Áhrif Covid á skólastarf

Áhersla er á að viðhalda skólastarfi í Kópavogi.
Áhersla er á að viðhalda skólastarfi í Kópavogi.

Áhrif Covid á leik- og grunnskóla í Kópavogi í haust eru af ýmsum toga en áhersla er lögð á óskert skólastarf það haft að leiðarljósi að viðhalda og vernda skólastarf eins og kostur er, með velferð barna að leiðarljósi.  Eins og á við um skólastarf á öllu höfuðborgarsvæðinu en mikið samstarf og samráð er milli sveitarfélaga og almannavarna og sóttvarnayfirvalda um skipulag skólastarfs.

Grunnskólar

1436 nemendur í grunnskólum Kópavogs hafa farið í úrvinnslusóttkví og 221 starfsmenn það sem af er hausti. Þar af hafa 747 nemendur verið úrskurðaðir í sóttkví eftir vinnu smitrakningateymis og 93 starfsmenn. Þessar tölur eru  frá 15.október.

Sóttkví hefur í flestum tilvikum varað í 7 daga eða skemur og lokið með skimun þess hóps sem settur var í sóttkví.

 Leitast hefur verið við að skipuleggja skólastarfið þannig að ef upp kemur smit fari ekki allur skólinn í sóttkví heldur afmarkaður hópur. Í mörgum tilvikum er það aldurshópur stigskiptur, svo sem yngsta stig, miðstig eða unglingastig.

  Skipulag leikskóla- og skólastarfs og sóttvarnir hafa ekki síst miðað að því að draga úr líkum á smiti innan stofnana og það hefur virkað vel því afar fá dæmi eru um smit innan skóla og leikskóla milli einstaklinga.

Í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæði var íþróttastarf og -æfingar fyrir þennan aldur svo og samæfingar tónlistarskóla felld niður, skólasund var fellt niður og skólaíþróttir fara fram utan dyra. Menntasvið kynnti í síðustu viku fyrir skólastjórnendum drög að viðmiðum vegna fjarnáms og fjarkennslu og eru sumir skólastjórnendur þegar farnir að nýta sér þau.

Leikskólar

Smit sem leitt hafa til sóttkvíar hafa komið upp í sex af 19 leikskólum Kópavogs. Í leikskólum hafa 521 börn farið í úrvinnslusóttkví og 252 starfsmenn. Þar af hafa 479 börn  verið úrskurðuð sóttkví eftir vinnu smitrakningateymis og 210 starfsmaður. Tölurnar eru frá 15.október.

Leikskólastjórar hafa leitast við að skipuleggja starfið  þannig að blöndun sé sem minnst og skörun við aðra hópa í leikskólanum. Þá hefur reynsla stjórnenda af smitum undanfarið verið góður lærdómur og leikskólastjórar hafa verið afar skapandi og átt gott frumkvæði að því að styrkja sóttvarnir foreldra og starfsmanna með sprittáhöldum við hliðin og þess háttar.

Einnig er reynt að lágmarka alla sameiginlega snertifleti, foreldrar skila og sækja börn úti eða í anddyri leikskóla og aðgengi allra utanaðkomandi er í algjöru lágmarki. Öll þjónusta við börn er þó veitt með viðeigandi sóttvörnum.

Smitrakning

Hlutverk skólastjórnenda við smitrakningu hefur aukist mikið svo og samstarf og samskipti við smitrakningateymi.  Skólastjórnandi leik- og grunnskóla ber nú ábyrgð á smitrakningu og samskiptum við stuðningsteymi, smitrakningateymi og aðra aðila þegar upp kemur smit í skóla, samanber https://www.ahs.is/smitrakning-2/.  Skólastjórnandi vinnur í samráði við sviðsstjóra eða aðra úr stuðningsteymi til upplýsingamiðlunar og samráðs vegna smitrakningar. Stuðningsteymi stjórnenda er skipað sviðsstjóra, almannatengli og deildarstjóra grunnskóladeildar.

Mikið og gott samráð og samstarf er milli sviðsstjóra á höfuðborgarsvæðinu og almannavarnardeildar sem hefur reynst afar gagnlegt.

Áhersla er lögð á persónulegar sóttvarnir og þá hafa þrif verið aukin verulega.