Breytingar á fuglalífi í Kópavogi

Talsverð breyting hefur orðið á fuglalífi Kópavogs á rúmum þremur áratugum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu um fuglalíf í Kópavogi sem unnin var fyrir umhverfissvið Kópavogsbæjar og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Í skýrslunni kemur m.a. fram að vaðfuglum hefur fækkað en samsvarandi fækkun hefur orðið á vaðfuglum í Arnarnesvogi, næstu leiru fyrir sunnan Kópavog. Í skýrslunni segir að erfitt sé að meta ástæður breytinganna.

Skýrslan og rannsóknin  var unnin af þeim Jóhanni Óla Hilmarssyni og Ólafi Einarssyni. Fuglar voru taldir í voginum Kópavogi í 29 talningum á árinu 2013. Þetta var gert til að sjá hvaða breytingar hefðu orðið á fuglalífi vogsins frá ítarlegum talningum 1980 til 1981. Einnig var talningin borin saman við tölur frá árinu 1997 og 2009.

Niðurstaðan sýnir að andfuglum fjölgaði á þessum rúmu þremur áratugum eða þeir stóðu í stað og að margæs er nú reglulegur vorgestur, en sést jafnframt á haustin. Álft, grágæs, rauðhöfðaönd og toppönd fjölgaði, á meðan stokkönd og æðarfugl stóðu í stað að mestu.

Niðurstöður sýna einnig að flestum vaðfuglum fækkaði, eins og áður sagði, sérstaklega heiðlóu, rauðbrystingi, sendlingi og lóuþræl, en minna sandlóu og tildru. Tjaldi fækkaði fram til 1997, en síðan stóð hann í stað. Litlar breytingar urðu á tölu stelka en jaðrakan fjölgaði síðsumars. Hann sást varla í fyrri talningum.

Litlar breytingar urðu í fjölda hettumáfa, meðan sílamáfi, hvítmáfi og kríu hefur fækkað. Stari stendur í stað, aðrir spörfuglar eru það sjaldgæfir að ekki er grundvöllur fyrir framsetningu upplýsinga um stöðu þeirra. Nýr landnemi, svartþröstur, hefur þó stungið upp kollinum við voginn.

Fuglalíf í Kópavogi.