Aukin aðsókn og fleiri viðburðir

Menningarhúsin í Kópavogi.
Menningarhúsin í Kópavogi.

Ríflega 230.000 gestir sóttu Menningarhúsin í Kópavogi heim árið 2018 sem er 6% aukning frá árinu áður. Þar af var fjöldi leikskóla- og grunnskólanema í skipulögðum heimsóknum 7.750 sem er 3% aukning á milli ára. Gríðarleg aukning var í fjölda viðburða á milli ára eða um 40%, fóru úr 798 árið 2017 í 1.132 árið 2018. Árið 2018 störfuðu 49 starfsmenn við mennningarmálaflokkin í 33,25 stöðugildum.Þetta kemur fram í viðamikilli skýrslu um menningarmál Kópavogsbæjar sem kom út í dag. Í henni er farið yfir starfsemi menningarmála í Kópavogi árið 2018 auk þess sem hún hefur að geyma  markmið málaflokksins fyrir árin 2019 og 2020.

Skýrslan telur 107 blaðsíður. Þar er fjallað um menningarstefnu, hlutverk og leiðarljós málaflokksins, stefnumörkun, styrkveitingar, auk greiningar á fjármálum og mannauðsmálum.

Í samantektinni er gerð ítarleg úttekt á hlutverki, framtíðarsýn og markmiðum þeirra fimm Menningarhúsa sem undir málaflokkinn heyra, en það eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Salurinn. Þar eru einnig kynntar lykiltölur málaflokksins og húsanna frá árinu 2017 og áætlanir fyrir árin 2019 og 2020.

Eins og fram kemur í skýrslunni er menningarlífið í Kópavogi á mikilli siglingu. Aðsókn hefur aldrei verið betri og fjöldi viðburða aldrei verið meiri. Menningarhúsin hafa laðað að nýja gesti og eftirtektaverð er aukning gesta í Bókasafnið eftir breytingar sem þar hafa verið gerðar. Málaflokkurinn skipuleggur fimm stórar hátíðir á ári hverju;  Ljóðstaf Jóns úr Vör, Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð, 17. júní og Aðventuhátíð.

 Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi,  segir af þessu tilefni:  „Það er ánægjulegt að upplifa hið yfirgripsmikla lista- og menningarstarf sem fram fer í Menningarhúsunum í Kópavogi. Skýrslan er afar mikilvægt verkfæri í þeirri úttekt sem og stefnumótun og þróun málaflokksins. Jafnframt er hún góður mælikvarði á það metnaðarfulla starf sem Menningarhúsin sinna. Tilgangur samantektarinnar er að henda reiður á menningarlífið í bæjarfélaginu, meta stöðu einstakra þátta, mæla þátttöku og frammistöðu út frá ólíkum sjónarmiðum og leggja grundvöll að mælanlegum þáttum sem geta haft áhrif á eftirfylgni þeirra.“

Þverfaglegt samstarf Menningarhúsanna og viðburðir sem höfða til fólks af ólíkum uppruna hafa verið í forgrunni í starfi húsanna. Viðhald og endurhönnun á húsnæði og innréttingum auk endurnýjunar á búnaði eru viðvarandi verkefni til að mæta þörfum og kröfum gesta í síbreytilegu umhverfi. Úttekt og gerð listaverka í opinberu rými eru á dagskrán málaflokksins auk þess sem verið er að leggja drög að samstarfsverkefni við Norðurlöndin sem mótast af samnorrænum gildum þekktra barnabókahöfunda og tengsl verka þeirra við Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samstarf við grasrótina og nýsköpun í menningarlífi bæjarins hefur verið í forgrunni og verður svo áfram.

Ritsjóri er Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.

Ársskýrsla 2018 og starfsáætlun 2019/2020