Samþykkir samskiptareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna

Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum í gærkvöld sérstakar samskiptareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna bæjarins. Tilgangur þeirra er að skýra hlutverk stjórnsýslu annars vegar og kjörinna fulltrúa hins vegar sem og að tryggja faglega afgreiðslu allra mála og jafnræði íbúa.

Þetta er í fyrsta sinn sem reglur sem þessar eru samþykktar í Kópavogsbæ og líklega þær ítarlegustu sem sveitarstjórn hefur sett sér.

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, segir að reglurnar séu liður í víðtækum stjórnsýsluumbótum Kópavogsbæjar. „Auðvitað er margt þarna sett á blað sem flestum þykir eðlilegt og sjálfsagt en eins og með siðareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna styrkir það faglega stjórnsýslu að tilgreina sérstaklega hvar línan er dregin milli stjórnmála og stjórnsýslu.  Það er oft talað um freistnivanda kjörinna fulltrúa, en þá er hætt við að ákvarðanir þeirra byggi öðrum þræði á því hvað er til vinsælda fallið fremur en hvað er skynsamlegt og hagfellt fyrir heildina til lengri tíma.  Ef við tryggjum gott samspil milli þessara tveggja þátta, pólitískra ákvarðana og faglegrar stjórnsýslu, hlýtur niðurstaðan að verða betri en ella."

Reglurnar skiptast í fjóra kafla þar sem m.a. er kveðið á um ábyrgð stjórnenda bæjarins, kjörinna fulltrúa, nefndarmanna og samskipti milli þeirra. Í reglunum segir m.a. að þegar stjórnanda sé falið að rita umsögn um ákveðið mál skuli hann hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Kjörnum fulltrúum, öðrum starfsmönnum eða þeim sem eiga hagsmuna að gæta sé óheimilt að hafa áhrif á innihald umsagnar. Verði stjórnandi hins vegar var við slíkan þrýsting sé honum skylt að láta ekki undan og bregðast við.

Þá er í reglunum kveðið á um að einstakir kjörnir fulltrúar hafi ekki umboð til að gefa starfsmönnum fyrirmæli og skuli því ekki hafa bein áhrif á störf þeirra eða ákvarðanir. „Kjörnum fulltrúum er óheimilt að reka erindi bæjarbúa við einstaka starfsmenn og vilji kjörinn fulltrúi koma máli í farveg skal það gert innan viðkomandi nefndar eða fyrir milligöngu bæjarstjóra eða viðkomandi sviðsstjóra í samráði við bæjarstjóra,“ segir í reglunum.