Kópurinn veittur fyrir framúrskarandi skólastarf

Á myndinni má sjá viðurkenningarhafa ásamt Margréti Friðriksdóttur, forseta bæjarstjórnar og fulltr…
Á myndinni má sjá viðurkenningarhafa ásamt Margréti Friðriksdóttur, forseta bæjarstjórnar og fulltrúum úr menntaráði.

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Álfhólsskóla-Hjalla fimmtudaginn 12. maí. Alls bárust 16 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.

Anna Pála Gísladóttir í Álfhólsskóla hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Núvitund og slökun sem er valverkefni og hluti af lífsleikninámi. Markmiðið er að kenna nemendum leiðir til að taka ábyrgð á eigin lífsháttumog stuðla að heilbrigðum venjum sem auka bæði andlegt og líkamlegt heilbrigði. Nemendur læra að hvíla hugann og aðferðir til að vinna með kvíða og vanlíðan. Þeir átta sig á að stutt slökun getur aukið úthald og vellíðan. Þeir kynnast einnig kostum þess að gera núvitund að lífsstíl og nota slökun sem verkfæri gegn álagi í lífi og starfi.

Birta Baldursdóttir og Róshildur Björnsdóttir, forstöðukonur frístundarinnar Hörðuheima í Hörðuvallaskóla, hlutu viðurkenningu fyrir Sumarfrístund Hörðuheima. Þær fóru af stað með verkefnið sl. vor með þá áherslu að börnin þekktu umhverfið og starfsfólkið. Í sumarfrístundinni er lögð áhersla á öryggi og kunnuglegt umhverfi í bland við lærdóm, leik og gleði. Mikill metnaður er settur í það að hafa dagskránna fjölbreytta og skemmtilega þannig að allir gætu fundið viðfangsefni við hæfi. Sumarfrístund byggist á útivist, hreyfingu, leikjum, ferðum, íþróttum og ýmsum ævintýrum í nær- og fjærumhverfi sem og lestri, föndri, spilum og frjálsum leik.

Maríanna Wathne Kristjánsdóttir og starfsmenn EKKÓ, félagsmiðstöðvarinnar í Kársnesskóla, hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Hinsegin klúbbur Ekkó. Hinsegin klúbbur Ekkó er liður í að hinseginvæða umhverfið í kringum unglingana. Markmiðið er að allir unglingar finni að þau eigi stað og öruggt rými innan félagsmiðstöðvarinnar og innan skólans, til að vera þau sjálf. Þeim gefst tækifæri á aukinni félagslegri virkni og geta gengið að sínum stað í Ekkó vikulega þar sem þau hitta hvert annað, geta verið í næði eða ef þau kjósa, ekki í næði. Klúbburinn hefur í samstarfi við starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar gert hinseginleikann sýnilegri innan veggja skólans og og bæði starfsmenn Ekkó og skólans hafa lært meira um hvernig hægt er að mæta þörfum unglinganna.

Þorvaldur Hermannsson kennari í Salaskóla hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt, Sköpun og tækni. Sköpun og tækni er sameinuð verk-, list- og tæknigrein. Nemendur vinna sínar eigin hugmyndir úr allskyns efnum og úreltum hlutum sem til falla og skapa þeim nýtt hlutverk eftir eigin hugmyndum. Nemendur komast í snertingu við allskonar efni sem þeir geta skapað úr nýja hluti, skrúfað hluti í sundur, búið til grafísk verk og prentað á boli o.s.frv. Verkefnið hefur komið mörgum af stað í skapandi vinnu og eins komið á móts við nemendur sem annars eru að detta út úr bóklegum greinum skólans.

Soffía Weisshappel kennari í Snælandsskóla hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Karakter – velferðarkennsla á unglingastigi. Verkefnið byggir á fræðum jákvæðrar sálfræði og samþættir lífsleikni, forvarnarfræðslu og mannrækt. Hugmyndin er að búa til samfellu í gegnum unglingastigið þar sem tekin eru fyrir ákveðin viðfangsefni á hverju skólaári og móta þannig velferðarkennslu í skólastarfi með markvissum hætti. Tilgangur velferðakennslunnar er að stuðla að vellíðan og seiglu með áherslu á mannrækt og sjálfsþekkingu. Nemendur efla þætti á borð við hugarfar, bjartsýni, þrautseigju, félags- og tilfinningahæfni um leið og þeir fá fróðleik margvíslega þætti lífsins sem ekki er fjallað um með beinum hætti í öðrum námsgreinum. Nemendur fá verkfæri og læra leiðir til þess að taka ákvarðanir, leysa mál á uppbyggilegan hátt, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun, eflast í samskiptum og læra á tilfinningar sínar og annarra svo eitthvað sé nefnt.

Laufey Sif Ingólfsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Stelpur eru stelpum bestar, sem er samstarfsverkefni félagsmiðstöðvanna í Kópavogi, Félkóp. Félagsmiðstöðvar í Kópavogi fóru af stað með sumarhóp sl. sumar fyrir stúlkur sem fæddar voru árið 2007 og þær sem eru fæddar 2008 og eru ári á undan í skóla. Verkefnið er unnið út frá niðurstöðum rannsóknar frá Rannsókn og greiningu, sem gerð var á 59.000 íslenskum unglingum og þar kom fram að COVID-19 hefur haft skaðleg áhrif á andlega heilsu unglinga, þá sérstaklega á meðal stúlkna. Allar þær sem skilgreina sig sem stelpur voru velkomnar óháð búsetu eða skóla. Í hópinn gátu stelpur komið óháð búsetu og myndað vináttutengsl við aðrar stelpur úr öðrum hverfum í skemmtilegu og notalegu umhverfi. Verkefnið gekk út á það að efla stelpurnar félagslega og búa til vettvang þar sem auðveldara væri t.d. að eignast vinkonur eða koma sjálfri sér á framfæri.

Önnur verkefni sem tilnefnd voru til Kópsins í ár voru eftirfarandi:

Útikennsla á miðstigi í Kársnesskóla, Sértækt hópastarf í Hörðuvallaskóla, Þema á unglingastigi í Kársnesskóla, Flæði á miðstigi í Snælandsskóla, Kosningaverkefni 10. bekkjar í Salaskóla, Ferðaþjónusta 6. bekkjar í Álfhólsskóla, Beint í mark í Salaskóla, Barnaráð Hörðuheima í Hörðuvallaskóla og Fönix félagsmiðstöðvastarf í Salaskóla.