Sex tíma gjaldfrjáls leikskóli og aukinn sveigjanleiki

Breytingar á leikskólaumhverfi taka gildi 1. september.
Breytingar á leikskólaumhverfi taka gildi 1. september.

Gjaldfrjáls leikskóli í sex tíma á dag og aukinn sveigjanleiki í dvalartíma, tekjutenging leikskólagjalda og heimgreiðslur til foreldra eru meðal tillagna starfshóps um skipulag og starfsumhverfi í leikskólum í Kópavogi sem bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum þriðjudaginn 27. júní.

Meðal helstu markmiða í tillögum starfshópsins er að skapa meiri stöðugleika og vellíðan í leikskólum, börnum, foreldrum og starfsfólki til hagsbóta.

Breytingarnar taka gildi 1. september og þá verður sex tíma dvöl eða skemmri á leikskólum gjaldfrjáls, en áfram verður greitt fyrir fæðisgjöld. Dvalargjöld umfram sex tíma taka hækkunum sem fara stigvaxandi með auknum dvalartíma. Á sama tíma verður komið til móts við tekjulág heimili með tekjutengdum afslætti. Opnunartími leikskóla verður óbreyttur frá hálfátta til hálffimm en skipulagt leikskólastarf mun einkum fara fram frá níu til þrjú.

„Þessar breytingar marka tímamót í skipulagi leikskólastarfs í Kópavogi. Erfiðlega hefur gengið að manna lausar stöður, veikindadagar hafa aukist verulega en á sama tíma hefur kostnaðarþátttaka foreldra lækkað og er komið í 12% af kostnaði leikskóla. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða með það að markmiði að bæta þjónustu og mönnun á leikskólum. Tillögur starfshópsins voru unnar í víðtæku samráði við helstu hagaðila og eru breytingarnar sameiginleg sýn þeirra sem tóku þátt í vinnunni.

Breytingarnar eru í senn róttækar og spennandi. Með þeim erum við að auka sveigjanleika í leikskólakerfinu og efla leikskólastarfið með hag barnanna í fyrsta sæti, enda er Kópavogur barnvænt sveitarfélag. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og það er mjög mikilvægt að hlúa vel að því, bæði með hag barna sem og starfsfólks að leiðarljósi.“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.

Börnin sett í fyrsta sæti

Tillögurnar byggja á þeirri sýn að velferð og vellíðan barna á leikskólaaldri sé best borgið með hæfilega löngum leikskóladegi. Því standa vonir til þess að þær breytingar sem felast í tillögunum muni stytta dvalartíma barna enda hafa sífellt fleiri foreldrar svigrúm til þess með auknum sveigjanleika á vinnumarkaði.

Lagt er til að starfsemi leikskóla verði takmörkuð milli jóla og nýárs, dymbilviku og í vetrarleyfum í þeim tilgangi að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum, meðal annars með tilliti til skipulags, álags og breytinga á vinnufyrirkomulagi starfsfólks. Til að koma til móts við foreldra sem ekki hafa tök á að hafa börn sín heima verða að minnsta kosti tveir til fimm leikskólar opnir hverju sinni og starfsfólk sem þekkir börnin starfandi þar. Leikskólagjöld verða felld niður hjá þeim sem ekki nýta þjónustu þá daga sem lokað er.

Heimgreiðslur til foreldra verða teknar upp fyrir foreldra barna sem ekki eru í vistun í leikskóla eða hjá dagforeldri frá 15 mánaða aldri og þar til þau komast í leikskóla eða til dagforeldris. Upphæðir miðast við framlög með börnum hjá dagforeldrum sem eru í dag 107 þúsund krónur.

Þá verður farið í samstarfsverkefni um leikskóladeild fyrir 5 ára börn í rými innan grunnskóla Kópvogs með það að markmiði að fjölga leikskólarýmum og styrkja samstarf og samfellu á milli leik- og grunnskóla.

Starfshópurinn

Starfshópinn skipuðu þrettán fulltrúar starfsfólks leikskóla, foreldra, fulltrúa stéttarfélaga, starfsfólks menntasviðs og kjörinna fulltrúa. Hópurinn átti víðtækt samráð við helstu hagaðila við greiningu á þeim vanda sem leikskólakerfið stendur frammi fyrir og við mótun tillagna starfshóps.

Starfshópinn skipuðu: Matthías Imsland, formaður leikskólanefndar og formaður starfshópsins, Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, Sigurður Sigurjónsson , formaður Félags stjórnenda leikskóla, Marta Ólöf Jónsdóttir, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, Hreiðar Oddson, fulltrúi minnihluta í bæjarstjórn, Andri Steinn Hilmarsson, fulltrúi meirihluta í bæjarstjórn, Birna Hrund Jónsdóttir, fulltrúi foreldra í foreldraráðum leikskóla, Anna Gyða Sveinsdóttir, fulltrúi starfsfólks leikskóla í Starfsmannafélagi Kópavogs, Gunnhildur Elva Árnadóttir, fulltrúi starfsfólks leikskóla í Félagi leikskólakennara og BHM, Gerður Magnúsdóttir, fulltrúi stjórnenda í leikskólum Kópavogs, Sóley Gyða Jörundsdóttir, fulltrúi stjórnenda í leikskólum Kópavogs, Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs, Sigurlaug Bjarnadóttir, deildarstjóri leikskóladeildar.

Á næstu dögum mun upplýsingasíða um breytingarnar verða gerð aðgengileg.