Tillaga að útfærslu vegamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar

Úr tillögu að gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar.
Úr tillögu að gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar.

Unnin hefur verið ný og breytt útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar sem er frábrugðin þeirri lausn sem kynnt var í mati á umhverfisáhrifum. Tillagan felur í sér ljósastýrð vegamót sem þó taka mið af landfræðilegum aðstæðum en fallið yrði frá hugmyndum um fullbúin mislæg vegamót. Unnið verður áfram með sveitarfélögum að þessari lausn en þrýst er á breytingar t.d. af viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu vegna neyðaraksturs. Stefnt er að útboði á næsta ári.

Arnarnesvegur (411) flokkast sem stofnvegur í umsjá Vegagerðarinnar. Matsskýrsla vegna Arnarnesvegar á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar er frá febrúar 2003 og úrskurður Skipulagsstofnunar um matið er frá því í júlí 2003.

Í úrskurðinum er fallist á lagningu fyrirhugaðs Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt valkosti Vegagerðarinnar eins og hann var kynntur í matsskýrslu. Fallist var á framlagðar útfærslur vegamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. 

Fyrsti áfangi Arnarnesvegar var byggður á milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar, annar áfangi var opnaður árið 2016 og var frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Þriðji áfangi, sem nú er fyrirhugaður, er á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík og er um 1,3 km að lengd. Vegkaflinn er hluti af samkomulagi ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á á samgönguinnviðum, samgöngusáttmálanum.

Vegagerðin hefur unnið náið með sveitarfélögunum Kópavogi og Reykjavík við undibúning fyrirhugaðs áfanga Arnarnesvegar. Umtalsverður hæðarmunur á Breiðholtsbraut og aðliggjandi umhverfi takmarkar hvaða lausnir koma til greina. 

Nánar á vef Vegagerðarinnar.