Íbúar Glaðheima ánægðir með hverfið

Frá Glaðheimahverfinu 2020.
Frá Glaðheimahverfinu 2020.

Staðsetning og nálægð við þjónustu skipti miklu máli þegar íbúar í Glaðheimum í Kópavogi tóku ákvörðun um að flytja í hverfið. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var meðal íbúa í Glaðheimum í sumar.

Tilgangur könnunarinnar var að leitast við að vega og meta nýtt hverfi út frá viðhorfi íbúa og munu niðurstöður könnunarinnar nýtast við áframhaldandi skipulagsgerð og framkvæmdir í Kópavogi.

Í heildina tekið eru niðurstöður könnunarinnar mjög jákvæðar. Fólk er almennt ánægt með hverfið. Flestir fluttu í hverfið úr Reykjavík og Kópavogi, og flestir svarendur búa í eigin íbúð. Ljóst er að það að finna réttu íbúðina skipti miklu máli þegar ákveðið var að flytja í hverfið, en 88% sögðu það hafa skipt miklu eða fremur miklu máli að finna réttu íbúðina.

Í könnuninni kemur fram að 94% íbúa eru fremur sátt eða mjög sátt með nálægð við þjónustu í hverfinu en 75% íbúa töldu það mikilvægan þátt þegar ákvörðun var tekin um að flytja í hverfið. 84% íbúa segja staðsetningu hafa skipt miklu máli þegar ákveðið var að flytja í hverfið. Tæp 60% svarenda segjast jafnframt fremur eða mjög ánægð með nálægð við náttúru í hverfinu.

Skipulag hverfisins skipti 66% íbúa máli þegar ákveðið var að flytja í hverfið,  Það svarhlutfall er svipað þegar kemur að ánægju með skipulag eftir að íbúinn er fluttur í hverfið og eru 64% íbúa í hverfinu fremur eða mjög ánægðir með það, og 26% svöruðu í meðallagi.

75% svarenda eru fremur eða mjög ánægðir með hjóla- og gönguleiðir, en rúmlega helmingur er í meðallagi ánægður með almenningssamgöngur.

Í heildarniðurstöðum könnunarinnar sést að útlit hverfisins skipti máli við val á hverfinu, þó það hafi kannski ekki haft úrslitaáhrif. Eftir flutning í hverfið eru 80% svarenda ánægðir með útlitið, og skipti það eigendur íbúða meiru máli en leigjendur og þá sem búa í foreldrahúsum.

Mikil ánægja er með lýsingu í hverfinu en 82% segjast fremur eða mjög ánægðir, tæp 80% svarenda eru fremur eða mjög ánægðir með sorpgeymslur hverfisins, og 63% svarenda eru fremur eða mjög ánægðir með bílastæði og bílageymslur.

Maskína gerði könnunina fyrir Kópavogsbæ og lagði hana fyrir íbúa dagana 21.júlí til 12. ágúst.

Í Glaðheimum eru nú 12 fjölbýlishús, öll við Álalind og Bæjarlind. Búið er í um 250 íbúðum og eru íbúar 18 ára og eldri um 310, svarhlutfall 18 ára og eldri var 54,4% en svarhlutfall þeirra sem tengiliðaupplýsingar voru til um var 73,3%, sem telst mjög gott.