Íþróttakona og íþróttakarl ársins 2019 kosin af íbúum

Íþróttafólk Kópavogs 2018. Á myndinni eru Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Valgarð Reinhardsson fim…
Íþróttafólk Kópavogs 2018. Á myndinni eru Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu, Agla María Albertsdóttir knattspyrnukona úr Breiðablik og Jón Finnbogason, formaður íþróttaráðs Kópavogs.

Kópavogsbúar geta haft áhrif og kosið um íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2019. Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilefningum frá íþróttafélögunum. Kjósa má einn karl og eina konu. Val á íþróttakarli og íþróttakonu verður kynnt á íþróttahátíð Kópavogs sem haldin verður í Samskipahöllinni, Reiðhöll Spretts föstudaginn 3.janúar 2020 kl 17:00.

Íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fá í sinn hlut farandbikar og eignarbikar auk peningaverðlauna frá Kópavogsbæ.

Kosning hefst þann 21.desember og lýkur 31.desember.

Kosningin er rafræn og fer fram í gegnum þjónustugátt Kópavogs

Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2019. 

 

Agnes Suto-Tuuha: Fimleikakona úr Gerplu

Agnes Suto-Tuuha

Agnes varð Íslandsmeistari í áhaldafimleikum kvenna 2019. Hún varð bikarmeistari með liði Gerplu. Agnes var stigahæsti keppandinn í áhaldafimleikum á keppnistímabilinu 2018-2019. Keppti fyrir Ísland á öllum erlendum verkefnum keppnistímabilið 2018-2019,  Heimsmeistaramóti, Norðurlandamóti, Evrópumóti og  Heimsbikarmóti.  Agnes skipti yfir í hópfimleika nú í haust og vann sig inn í lið Gerplu sem tók þátt á Norðurlandamóti í hópfimleikum nú í nóvember.  Agnes er virkilega samviskusamur iðkandi, hún æfir vel, hún er skipulögð, frábær fyrirmynd ungra fimleikastúlkna. Agnes er fimleikakona árins 2019 hjá FSÍ.

 

Aron Snær Júlíusson: Kylfingur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

 Aron Snær Júlíusson

Aron Snær hefur verið fastur maður í íslenska A-landsliðinu undanfarin ár og verið sá leikmaður sem hægt er að reiða sig á enda mjög öflugur og stöðugur kylfingur. Aron var í karlasveit GKG sem sigraði á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild. Hann ásamt tveimur öðrum lönduðu öðru sæti í Evrópumóti klúbbliða í Frakklandi, sem jafnaði besta árangur íslenskt liðs í golfi. Aron Snær hafnaði í 5. sæti í einstaklingskeppninni. Aron Snær tryggði sér þátttökurétt á Nordic League mótaröðinni fyrir næsta tímabil og leikur því á næsta ári í 3. deild atvinnumanna. Aron Snær er frábær fyrirmynd annarra, yngri sem eldri, reglusamur, vinnusamur og ávallt jákvæður.

 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir: Knattspyrnukona úr  Breiðabliki

Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Berglind Björg hefur leikið 221 leiki í efstu deild kvenna,  þar af 198 leiki fyrir Breiðablik og skorað í þeim 144 mörk. Hún lék 17 leiki í Pepsídeild  kvenna í sumar  með Breiðabliki, skoraði í þeim 16 mörk og hreppti titilinn markadrottning Pepsídeildar kvenna árið 2019. Breiðablik átti góðu gengi að fagna í Meistaradeild Evrópu á árinu þar sem liðið féll úr keppni í 16 liða úrslitum eftir ósigur í tveimur leikjum gegn stórliði PSG frá Frakklandi.  Berglind lék alla 7 leiki liðsins og skoraði  í þeim tíu mörk og er ein af markahæstu leikmönnum  Meistaradeildar kvenna á árinu 2019. Berglind hefur leikið 44  landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim fjögur mörk.

 

Hulda Clara Gestsdóttir: Kylfingur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

 Hulda Clara Gestsdóttir

Hulda Clara er fastaliðsmaður í A-landsliði kvenna og komin í allra fremstu röð golfkvenna á Íslandi. Hún lék með kvennalandsliðinu á EM kvenna á Ítalíu.  Á stigamótaröð GSÍ varð hún einu sinni í öðru sæti og tvisvar sinnum í þriðja sæti og hafnaði í þriðja sæti stigalistans eftir tímabilið. Hulda var lykilmaður í kvennasveit GKG sem sigraði á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild kvenna. Í Evrópumóti klúbbliða hafnaði GKG sveitin í 7. sæti og gerði Hulda sér lítið fyrir og sigraði í einstaklingskeppninni, fyrst íslenskra kvenna til að ná því afreki. Hulda Clara hefur mikinn metnað og dugnað sem hefur komið henni nú þegar í fremstu röð.

