Vilja styðja við betri líðan nemenda

Í ungmennaráði eru: Unnur María Agnarsdóttir, formaður Ungmennaráðs Kópavogs
Magnús Snær Hallgríms…
Í ungmennaráði eru: Unnur María Agnarsdóttir, formaður Ungmennaráðs Kópavogs
Magnús Snær Hallgrímsson, Tóbías Dagur Úlfsson, Katrín Ýr Erlingsdóttir, Sigríður Lára Ingibjörnsdóttir, Hugrún Þorbjarnadóttir, Karen Lind Stefánsdóttir, Katla Kristinsdóttir, Stella Bergrán Snorradóttir, Hrafnhildur Davíðsdóttir

Ungmennaráð Kópavogs fundaði með bæjarstjórn Kópavogs í þriðja sinn á dögunum. Á fundinum kynntu fulltrúar í ráðinu tillögur sínar fyrir bæjarstjórn en bæjarfulltrúar voru til svara um tillögurnar.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri ávarpaði fundinn og Margrét Friðriksdóttir forseti bæjarstjórnar sömuleiðis. Fundi stýrði Unnur María Agnarsdóttir, formaður ungmennaráðs.

Tillögur ungmennaráðs voru að bæta aðstöðu í skólaumhverfinu til slökunar og betri andlegrar líðanar nemenda, sporna gegn matarsóun með samráði við nemendur, auka stöðugildi hjúkrunarfræðings í starfi grunnskóla meðal annars til að gefa kost á meiri kynfræðslu í skólum, auka fjármagn til félagsmiðstöðva í grunnskólum Kópavogs til að unnt verði að hafa opið alla föstudaga og loks lagði ráðið til að spjaldtölvur verði nýttar til að styðja betur við endurvinnslu og draga úr pappírsnotkun.

Þetta er í þriðja sinn sem ungmennaráð fundar með bæjarstjórn. Meðal tillagna ungmennaráðs hafa verið sumaropnun félagsmiðsstöðva í Kópavogi sem varð að veruleika síðastliðið sumar. Fundurinn fór fram í fundarsal bæjarstjórnar þriðjudaginn 25.maí.

Tillögurnar:

Bæta aðstöðu í skólaumhverfinu

Horft sé til þess að bæta aðstöðu nemenda í grunnskólum Kópavogs með þeim hætti að auka við slökun og andlega líðan á skólatíma. Boðið verði t.d. upp á valáfanga yfir allt skólaárið sem ýta undir betri líðan, eins og jóga, núvitund eða önnur hreyfing/námskeið sem bæta líkamlega og andlega líðan. Kennslustundir séu að lágmarki 40 mín og að skólastarfið sé brotið reglulega upp til að gera skóladagana fjölbreyttari. Aðstaða búnaðar þurfi líka að horfa til eins og aðgengi að sófum til að sitja í eða rýmis sem hægt er að slaka á.

Matarmál

Það er mikilvægt að sporna gegn matarsóun í grunnskólum Kópavogs. Ein leið til þess væri að nemendur skammti sér sjálfir á disk í mötuneytum skólanna. Skólar hugi að, að þar sem matur er afgangs og ekki hægt að nýta aftur sé gefinn til hjálparsamtaka eða annarra sem á þurfa að halda. Að nemendur geti haft áhrif á uppsetningu matseðla sem og boðið verði upp á meiri fjölbreytni að grænmetis- eða veganréttum. Samhliða þessu skiptir máli kennsla og betra aðgengi að flokkunartunnum í mötuneytum.

Aukið stöðugildi hjúkrunarfræðings í starfi grunnskóla

Það er mikilvægt að hjúkrunarfræðingur sé með viðveru alla daga sem skólinn er starfandi. Að nemendum gefst tækifæri á að eiga samtal um ýmisleg mál t.d. þáttum er snúa að kynþroska, kynlífi og eða öðru sem ungt fólk þarf ráðgjöf og svör við. Aukin viðvera og aðgengi hjúkrunarfræðings getur bætt öryggi og líðan nemanda og hjúkrunarfræðingi gæfist betur tækifæri á að skipuleggja og sinna kynfræðslu, en undanfarin ár hefur það komið fram á ungmennaþingum sem ungmennaráð Kópavogs hefur staðið fyrir að það vanti meiri og fjölbreyttari kynfræðslu.

 Aukið fjármagn til félagsmiðstöðva í grunnskólum Kópavogs

Aukið verði við kvöldopnanir í félagsmiðstöðvum unglinga til að hittast á skemmtilegum og öruggum stað. Horft sé til þess að hafa opið alla föstudaga, samanber opnun félagsmiðstöðva hjá Reykjavíkurborg. Aukið verði við fjármagn í félagsmiðstöðvunum til að geta boðið oftar upp á viðburði, fræðslur, ferðir eða aðra skemmtilega afþreyingu fyrir unglinga.

 Notkun spjaldtölva til að styðja betur við endurvinnslu

Notkun spjaldtölva í námi getur minnkað til dæmis pappírsnotkun. Skoðaðar séu leiðir til þess að hægt sé að taka próf í gengum spjaldtölvur, sérstakir pennar fylgja spjaldtölvum til þess að skrifa niður nótur eða annað tengt námsefninu. Allt getur þetta minnkað pappírsnotkun og haft betri áhrif á umhverfið. Auka við fræðslu og umhverfisvitund meðal nemenda, til dæmis með kennslumyndböndum sem eru aðgengileg á tækjunum.