Launarannsókn sýnir lítinn kynbundinn launamun

Logo Kópavogs
Logo Kópavogs

Í umfjöllun um nýja kjarakönnun BHM hefur verið fjallað um að kynbundinn launamunur félagsmanna í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík hafi aukist á milli kannana. Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar fór munurinn að meðaltali úr 9,4% í 11,7%. 

Kópavogsbær vekur í framhaldi athygli á því að niðurstöður nýjustu rannsóknar á launum hjá sveitarfélaginu sýndu að kynbundinn launamunur var 3,25%, körlum í hag.

Markvisst hefur verið unnið að því að jafna laun kynjanna hjá Kópavogsbæ og var rannsóknin liður í þeirri aðgerð. Eins rannsókn verður framkvæmd í haust.  

Rannsóknin, sem unnin var af Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, byggði  á raungögnum úr launadeild og náði þannig til allra fastráðinna starfsmanna bæjarins. Hún er gefur þannig miklu betri mynd af launum hjá bænum en könnun BHM sem 40% þátttaka var í auk þess sem félagsmenn BHM eru einungis hluti starfsmanna sveitarfélagsins. Niðurstöðurnar sýndu ennfremur að heldur dró úr kynbundnum launamun hjá sveitarfélaginu.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs: „Hjá Kópavogsbæ höfum við unnið að því um árabil að draga úr kynbundnum launamun og höldum þeirri vinnu ótrauð áfram. Það er ómaklegt af formanni BHM að fullyrða að launamunur hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavík aukist og steypa þannig öllum sveitarfélögum í sama mót. Okkar rannsóknir, sem eru mun nákvæmari en kannanir, sýna að hjá Kópavogsbæ hefur dregið úr kynbundnum launamun, markmiðið er að útrýma honum. Næsta rannsókn sem við gerum hér mun varpa ljósi á hvernig okkur gengur á þeirri leið. Undirbúningur að þeirri rannsókn hófst í maí og er stefnt að því að kynna niðurstöður hennar um áramót.“