Umhverfisviðurkenningar 2023

Handhafar viðurkenninga umhverfis- og samgöngunefndar 2023 ásamt nefndinni, bæjarstjóra Kópavogs og…
Handhafar viðurkenninga umhverfis- og samgöngunefndar 2023 ásamt nefndinni, bæjarstjóra Kópavogs og bæjarfulltrúum.

Umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar voru veittar fimmtudaginn 14.september. Að þessu sinni voru veittar fjórar viðurkenningar, fyrir endurgerð húsnæðis og umhirðu húss og lóðar. 

Það voru Bergur Þorri Benjamínsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, sem afhentu þær að viðstöddum gestum. 

Endurgerð húsnæðis

Kársnesbraut 33: Eigendur Jóhanna S. Arnbjörnsdóttir og Arnbjörn Þórberg Kristjánsson, húsasmíðameistari: Tómas Vigfússon.

Umsögn: 

Húsið að Kársnesbraut 33 var byggt árið 1951 samkvæmt teikningu Tómasar Vigfússonar húsasmíðameistara og er meðal eldri húsanna á Kársnesinu. Það var byggt af mágunum Hans Arreboe Clausen og Þórði Guðmundssyni ásamt eiginkonum, Helen Bojkow og Dagmar Axelsdóttur Clausen.

Í dag er Kársnesbraut 33 í eigu mæðginanna Jóhönnu S. Arnbjörnsdóttur og Arnbjörns Þórbergs Kristjánssonar. Það voru engin áform fjölskyldunnar að eignast allt húsið, sem er tvíbýli, en Arnbjörn keypti sinn hluta í febrúar 2015 en Jóhanna í júní það sama ár. Þá hafa þau sjálf staðið að flestum umbótum hússins með aðstoð góðra vina, nágranna og ættingja. Endurbæturnar hafa meðal annars falið í sér framkvæmdir á fráveitulögnum, þakinu sem og lóðin framan við húsið hefur fengið á sig nýja mynd. Við endurbæturnar innanhús var tekið eftir því að hráefni milliveggja voru meðal annars úr gömlum flutningskössum, sem endurspeglar tíðaranda miðrar síðustu aldar þar sem allt sem féll til var nýtt.

Bakgarðurinn rótgróinn fallegum og fjölbreyttum gróðri en greinitréð í miðjum garðinum er í sérstöku uppáhaldi þeirra mæðgina. Pallurinn var settur upp árið 2022 og hefur verið notaður óspart síðan en hundurinn Neró passar upp á garðinn allan ársins hring.

Þá eru þau hvergi nærri hætt heldur eru ýmis verkefni í sigtinu fyrir næstu 5 til 10 árin.

Mánabraut 7

Eigendur: Arna Alfreðsdóttir og Ingvi Júlíus Ingvason, arkitekt: Þorvaldur Kristmundsson. Breytingar: Jakob Líndal, Alark Arkitektar, JK Verk ehf., og Guðrún Atladóttir

Umsögn:

Húsið að Mánabraut 7 var byggt árið 1966 og hannað upprunalega af Þorvaldi Kristmundsson arkitekt. Núverandi eigendur, þau Arna og Ingvi, keyptu húsið árið 2017.

Farið var í viðamiklar framkvæmdir fljótlega með það að markmiði að gera húsið viðhaldslítið ásamt því að auka orkunýtingu í hita og rafmagni. Fyrra skipulag hússins var haldið að mestu en framkvæmdirnar og val á hráefni til þeirra voru gerðar í samráði við arkitekta og aðra framkvæmdaraðila. Húsið var gert fokhelt, stækkað um 45 fm2 þar sem kjallarinn grafinn út, skipt var um alla glugga, hurðir og lagnir ásamt því að leggja gólfhita. Húsið var einangrað upp á nýtt og klætt með Reynobond álklæðningu. Þá var öllum jarðveg skipt út, planið steypt með hita og nýjar drenlagnir lagðar.

Þau Arna og Ingvi lögðu áherslu að gefa húsinu karakter en á sama tíma hafa það einfalt, þægilegt og stílhreint. Baklóðin var hönnuð með það í forgrunni að njóta góðra stunda með fallegu útsýni en þar er meðal annars rúmgóður pallur, heitur pottur og pláss fyrir barnabörnin að aðhafast.

