- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í gær, fimmtudaginn 16. maí. Alls bárust tuttugu tilnefningar til menntaráðs og voru veittar fimm viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.
Magnús Alfonsson og Halldór Hlöðversson í Kópavogsskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Verkfærakassinn. Um er að ræða verkefni nemenda 10. bekkjar sem stofnuðu „fyrirtækið“ Verkfærakassann sem tekur að sér smáviðgerðir í skólanum á ákveðnum tímum í hverri viku. Verkfærakassinn hefur sérstakt símanúmer, netfang og nafnspjald með upplýsingum svo að auðvelt er að ná sambandi við fyrirtækið. Nemendur hafa lagfært ýmislest sem hefur þurft að laga, m.a. gert við brotinn sófa og reyndar allt þar sem kemur upp og þeir ráða við.
Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi í Hörðuvallaskóla, hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna á þemadögum í Hörðuvallaskóla. Á þemadögunum vann hver árgangur frá 1. – 7. bekk, með eitt heimsmarkmið frá ýmsum hliðum. Anna María útbjó vinnuhefti fyrir hvern árgang með kynningu, verkefnalýsingu, kveikjum, mögulegum afurðum, markmiðum, tengingu við aðalnámskrá og grunnþætti menntunar, lykilhæfni og hvernig hægt er að tengja við aðrar námsgreinar. Vinnuheftin má sjá á eftirfarandi slóð: https://www.kortsen.is/heimsmarkmidavinna. 8. og 10. bekkur fóru í fjáröflun fyrir UNICEF og 9. bekkur setti upp Model UN þing í skólanum. Öll verkefnin snúast um að nemendur geti sett sig í spor annarra og viti að við hér á landi búum við gríðarlegt öryggi á öllum sviðum sem ekki er sjálfgefið.
Sigrún Erla Ólafsdóttir, ásamt Önnu Pálu Gísladóttur og Elísabetu Jónsdóttur, fengu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Öll sem eitt – skólamenningaráætlun Álfhólsskóla. Skólamenningaráætlun tekur til alls skólasamfélagsins. Hún birtist og kemur fram í öllum hliðum skólastarfsins. Í grunninn snýst hún um það að við sem lærdómssamfélag erum öll að vinna að sameiginlegum markmiðum – öll sem eitt. Rannsóknir sýna að vinna með allt skólasamfélagið í heild sinni reynist árangursríkasta leiðin til þess að takast á við og koma í veg fyrir einelti. Aðgerðir gegn einelti þurfa því að beinast að skólanum sem samfélagi fremur en að einstökum börnum. Mikilvægt að vinna með allan hópinn og skapa jákvæða skólamenningu og liðsheild þar sem allir upplifa að þeir séu mikilvægur hluti af hópnum, eigi sér hlutverk og tilgang. Mikilvægt er að gera skólann og námið skemmtilegt með fjölbreyttum kennsluháttum, efla núvitund, sjálfsmynd og seiglu, styrkja vináttu og traust. Skólamenningaráætlun er leiðarvísir um leiðir til að ná þessum sameiginlegu markmiðum með því að efla jákvæða skólamenningu og skólabrag.
iPad-teymi Snælandsskóla, Ragnheiður Eygló Guðmundsdóttir, Guðmunda Hrönn Guðlaugsdóttir, Jóhanna Hjartardóttir og Ásdís Ólafsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Snillismiðja. Snillismiðja er verkstæði í tækni, vísindum og sköpun sem allir nemendur skólans hafa notið góðs af. Í Snillismiðju eru ótal vinnustöðvar sem nýta tækni og sköpunarkraft nemenda. Dæmi um verkefni eru eru Spheroleikhús og dans – forrita spherokúlur sem persónur úr sögu (samþætt við íslensku eða efni sem þau eru að vinna með í tímum), búa til persónuna og handrit, taka upp, klippa og setja inn hljóð; tannburstavélmenni, þar sem nemendur búa til einfalt vélmenni úr tannbursta, rafhlöðu og mótor; rafleiðnikort, þar sem nemendur búa til einfalda rafrás og gera kort sem þau myndskreyta og lýsa upp með peru; býflugur í forritun (samþætt við íslensku og stærðfræði); flóttaleið (breakout) þrautir samþætt við íslensku (t.d. lestararátak); búa til baðsalt með efni úr eldhúsinu; Osmo – verkefni í forritun, íslensku, ensku og stærðfræði; Makey makey – sköpun með rafleiðni (ávextir og fl.); Schratch forritun – verkefni úr vísindasmiðju Háskólans og heimatilbúnum verkefnum sem og fleiri verkefni.
Donata H. Bukowska kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku og Halldór Hlöðversson forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Kjarnans hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Velkomin Prógramm, sem miðar að því að virkja ungmenni með annað móðurmál en íslensku í frístunda- og félagsstörfum. Verkefnið spannaði nokkra daga sitt hvoru megin við sumarfrí þar sem unglingum úr 7. – 9. bekk voru kynnt starfsemi félagsmiðstöðva og þau frístundatilboð sem þeim býðst í Kópavogi. Lögð var áhersla á félagslega þáttinn, virkni og þátttöku en einnig á menningar- og tungumálanám. Unglingarnir gerðu ýmislegt saman til að kynnast hvort öðru og starfsemi félagsmiðstöðvanna. Þau fóru t.d. í heimsókn á bæjarskrifstofur, fóru í morgunbíó, grilluðu saman, fóru í frisbý golf í Fossvogsdal, sigldu á bátum frá Siglingaklúbbnum, fóru í Lazer-tag og gönguferðir svo fátt eitt sé nefnt. Þetta verkefni skilaði glöðum unglingum sem fóru að taka virkari þátt í starfi félagsmiðstöðvarinnar sinnar.
Önnur verkefni sem tilnefnd voru til Kópsins voru eftirfarandi: Akkúrat – innleiðing á núvitund í Hörðuvallaskóla,Verkleg stærðfræði í Vatnsendaskóla, Heimalestur á unglingastigi í Álfhólsskóla, Lanmót félagsmiðstöðva í félagsmiðstöðum í Kópavogi, Söngleikjaval í Álfhólsskóla, Bókasafn Hörðuvallaskóla, Umhverfisfræði og handritagerð í Snælandsskóla, Hæfniviðmið, vinna með nemendum í Hörðuvallaskóla, Móðurmál í stafrænum heimi í Álfhólsskóla, Námsumhverfi í Vatnsendaskóla