Kópurinn 2021

Á myndinni má sjá viðurkenningarhafa ásamt Margréti Friðriksdóttur, forseta bæjarstjórnar og forman…
Á myndinni má sjá viðurkenningarhafa ásamt Margréti Friðriksdóttur, forseta bæjarstjórnar og formanni menntaráðs.

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 19. maí. Alls bárust 16 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.

Verkefnin sem hlutu Kópinn í ár:

Sigrún Erla Ólafsdóttir og kennarar á unglingastigi í Álfhólsskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt BÍP – bland í poka sem er þróunarverkefni á unglingastigi. Í BÍP og BÍP-vali er samþætting margra ólíkra námsgreina og er nám og kennsla skipulögð í teymisvinnu kennara og eru sérkennarar með í þessari teymisvinnu. Í BÍP vinnur hvert teymi með ákveðið þema í einum árgangi í 4-6 vikur í senn. Notast er við mjög fjölbreyttar kennsluaðferðir til þess að reyna að komast til móts við sem fjölbreyttastan hóp nemenda. Almennt er skipulagið þannig að kennarar leggja inn ákveðið efni á ýmsa vegu,. til dæmis með hefðbundinni innlögn, púslaðferð, leikjum, myndbandi, samlestri eða á annan veg. Að innlögn lokinni vinna nemendur fyrirfram ákveðinn fjölda skylduverkefna og svo í kjölfarið valverkefni. Öll verkefnin eru skipulögð út frá hæfniviðmiðum þeirra námsgreina sem samþættar eru hverju sinni en að auki hafa nemendur tækifæri til að tengja sjálfir hæfniviðmið við verkefnið sem þeir vilja efla hjá sjálfum sér ef þeir sjá færi til að sýna fram á hæfnina í gegnum verkefnið.

Ragna Óladóttir í Smáraskóla, ásamt samkennurum á yngsta stigi, hlaut viðurkenningu fyrir Kartöfluverkefnið. Smáraskóli hefur árlega pantað aðgang að kartöflugarði á Kópavogstúni sem er um 25 fermetrar. Að vori í 2. bekk fer árgangurinn með um fimm kíló af útsæði sem spírar í skólastofunni og er svo sett niður um mánaðarmótin maí/júní. Skólinn á áhöld, kartöflugaffla, áburð og fleira. Að hausti í 3. bekk, um miðjan september, fara nemendur í garðinn og taka upp. Oft hefur uppskeran verið í kringum tólf til fimmtán kíló og nemendur ýmist notað uppskeruna í skólanum eða fengið með sér heim. Í ferlinu öllu er unnið eitt stór þemaverkefni í hvorum árgangi, auk margvíslegra smærri verkefna tengdum kartöflum, til dæmis haldin vettvangsbók, verkefni tengd stærðfræði (vigtun, stærðarflokkun og svo framvegis), náttúrufræði, kartöflubingó, kartöfluuppskriftir í heimilisfræði og fleira.

List-, verk- og valgreinakennarar í Hörðuvallaskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Fjarnám í list- verk- og valgreinum. Á meðan takmarkanir voru á skólastarfi á unglingastigi vegna Covid-19 frá byrjun október og fram að jólafríi 2020, færðu list-, verk- og valgreinakennarar kennsluna yfir í fjarkennsluform. Þar sem skólinn er í tveimur byggingum og list-, verk og valgreinakennarar máttu ekki fara á milli bygginga til að sinna elsta stigi í smiðjum, var ákveðið að fara í fjarnám í list-, verk- og valgreinum. Kennarar í þeim greinum hittu nemendur á Google Meet samkvæmt stundatöflu og útskýrðu verkefni sem þeir höfðu útfært sem fjarnámsverkefni. Kennarar bjuggu til fjölbreyttar og ítarlegar verkefnalýsingar, kennslumyndbönd og voru einnig tiltækir á vefspjalli þannig að nemendur gætu leitað til þeirra. Nemendur útbjuggu kennslumyndbönd í hreyfingu og hreysti, gerðu æfingar og notuðu hreyfiforrit til að taka upp hversu langt þau fóru og sendu á kennara, útbjuggu glærukynningar eða myndbandskynningar í First Lego, greindu vandamál í skýjagljúfrum og fundu lausnir, hönnuðu og teiknuðu landslag með hjálp Google Maps, bökuðu, elduðu, hönnuðu og lærðu að endurvinna fatnað og semja tónlist, fengu fróðleik um fatasóun, skoðuðu myndbönd og verkefni um pílukast, stunduðu jóga í gegnum Google Meet, hönnuðu lógó, unnu með litahring og bjuggu til snillingsverk af sjálfum sér svo eitthvað sé nefnt.

