Ársskýrsla velferðarsviðs komin út

Skrifstofur velferðarsviðs
Skrifstofur velferðarsviðs

Ársskýrsla velferðarsviðs Kópavogs fyrir árið 2012 hefur nú litið dagsins ljós. Í henni má finna margvíslegar upplýsingar um starfsemina á síðasta ári, svo sem fjölda barnaverndartilkynninga, fjölda þeirra sem þáðu fjárhagsaðstoð, biðlista eftir félagslegum íbúðum og fleira. Jafnframt er farið yfir sögu félagsþjónustunnar þar sem fjörutíu ár eru nú liðin frá því skipulögð félagsþjónusta var sett á laggirnar í bænum.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að um 650 einstaklingar og fjölskyldur hafi fengið fjárhagsaðstoð á ári frá bænum á undanförnum árum en slík aðstoð er veitt þeim sem eru undir ákveðnum tekjumörkum og geta ekki framfleytt sér og sínum. Þessi fjöldi ríflega tvöfaldaðist eftir hrunið 2008.

Alls 647 fjölskyldur fengu fjárhagsaðstoð á árinu 2012 samanborið við 658 árið á undan. Dregin er sú ályktun að hámarkinu hafi verið náð en þó er búist við að eitthvað fjölgi aftur í hópnum á þessu ári þar sem réttur til atvinnuleysisbóta var ekki framlengdur á síðasta ári eins og árin á undan. Það þýðir að einhver fjöldi sem er án vinnu hefur fullnýtt réttinn til atvinnuleysisbóta og er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þá eina úrræðið.

Í skýrslunni er fjallað um úthlutun félagslegra leiguíbúða á vegum bæjarins en 28 fengu úthlutað íbúð á síðasta ári. 24 fengu úthlutað árið á undan en 48 árið 2010. Fjöldinn ræðst m.a. af því hversu mikil hreyfing er á því fólki sem leigir félagslegar íbúðir og hve margar nýjar íbúðir bætast við. Í árslok 2012 voru 393 íbúðir til útleigu. Fjórar nýjar íbúðir voru keyptar á því ári. Alls 141 var á biðlista í árslok.

Að lokum má geta þess að barnaverndarnefnd bárust 462 tilkynningar á árinu. Þar af snerust 198 tilkynningar um vanrækslu barna. Slíkum tilkynningum hefur á síðustu árum fjölgað frá skólum en ekki margar tilkynningar koma frá leikskólum.

Alls 172 stöðugildi eru nú undir velferðarþjónustu bæjarins og starfa þar langflestir við þjónustu við fatlað fólk. Sem kunnugt er voru málefni fatlaðra færð undir sveitarfélögin fyrir nokkrum misserum.

Ársskýrsla velferðarsviðs