikilvægi aðgengis og þátttöku allra í menningu og listum.Margrét býr og starfar í Reykjavík og er með vinnustofu í miðborginni. Aðgöngumiði að safninu gildir, frítt fyrir árskortshafa.
Fleiri viðburðir