Ari Magnús Þorgeirsson, forstöðumaður frístundar Vatnsendaskóla, hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt, Barnaráð Stjörnuheima. Í Stjörnuheimum er lögð rík áhersla á að byggja upp starfið á forsendum og þörfum barna. Það er því mikilvægt að börnin fái að taka virkan þátt í að taka ákvarðanir sem varða starfið. Barnaráð og hugmyndakassi eru einföld og áhrifarík verkfæri til þess að koma hugmyndum í verk og auka þar af leiðandi gildi sjónarhorns barna. Barnaráðið gefur starfsmönnum einnig tækifæri til þess að sjá frístundastarfið frá sjónarmiði barna. Barnaráðið kynnir jafnframt börn fyrir formlegu lýðræði og undirbýr þau fyrir þátttöku í samfélaginu.

Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir,  hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Félagsmiðstöð án aðgreiningar í Kópavogsskóla. Brynhildur er nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ og vann lokaverkefni sitt í samvinnu við félagsmiðstöðina Kjarnann í Kópavogsskóla. Verkefnið gekk út á að aðstoða tvo fatlaða drengi við að aðlagast inn í starf félagsmiðstöðvarinnar svo þeir gætu tekið virkan þátt í dagskránni þar, kynnst jafnöldrum sínum sem og starfsfólki félagsmiðstöðvarinnar og mæta í félagsmiðstöðina á almennum opnunartíma. Einnig skrifaði hún handbók sem nýtist öðrum félagsmiðstöðvum við að taka vel á móti unglingum með fötlun og virkja þá í starfið sitt.

Anna Reynarsdóttir, Atli Jóhannsson, Sigríður Elsa Vilmundardóttir og Smári Þorbjörnsson hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Sprettur, sem er þróunarverkefni á unglingastigi Vatnsendaskóla í Kópavogi. Verkefnið hófst á haustmánuðum 2019 með samþættingu fjögurra námsgreina. Verkefnið var skipulagt til fimm ára með stöðugu endurmati á gæðum og gildum starfsins. Skipulag Spretts er að útbúa vinnulotur sem ná yfir þriggja til fjögurra vikna tímabil og hafa ákveðið þema til að byggja verkefni á. Verkefni eru sett fram á skemmtilegan og líflegan máta svo nemendur geti betur tengt við vinnslu og úrlausnir á þeim. Reynt er að hafa fjölbreytta nálgun á efnistökum og gefa nemendum valmöguleika á skilum sem geta hentað hverjum og einum. Þannig styrkjast nemendur í að þekkja eigin styrkleika, kynnast fjölbreyttum vinnuaðferðum, læra að vinna með ólíkum einstaklingum ásamt því að læra betur á sig sjálf í eigin námi.

 Önnur verkefni sem tilnefnd voru til Kópsins í ár voru eftirfarandi:

Hreyfimyndagerð í einstaklingsmiðuðu námi í Kópavogsskóla, Teymiskennsla í 5. bekk í Smáraskóla, Verkmappa í Landnámi Íslands – Sturlungaöld í Álfhólsskóla, Lesum hraðar í Hörðuvallaskóla, Lestrar- og stærðfræðiefni á rafrænu formi í Salaskóla, Útikennsla í 2. bekk í Smáraskóla, Samvinnunámskrá í námsveri í Kópavogsskóla, Lokaverkefni í list- og verkgreinum í Álfhólsskóla, Hæfnimiðað verkefnanám í Hörðuvallaskóla og Skólaþing í Smáraskóla