- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar var 322 milljónir króna á fyrri hluta árs 2016. Gert hafði verið ráð fyrir tapi upp á 37 milljónir króna. Ástæða mismunarins er einkum að skatttekjur eru heldur hærri en reiknað var með og að bókuð er tekjufærsla vegna lóðaúthlutana, sem ekki var á áætlun. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Kópavogs fyrir 1. janúar til 30. júní 2016 sem lagður var fram í bæjarráði í dag, 8. september.
„Reksturinn gengur vel og er í samræmi við áætlanir. Það gengur hraðar að lækka skuldahlutfall en áætlanir gerðu ráð fyrir og við erum því bjartsýn á framhaldið. En það má benda á að við höfum verið í stöðugu efnahagsumhverfi og það eru vísbendingar um að verðbólgan kunni að hækka sem myndi bitna á bæjarsjóði eins og landsmönnum öllum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Þess má geta að á fyrri helmingi árs falla um 48-49% af skatttekjum ársins en hins vegar stærri hluti útgjalda hjá ákveðnum sviðum. Samkvæmt uppgjörinu hafa heildarskuldir samstæðu bæjarins lækkað nettó frá áramótum um 234 milljónir þrátt fyrir að verðtryggð lán hafi hækkað á fyrri árshelmingi vegna verðbólgu og að lífeyrisskuldbindingar hafi hækkað um 195 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði, afskriftir og lífeyrisskuldbindingar var jákvæð um 2.391 milljónir króna. Þetta þýðir að framlegðarhlutfall samstæðu var um 18%, en í reglum frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga er gert ráð fyrir að framlegðarhlutfallið sé á bilinu 15-20%.