Árshlutareikningur Kópavogsbæjar

Árshlutareikningur var lagður fram í bæjarráði 20.ágúst 2020.
Árshlutareikningur var lagður fram í bæjarráði 20.ágúst 2020.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Kópavogsbæjar, A og B hluta, var neikvæð um 443 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2020. Áætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhalla að upphæð 75 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins á samstæðunni, en 597 milljón króna afgangi á árinu öllu, enda falla tæpur helmingur skatttekna til á fyrri hluta árs en stærri hluti útgjalda á ákveðnum sviðum. Heildarskuldir samstæðunnar lækkuðu á fyrri helmingi árs um 210 milljónir meðal annars vegna uppgreiðslu á óhagkvæmum lánum.

Þetta kemur fram í óendurskoðuðum árshlutareikningi Kópavogs fyrir 1. janúar til 30. júní 2020 sem lagður hefur verið fram í bæjarráði Kópavogs.

Skýring mismunar á áætlun og niðurstöðu rekstrarniðurstöðu samstæðunnar er tekjufall vegna COVID-19. Þar má nefna að útsvarstekjur eru lægri en gert var ráð fyrir, sundlaugar voru lokaðar hluta tímabilsins með tilheyrandi tekjutapi og þá hefur sveitarfélagið endurgreitt ýmis gjöld á tímabilinu svosem leikskólagjöld og leigugjöld þar sem loka hefur þurft starfsemi vegna COVID-19.

„Við stöndum frammi fyrir umtalsverðu tekjufalli og ljóst að hremmingum Covid-19 fylgir mikill kostnaður, ekki síst í velferðar- og menntamálum. Í ljósi þess verður stærsta áskorunin að standa vörð um grunnþjónustu bæjarins og er lántaka óhjákvæmileg í því samhengi. Bæjarstjórn tók þá ákvörðun í upphafi faraldursins að skera ekki niður framkvæmdir heldur þvert á móti að auka við þær til að ýta undir hærra atvinnustig og þar með draga úr atvinnuleysi. Það er jákvætt að skuldir bæjarins lækkuðu um 210 milljónir á fyrri hluta árs sem er gott veganesti fyrir verkefnin framundan,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogi.

Árshlutareikningur Kópavogs 30.júní 2020