Sex hlutu viðurkenningar fyrir skólastarf í Kópavogi

Handhafar Kópsins 2023 ásamt Sigvalda Agli Lárussyni formanni menntaráðs og Þórarni Ævarssyni sem e…
Handhafar Kópsins 2023 ásamt Sigvalda Agli Lárussyni formanni menntaráðs og Þórarni Ævarssyni sem er í menntaráði, Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra og Jóhannesi Birgi Jenssyni fulltrúa foreldra.

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 17. maí. Alls bárust 15 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.

Nánar

Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Höfuðborgin, sem er frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni á aldrinum 16 – 24 ára sem ekki geta verið ein heima eftir skóla. Unnið er að því að efla ungmennin félagslega og rjúfa félagslega einangrun og gefa þeim tækifæri til að umgangast jafningja.

Íris Stefánsdóttir í Snælandsskóla hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Vísindasmiðja í 3. bekk Nemendur setja fram rannsóknarspurningu og tilgátu, framkvæma tilraun og fá niðurstöðu. Teknar eru myndir og myndbrot af ferlinu og sett inn í rafbók Book Creator þar sem öllum tilraununum er safnað saman. Dæmi um tilraunir: segultilraun, vatnsdropatilraun, plöntutilraun, gostilraun, skrímslatilraun, litatilraunir, saltilraunir, ormatilraun, fiskatilraun og mjólkurtilraun. Nemendur tileinka sér vinnubrögð og hugtök vísindanna sem á eftir að nýtast þeim í áframhaldandi námi. Þetta verkefni getur einnig nýst í öðrum árgöngum.

Íþróttakennarar í Salaskóla, þau Ísak Guðmannsson Levy, Jóhann Ingi Jóhannsson og Auður Kristín Ebenezersdóttir hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Leiðtogaþjálfun, stjórnun og samvinna í íþróttum í 10. bekk. Í verkefninu vinna nemendur í 10. árgangi saman í litlum hópum (3-6 nemendur) og stjórna heilli kennslustund í íþróttum þar sem hver hópur velur sér viðfangsefni eftir áhugasviði. Nemendur geta nálgast námsefni, hugmyndir að leikjum eða æfingum á netinu eða í gegnum google classroom. Hóparnir þurfa að passa að dreifa verkefnum jafnt á milli sín, skipta verkum eftir styrkleikum og passa að allir innan hópsins hafi hlutverk. Þegar kemur að því að stýra kennslustund skilar hópurinn tímaseðli við upphaf kennslustundar. Á tímaseðlinum er útlistun á markmiði kennslustundar, helstu útskýringar á leikjum/æfingum og hvað áhöld nemendur nota í tímanum. Verkefnið stendur yfir í nokkra vikur og er metið sem 10% af heildareinkunn nemenda í skólaíþróttum.

Forstöðumenn félagsmiðstöðva í Kópavogi hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Félkó – miðlæg félagsmiðstöð. Verkefnið byggir á hugmynd um að koma upp miðlægri aðstöðu þar sem ungt fólk getur haft aðgengi að rafíþróttaaðstöðu, listsköpunaraðstöðu og rými þar sem hægt er að taka þátt í spilum og hlutverkaleikjum í gegnum ýmiskonar spil. Allar félagsmiðstöðvar Kópavogs geta nýtt sér aðstöðuna með því að koma með hóp af unglingum til að brjóta upp hefðbundið starf. Félkó - Miðlæg félagsmið er einnig hugsuð til að nýta í sértækt hópastarf þar sem áherslan er að ná til barna sem eru félagslega einangruð eða hafa annað móðurmál en íslensku. Auk þess hefur Hinsegin Félkó aðstöðu þar, sem er fyrir hinsegin unglinga í hinsegin pælingum eða fyrir þá sem eru áhugasamir um hinsegin málefni þar sem allir eru velkomnir.

Berglind Hulda Theódórsdóttir, Edda Rut Þorvaldsdóttir, Margrét Ósk Marinósdóttir og Guðrún Ósk Traustadóttir í Álfhólsskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefni sitt Stærðfræðiþema í 7. bekk. Nemendur unnu verkleg stærðfræðiverkefni og var afraksturinn m.a. sýndur á menntabúðum í Snælandsskóla í mars. Verkefnið jók skilning nemenda á stærðfræði og tengdi fagið við raunveruleikann og hvernig stærðfræðin tengist inn í hið daglega líf alla daga.

Kennarar á miðstigi og stjórnendur Snælandsskóla hlutu viðurkenningu fyrir verkefnið Flæði á miðstigi. Verkefnið felur í sér skipulag og uppbrot á stundatöflu á miðstigi þar sem markmiðið var að mæta þörfum drengja betur í skólakerfinu. Hugmyndin spratt m.a. upp frá reynslu frá covid-tíma sem sýndi að nemendur nýttu vel stuttar kennslulotur og með því að setja upp hluta stundatöflu með stuttum lotum þá skapast svigrúm til að nýta seinni hluta dags í annars konar vinnu þar sem kyrrseta og bókleg vinna á að vera undantekning. Eftir fyrstu fjórar kennslustundir dags tekur við Flæði þar sem nemendur á miðstigi vinna ákveðið þemaverkefni í sex vikur í senn. Að þeim loknum tekur við önnur sex vikna lota með annars konar þemaáherslu og sjá aðrir kennarar um þá vinnu. Með þessu fæst fjölbreytileiki í verkefnavinnu nemenda, nemendur vinna undir handleiðslu og áherslum ólíkra kennara og loks gerir lotuvinnan kennurum kleift að kafa dýpra í námsefnið nálgast það með hætti sem áður gafst minni tími til.

Önnur verkefni sem tilnefnd voru til Kópsins í ár voru eftirfarandi:

Söngstundir á yngsta stigi í Salaskóla, Teymiskennsla í 5. bekk í Smáraskóla, Litla Hryllingsbúðin í Álfhólsskóla, Jólamarkaður 4. bekkja í Salaskóla, Marimbasveit í Smáraskóla, Jóga fyrir alla nemendur í Salaskóla og Veistu hver ÞÚ ert? í Snælandsskóla.