Öflugt menningarlíf í Kópavogi

Ársskýrlsa menningarhúsanna 2017
Ársskýrlsa menningarhúsanna 2017

Ríflega 230.000 gestir sóttu Menningarhúsin í Kópavogi heim árið 2017 á 798 viðburðum sem þar fóru fram. Þar af var fjöldi leikskóla- og grunnskólanema í skipulögðum heimsóknum 7.530.

Þetta kemur fram í viðamikilli skýrslu um menningarmál Kópavogsbæjar sem kom út í dag. Í henni er farið yfir starfsemi menningarmála í Kópavogi frá janúarbyrjun 2017 til maíloka 2018 auk þess sem hún hefur að geyma  áætlanir málaflokksins út árið 2018.

Skýrslan telur 107 blaðsíður. Þar er fjallað um menningarstefnu, hlutverk og leiðarljós málaflokksins, stefnumörkun, styrkveitingar, auk greiningar á fjármálum og mannauðsmálum. 

Í samantektinni er gerð ítarleg úttekt á hlutverki, framtíðarsýn og markmiðum þeirra fimm Menningarhúsa sem undir málaflokkinn heyra, en það eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Salurinn. Þar eru einnig kynntar lykiltölur málaflokksins og húsanna hvers fyrir sig fyrir árin 2017 og 2018 og helstu verkefnum þeirra gerð ítarleg skil. Fimmtíu og sjö starfsmenn vinna að menningarmálum í Kópavogi í þrjátíu og fjórum stöðugildum.

Eins og fram kemur í skýrslunni er menningarlífið í Kópavogi í miklum blóma. Aðsókn hefur aldrei verið betri, fjöldi viðburða, sem meðal annars hafa laðað að nýja gesti, hefur aukist og eftirspurn eftir nýtingu rýma á borð við Salinn hefur vaxið til muna. 

Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi,  segir af þessu tilefni:  „Það var tímafrekt verk að gera úttekt á hinu yfirgripsmikla menningarlífi sem fram fer í Menningarhúsunum í Kópavogi en skýrslan er afar mikilvægt verkfæri í þeirri stefnumótunarvinnu sem málaflokkurinn ætlar að ráðast í í haust. Tilgangur samantektarinnar er að henda reiður á menningarlífið í bæjarfélaginu, meta stöðu einstakra þátta, mæla þátttöku og frammistöðu út frá ólíkum sjónarmiðum og leggja grundvöll að mælanlegum þáttum sem geta haft áhrif á eftirfylgni þeirra.“ 

Það sem helst stendur upp úr árin 2017 og 2018 er aukið þverfaglegt samstarf Menningarhúsanna í Kópavogi sem styrkir þau einnig hvert um sig í sessi. Fjölmenning fær aukið rými í starfsemi húsanna á næstu misserum, hugað verður að list í opinberu rými, auk þess sem lögð verður áhersla á að styrkja núverandi starfsemi Menningarhúsanna með ýmsum hætti. Enn þá stendur yfir vinna við að móta nýtt yfirbragð Menningarhúsanna og  nýjar heimasíður Menningarhúsanna litu dagsins ljós í lok maímánaðar undir höfuðsíðunni menningarhusin.kopavogur.is. Komið hefur verið á samstarfi við hóp listamanna í grasrótinni, stórar listahátíðir hafa verið styrktar sem og listamenn og listastofnanir og verður áfram hugað að enn frekari eflingu í þá veru.

Ritstjóri skýrslunnar er Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, um samræmingu sá Capacent en umbrotið var í höndum Studio Studio.

Ársskýrsla menningarhúsanna 2017