Trjágróður innan lóðarmarka

Trjágróður stendur út fyrir lóðamörk
Trjágróður stendur út fyrir lóðamörk

Garðyrkjudeild Kópavogsbæjar hefur sent á fimmta hundrað bréf til lóðarhafa í Kópavogi og hvatt þá til að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka. Áður höfðu starfsmenn garðyrkjudeildarinnar farið um bæinn og skráð alla þá staði þar sem trjágróður er til vandræða. Til dæmis trjágróður á lóðarmörkum sem liggur að göngustígum, gangstéttum og götum bæjarins og hamlar þar með umferð gangandi, hjólandi og akandi vegarenda. 

Einnig eru dæmi um að trjágróður skyggi á umferðarmerki, götuheiti og jafnvel lýsingu.

Í bréfinu er bent á að garðyrkjumenn áhaldahúss gefa ráðleggingar varðandi klippinguna sé þess óskað. Eftir páska verður farið á þá staði sem gerðar voru athugasemdir við og kannað hvort bætt hafi verið úr. Hafi svo ekki verið munu lóðarhafar fá senda ítrekun.

Í byggingarreglugerð frá árinu 2012 (7.2.2. gr.) stendur:„Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“

Samhliða þessum aðgerðum er að sjálfsögðu verið að klippa „bæjargróðurinn“ á útivistarsvæðum Kópavogs, við umferðarmannvirki og víðar. 

Bæjarbúar eru hvattir til að koma með ábendingar um staði sem þeir telja að gera megi betur við og verður það þá tekið til skoðunar.

 

Hér að neðan má sjá hvernig samspil gróðurs í görðum og umferðar á að vera.

Vaxi gróður út fyrir lóðarmörk þarf að vera 2,8 metra lágmarkshæð undir hann frá gangstétt eða gangstíg. Lágmarkshæð yfir akbraut þarf að vera 4,2 metrar.