 

Ingvar Ómarsson: Hjólreiðamaður úr Breiðablik

Ingvar Ómarsson

Ingvar átti sitt besta ár á ferlinum í ár, og varð Íslandsmeistari í fjórum greinum af sex í hjólreiðum, ásamt því að vera kjörinn hjólreiðamaður ársins, sjötta árið í röð. Fyrir hönd Íslands keppti hann á Evrópumeistaramóti í maraþon-fjallahjólreiðum og hafnaði í 37. sæti, Heimsmeistaramóti í ólympískum fjallahjólreiðum og hafnaði í 82. sæti, og Heimsmeistaramóti í maraþon fjallahjólreiðum og hafnaði í 87. sæti sem er jafnframt einn besti árangur Íslendings á stórmóti í hjólreiðum. Heima átti hann frábært mót í malarkeppninni The Rift, þar sem hann hafnaði í 3. sæti á eftir tveimur Bandaríkjamönnum sem eru taldir þeir bestu í heiminum í greininni. Samtals sigraði hann tólf keppnir á árinu.

 

Ívar Ragnarsson: Skotfimimaður úr Skotíþróttafélagi Kópavogs

Ívar Ragnarsson

Ívar keppti á smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi og hafnaði í 5. sæti eftir að hafa komist í úrslit. Ívar varð Íslandsmeistari í  staðlaðri skammbyssu og grófri skammbyssu ásamt því að vinna Íslandslandsmót í loftbyssu karla nú í lok ársins. Hann hefur staðið framarlega í skotíþróttum á Íslandi síðastliðin ár.  Ívar hefur síðustu ár keppt í staðlaðri skammbyssu,  sportskammbyssu, grófskammbyssu og loftskammbyssu karla.  Ívar komst í úrslit á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi og hafnaði þar  í  5. sæti.

 

Patrik Viggó Vilbergsson: Sundmaður frá Breiðablik

Patrik Viggó Vilbergsson

Patrik Viggó er orðinn sterkasti langsundsmaður landsins aðeins 17 ára gamall. Hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari í 25 m laug og þrefaldur Íslandsmeistari í 50 m laug.  Auk þess náði hann í þrenn silfurverðlaun á þessum mótum. Hann bætti nokkur íslandsmet í piltaflokki  (15 til 17 ára) frá 100 m skriðsundi upp í 1500 m skriðsundi á árinu.  Hann keppti á Smáþjóðaleikunum fyrir Íslands hönd og vann til bronsverðlauna í 4x200m skriðsundi. Hann keppti á Evrópumeistaramóti  unglinga  í sumar og stóð sig mjög vel. Á Norðurlandameistaramótinu í Færeyjum var hann í úrslitum í sínum greinum og varð hársbreidd frá verðlaunum í 400 m og  800 m skriðsundi.  Patrik er mjög vinnusamur og hæfileikaríkur sundmaður sem á eftir að koma honum langt í sundíþróttinni. 

 

 Ragna Sigríður Ragnarsdóttir: Sundkona úr Breiðablik

Ragna Sigríður Ragnarsdóttir

Ragna Sigríður varð Íslandsmeistari í 400 m skriðsundi í 50 m laug núna í apríl sl.  Hún var í sigursveit Breiðabliks sem vann 4x200 m skriðsund á mótinu. Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari í 25 m lauginni  í 1500 m skriðsundi 800m skriðsund og 400 m skriðsundi og einnig  í sigursveit Breiðabliks í 4x200 m skriðsundi.  Ragna Sigríður var í sundlandsliði Íslands á Smáþjóðaleikum. Hún náði lágmörkum á Norðurlandameistaramótið sem haldið var í Færeyjum núna í desember  og náði góðum árangri í 800 m skriðsund og nældi sér í bronsverðlaun á því móti. Ragna Sigríður er góð fyrirmynd fyrir sunddeildina af báðum kynjum og á öllum aldri. Í vetur hefur hún þjálfað yngri hópa hjá sunddeildinni og miðlar þannig sinni reynslu til yngri iðkenda.

 

Svana Katla Þorsteinsdóttir: Karatekona úr Breiðablik 

 Svana Katla Þorsteinsdóttir

Svana er ósigruð í einstaklingskata undanfarin fimm ár og er Íslandsmeistari í kata kvenna, fimmta árið í röð sem er magnaður árangur. Svana er fastamaður í landsliði Íslands og hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum með því og unnið til verðlauna.  Á árinu varð hún í  2. sæti Kata senior og Teamkata á Smáþjóðaleikunum sem voru haldnir hérna heima í ár. Svana Katla er góð fyrirmynd fyrir karateiðkendur af báðum kynjum og á öllum aldri fyrir utan og á æfingum. Auk þess er hún að þjálfa yngri keppendur hjá Breiðablik og deilir með þeim reynslu sinni.

 

Valgarð Reinhardsson: Fimleikamaður úr Gerplu

Valgarð Reinhardsson

Valgarð er fremsti fimleikamaður landsins. Hann er núverandi Íslandsmeistari í áhaldafimleikum karla og var í sigurliði Gerplu á bikarkeppni 2019. Valgarð hefur tekið þátt í fjölda fimleikakeppna á erlendum vettvangi á árinu og hefur náð góðum árangri þar. Á heimsbikarmóti í Koper keppti hann í úrslitum í gólfæfingum og hafnaði í 6. sæti af átta sem komust í úrslit og var næstur inn í úrslit á tvíslá. Hann keppti á Evrópuleikum í Hvíta Rússlandi í júlí og náði 46. sæti  og á Heimsmeistaramótinu í Stuttgart og hafnaði hann í 95. sæti af 146 keppendum. Hann keppti á heimsbikarmótinu í Melbourne og var mjög nálægt úrslitum á tvíslá og svifrá. Valgarð er fimleikamaður ársins 2019 hjá FSÍ.