Endurskoðaðar siðareglur samþykktar

Skjaldarmerki Kópavogsbæjar
Skjaldarmerki Kópavogsbæjar
Siðareglur

 kjörinna fulltrúa í Kópavogsbæ hafa verið endurskoðaðar og breytingar samþykktar af bæjarstjórn. Endurskoðun reglanna var á hendi forsætisnefndar en þær voru samþykktar einróma á fundi bæjarstjórnar 27. janúar síðastliðinn. Reglurnar voru lagðar fram til undirritunar á fundi bæjarstjórnar 24. febrúar að fenginni staðfestingu innanríkisráðuneytisins.

Kópavogsbær var fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að setja sér siðareglur árið 2009. Í núverandi endurskoðun felast einkum tvenns konar breytingar. Annars vegar eru siðareglurnar ekki lengur fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur bæjarins, heldur eingöngu kjörna fulltrúa, hins vegar hefur verið bætt við ákvæði um málsmeðferð vegna ætlaðs brots.

Samkvæmt gildandi sveitarstjórnarlögum ber að senda innanríkisráðuneytinu siðareglur til staðfestingar. Ráðuneytið staðfestir einungis siðareglur fyrir kjörna fulltrúa sem skýrir hvers vegna siðareglum var breytt á þann veg að nú gilda þær eingöngu fyrir kjörna fulltrúa.

Markmið reglanna er eins og fram kemur í fyrstu grein þeirra að „skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Kópavogsbæjar og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.“

Með kjörnum fulltrúum er átt við bæjarfulltrúa og aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum Kópavogsbæjar.

Forsætisnefnd sker úr hvort reglurnar hafa verið brotnar og tekur mál til umfjöllunar að eigin frumkvæði eða á grundvelli skriflegrar rökstuddrar ábendingar. Nefndin getur lagt til að forseti bæjarstjórnar ávíti viðkomandi vegna brotsins ef nefndin telur að um brot sé að ræða.

Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Kópavogsbæ.