Bætt kynfræðsla, aukið fjármálalæsi og fjölbreytni í list- og verkgreinum

Ungmennaráð á fundi sínum með bæjarstjórn Kópavogs.
Ungmennaráð á fundi sínum með bæjarstjórn Kópavogs.

Ungmennaráð Kópavogs fundaði með bæjarstjórn Kópavogs í vikunni. Á fundinum kynntu fulltrúar í ráðinu tillögur sínar fyrir bæjarstjórn en bæjarfulltrúar voru til svara um tillögurnar.

Í upphafi fundar ávarpaði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri fundinn en Margrét Friðriksdóttir forseti bæjarstjórnar ávarpaði í lok hans. Fundi stýrði Katrín Rós Þrastardóttir

Tillögur ungmennaráðs voru að bæta og endurskoða kynfræðslu, auka fjármálalæsi, auka aðgengi að sálfræðiráðgjöf, auka fjármagn í félagsmiðstöðvar, bjóða upp á fjölbreyttari list og verkgreinar, kynjaskipta sundkennslu og bjóða upp á umhverfis- og samgöngustyrk.

Þetta er í annað sinn sem ungmennaráð fundar með bæjarstjórn. Meðal tillagna ungmennaráðs í fyrra var sumaropnun félagsmiðsstöðvar í Kópavogi sem verður að veruleika nú í sumar.

Nánari upplýsingar um tillögur ungmennaráðs Kópavogs:

1. Kynfræðsla; Bæta og endurskoða kynfræðslu í skólum. Byrja fyrr með kynfræðslu fyrir nemendur. Horft sé til Akureyrabæjar varðandi fræðsluerindi frá „Fávitunum“. Flytjandi tillögu: Unnur María Agnarsdóttir

2. Fjármálalæsi; Auka fjármælalæsi í tengslum við almennt nám í öllum grunn- og framhaldsskólum. Mikilvægt að veita ungu fólki góðan grunn til fjármálalæsis. Samræmi á milli skóla er viðkemur kennslu í fjármálalæsi. Flytjandi tillögu: Katrín Rós Þrastardóttir.

 3.  Aðgengi að sálfræðiráðgjöf; Fagfólk (sálfræðingar) sem geta veitt ráðgjöf, stuðning og eftirfylgni vegna persónulegs og eða félagslegs vanda. Aðgengi að sálfræðiráðgjöf sé annarsvegar innan skólanna og hinsvegar með stafrænum hætti. Ráðgjöfin sé ungu fólki að kostnaðarlausu. Snemmtæk íhlutun er varðar andlega líðan nemenda á grunnskólastigi og sömuleiðis að ráðgjöfin sé aðgengileg ungmennum 16 ára og eldri. Flytjandi tillögu: Katrín Rós Þrastardóttir.

 4.  Aukið fjármagn til félagsmiðstöðva í grunnskólum Kópavogs; Að félagsmiðstöðvar geti boðið upp á ókeypis viðburði allt árið í kring. Einnig að unglingum gæfist oftar tækifæri á að sækja fræðsluerindi í sinni félagsmiðstöð. Aukið verði við kvöldopnanir fyrir unglinga til að hittast á skemmtilegum og öruggum stað. Með fleiri kvöldopnunum gæfist unglingum oftar tækifæri til að sækja sína félagsmiðstöð. Flytjandi tillögu: Sigríður Lára Ingibjörnsdóttir og Ingunn Jóna Valtýsdóttir.

 5. Verk- og listgreinar; Boðið verði upp á fjölbreyttari list- og verkgreinar í grunnskólum og tengingu við atvinnumarkaðinn og Tækniskólann. Að list-og verkgreinaval nái upp í 10.bekk og samræmi sé þar á milli skóla. Gæti ýtt meira undir áhuga og þátttöku ungs fólks til verklegs náms.Flytjandi tillögu: Gunnlaugur Ernir Ragnarsson.

 6.  Sund- og íþróttakennsla; Sundkennsla eftir 8.bekk verði endurskoðuð og kynjaskipt til að mynda frá 5.bekk. Leggja áherslu á sundkennslu sem nýtist, til að mynda björgunarsund á unglingastigi. Í sund- og íþróttakennslu fái ungt fólk tækifæri til þess að klæðast þeim fatnaði sem það líður vel í. Horft sé sérstaklega til stúlkna í þessum málum. Flytjandi tillögu: Ingunn Jóna Valtýsdóttir og Katla Kristinsdóttir.

 7. Umhverfis/samgöngustyrkur; Að foreldrar/forráðamenn barna og ungmenni geti sótt um umhverfis/samgöngustyrk. Skoða til samanburðar við frístundastyrk sem Kópavogsbær veitir eða að umsækjendur eigi kost á styrk frá og með því ári sem 5 ára aldri er náð, til og með því ári sem 18 ára aldri er náð. Með því gæfist kostur til að kaupa hjól, strætókort/miða eða annað sem myndi hvetja börn og ungmenni jafnt á við fullorðna til umhverfisvænni ferðamáta. Flytjandi tillögu: Katrín Rós Þrastardóttir.