- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Ársskýrsla velferðarsviðs fyrir árið 2013 er komin út. Í henni eru teknar saman allar helstu upplýsingar um félagsþjónustu í Kópavogsbæ, umfang og áherslur.
Meðal þess sem fram kemur í ársskýrslunni er að á síðasta ári fengu 674 fjölskyldur fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ, það er nokkuð svipaður fjöldi og undanfarin þrjú ár, en umfang aðstoðarinnar óx mikið eftir efnahagshrun.
Atvinnuleysi einkum hjá ungu fólki hefur verið viðvarandi og var brugðist við því á síðasta ári með því að setja á laggirnar Atvinnuver í samráði við Vinnumálastofnun. Atvinnuverið leggur áherslu á að virkja fólk í atvinnuleit með atvinnutengdum úrræðum og hvatningu til menntunar.
Þess er getið að vinnulagi er varðar félagslega ráðgjöf og fjárhagsaðstoð var breytt í árslok 2013 með mjög góðum árangri, biðtími í október voru 12 dagar í stað 23 í september svo dæmi séu tekin.
Húsnæðismál er einn umfangsmesti málaflokkur velferðasviðs segir í skýrslunni. Þar kemur fram að af þeim 403 íbúðum sem bærinn á var 44 úthlutað til nýrra leigjenda á síðasta ári. Húsnæðisvandi fólks endurspeglast meðal annars í því að fólk ílengist mun lengur í íbúðunum en æskilegt væri og er dregin sú ályktun að húsnæðisvandi verði ekki leystur með félagslegu leiguhúsnæði einu saman.
Barnavernd er mikilvægt hlutverk velferðarsviðs. Árið 2013 bárust 717 tilkynningar til sviðsins vegna 442 barna, en það eru um 5% barna í Kópavogi.
2013 var þriðja árið sem málefni fatlaðra eru á könnu sveitarfélaga. Í Kópavogi er lögð áhersla á að þjónustan sé eins mikil og kostur er. Meðal þess sem unnið var undirbúningur byggingar fyrir 10 manns í Austurkór, áætlun um málefni fatlaðs fólks til næstu 12 ára, eftirlit með þjónustu við fatlað fólk og endurskoðun reglna um þjónustu svo eitthvað sé nefnt.
Stöðugildi við velferðarsvið Kópavogs voru 192 árið 2013. Kostnaður vegna velferðarþjónustu eru 8,2% af skatttekjum Kópavogsbæjar. Önnur þjónusta eins og hjúkrunarþjónusta og dagdvalarþjónusta Sunnuhlíðar og Hrafnistu er kostuð af ríkinu svo og meginhluti þjónustu við fatlaða.
Þess má að lokum geta að velferðarsvið í Kópavogi hefur gefið út ársskýrslu frá árinu 1991. Skýrslan sem er prentuð í litlu upplagi en er aðgengileg á vefnum er þannig merk heimild um sögu félagsþjónustu í Kópavogi undanfarin ár.