Nýtt aðalskipulag samþykkt í bæjarstjórn

Nýtt aðalskipulag Kópavogs 2012 til 2024 var samþykkt einróma á fundi bæjarstjórnar í gærkvöld. Í aðalskipulaginu er sett fram stefna bæjaryfirvalda um byggðaþróun, landnotkun, byggðamynstur og samgöngu- og umhverfismál til ársins 2024. Lögð er m.a. áhersla á þéttingu byggðar en áætlað er að íbúafjöldi bæjarins verði kominn yfir 40 þúsund árið 2024. Miðað er við að fullgerðar verði um 300 íbúðir á ári þangað til.

Vinna við endurskoðun aðalskipulagsins hefur staðið yfir í um fjögur ár og hefur á þeim tíma verið leitað víðtæks samráðs við íbúa bæjarins. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir í öllum hverfum Kópavogsbæjar og á vef bæjarins var á sínum tíma opnuð vefgátt þar sem leitast var við að virkja enn frekar íbúa til þátttöku í ferlinu. Alls 31 athugasemd barst við sjálfa tillöguna á kynningartíma nú á haustdögum og var á lokametrunum unnið úr þeim.

Í aðalskipulaginu eru skilgreind nokkur þróunarsvæði sem skoða á nánar í framhaldinu en þau eru í Smáranum, að meðtöldum Glaðheimum, Auðbrekku og á Kársnesi. Einnig er í aðalskipulaginu gert ráð fyrir nýrri byggð í Vatnsendahlíð.

Í aðalskipulaginu er aukinheldur gert ráð fyrir því að nánar verði unnið að skipulagi í fimm hverfum bæjarins, þ.e.a.s í Kársnesi, Digranesi, Smáranum, Fífuhvammi og á Vatnsenda. Reiknað er með að í byrjun næsta árs verði m.a. fundað með fulltrúum hverfaráða þar sem farið verði yfir stöðu mála í hverfunum og skilgreind þau verkefni sem brenna á þeim.

Að lokum má geta þess að í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir brú með vistvænum samgöngum yfir Fossvoginn, í samráði  við Reykjavíkurborg sem einnig samþykkti nýtt aðalskipulag í gær.

Aðalskipulag Kópavogsbæjar verður nú sent skipulagsstofnun til staðfestingar.

Eftirfarandi var bókað einróma í bæjarstjórn:

Með tilvísan í afgreiðslu skipulagsnefndar 11. nóvember 2013 og framlögð gögn samþykkir bæjarstjórn Kópavogs hér með Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024 með áorðnum breytingum ásamt ofangreindum umsögnum um athugasemdir og ábendingar er bárust á kynningartíma. Aðalskipulagið byggir á tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 sem auglýst var samtímis tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 og er nú í lokaferli. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir jafnframt að vísa hinu nýja aðalskipulagi Kópavogs til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 32. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt einróma.

Á næstu dögum verður gengið frá samþykktum gögnum sem aðgengileg verða á vef Kópavogsbæjar.