Kópavogsfélagið verður stofnað 21. mars

Hressingarhælið
Hressingarhælið
Kópavogsbær stendur fyrir stofnun félags áhugafólks um endurreisn Hressingarhælisins og Kópavogsbæjarins 21. mars næstkomandi. Stofnfundurinn verður haldinn í bæjarstjórnarsalnum, Fannborg 2, og hefst hann kl. 17. Á fundinum verður kynnt stofnsamþykkt félagsins og kosnir þrír stjórnarmenn og einn til vara.
Bæjarstjórn Kópavogs hefur þegar kosið stjórnarmenn af sinni hálfu, þau Margréti Björnsdóttur formann, Garðar H. Guðjónsson, Kristin Dag Gissurarson og Unu Björg Einarsdóttur varamann. Auk Kópavogsbæjar geta einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki átt aðild að félaginu. Allir sem mæta á stofnfundinn hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir í stjórn.
 
Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar hefur félagið hlotið nafnið Kópavogsfélagið. Tilgangur þess er tvíþættur. Annars vegar mun stjórn félagsins ljúka hugmyndavinnu og gera tillögur til bæjarráðs um hvaða starfsemi á að vera í húsunum tveimur. Stjórn er ætlað að skila bæjarráði rökstuddum tillögum um þetta eigi síðar en þremur mánuðum eftir stofnfund. Hins vegar mun félagið afla fjár til framkvæmda við endurbyggingu húsanna, en þau voru bæði friðuð á síðasta ári.
 
Þriggja manna starfshópur á vegum bæjarstjórnar hefur unnið að undirbúningi málsins undanfarna 12 mánuði. Hópurinn skilaði greinargerð og tillögu til bæjarstjórnar í júní 2012 og mun hugmyndavinna á vegum Kópavogsfélagsins byggja á niðurstöðum hópsins og samþykkt bæjarstjórnar. Í september síðastliðnum ákvað bæjarstjórn að endurreisn bygginganna skyldi hefjast í ársbyrjun 2013.