Að sögn þeirra hjóna stækkaði verkefnið til muna þegar hafist var handa en í dag er verið að vinna í að koma upp gróðri á lóðinni við húsið.

Umhirðar húss og lóðar

Skjólsalir 11

Eigendur: Sigurður Jóhannsson og Hildur Sigurjónsdóttir

Arkitekt: Vektor

Umsögn

Hjónin Sigurður og Hildur keyptu húsið að Skjólsölum 11 fokhelt árið 2001 og eru fyrstu eigendur þess. Húsið var klárað í áföngum en fljótlega var byrjað að móta garðinn. Lóðina skipulögðu þau sjálf í bland við tillögur og hugmyndir utanaðkomandi en hann er í stöðugri þróun. Þau hafa ávalt lagt áherslu á að hafa lóðina hlýlega með fallegum gróðri sem heldur utan um fjölskylduna.

Húsið endaraðhús þar sem garðurinn umlykur þrjár hliðar þess. Aðkoman er hlaðin þar sem beð aðskilur stæði og inngang. Við hlið hússins er lokaður pallur með gróðri og heitum pott sem er mikið notaður. Tröppur liggja meðfram húsinu í neðri garðinn en þar er rúmgóður pallur, grasflötur, timburskjólveggir og falleg beð með ýmis gróðri. Lögð var áhersla á að hafa garðinn lokaðan og öruggan fyrir börnin en þar má sjá lítið barnagarðhús sem var mikið notað á fyrri árum.

Sigurður og Hildur hafa lagt áherslu á að hafa fjölbreyttan og sígrænan gróður í kringum húsið. Þar má nefna fjölda sígrænna runna s.s. sýprus, einir, hreiðurgreni o.fl. og margar tegundir blómstrandi runna auk trjáa. Stærsta tréð á lóðinni er Hlynur sem þau hjónin gróðursettu á trébrúðkaupsafmæli sínu árið 2002. Mörg þeirra fjölæru blóma sem garðurinn geymir koma af lóð afa og ömmu Sigurðar að Hlíðarvegi 3. Sá garður hlaut viðurkenningu árið 1990 en Sigurður hafði frá unga aldri aðstoðað afa sinn með umhirðu hans.

Garðurinn hefur tekið breytingum í gegnum tíðina þar sem þau hjón halda áfram að aðlaga hann og bæta.

Grænatunga 7

Húsið að Grænutungu 7 var byggt 1964 af feðgunum Ólafi og Bjarna en sá síðarnefndi er núverandi eigandi hússins ásamt eiginkonu sinni Kristínu. Húsið er hannað af Sigvalda Thordarson og stendur vestan við svokallað Sigvaldahverfi. Hönnuðurinn lagði sjálfur til litaval hússins, sem hefur haldist allar götur síðan en hann teiknaði einnig innréttingarnar á báðum hæðum. Hjónin hafa haldið húsinu vel við sem og séð alfarið um garðinn sjálf.

Hrólfur Sigurðsson listmálari teiknaði upp upprunalegt skipulag garðsins og lagði fram hugmyndir að gróðri. Garðurinn er einkum áberandi en hann er mjög opinn þrátt fyrir að vera afmarkaður með lágri hraunhleðslu. Brattinn á lóðinni var jafnaður með steinhæðum og fjölbreyttum gróðri. Lögð var áhersla á að nota íslenska flóru en mikið af þeim fjölæru plöntum sem prýða beðin eru fengið úr tilkomumikla skrúðgarðinum við sumarbústað hennar Jónu Svanhvítar Hannesdóttur í Vatnsenda.

Haldið hefur verið í heildarmynd garðsins í gegnum árin þrátt fyrir að hann sé reglulega grisjaður. Síðasta aldarfjórðunginn hafa þau Bjarni og Kristín haldið garðinum við en síðustu ár hefur áherslan verið á að koma upp nytjagróðri. Þar má einnig finna rifs- og sólberjarunna en þau hafa haldið í hefð móður Bjarna um að setja morgunfrúr meðfram öllum berjarunnum við lóðamörk í austri ár hvert enda nýtur garðurinn sín best í morgunbirtunni á sumrin.

Eigendur: Bjarni Ólafsson og Kristín Indriðadóttir

Arkitekt: Sigvaldi Thordarson