- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2024 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag, þriðjudaginn 14. nóvember.
Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð sem nemur 144 milljónum og að niðurstaða A-hluta verði jákvæð um 104 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað 4,6 milljarðar króna á samstæðu bæjarins. Skuldaviðmið eru 104 % samkvæmt áætlun, sem er langt undir lögbundnu viðmiði.
“Rekstur Kópavogsbæjar er traustur og bærinn er rekinn með ábyrgum hætti. Þær hagræðingar sem lagt var upp með í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2023 hafa gengið eftir. Áfram verður lögð áhersla á að lækka álögur og munu fasteignaskattar lækka milli ára. Við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu er mikilvægt að gæta aðhalds í rekstri. Áfram verður leitast við að hagræða á árinu 2024 með það að markmiði að nýta betur fjármagn bæjarbúa.
Fjármagni verður áfram forgangsraðað í grunnþjónustu. Viðbótarfjármagni verður veitt í velferðarþjónustu, einkum þjónustu við fatlaða. Þá verður fjármagn aukið til að mæta betur þörfum nemenda í grunnskólum sem eru með íslensku sem annað tungumál.
Veltufé frá rekstri er sterkt, sem skapar rými til áframhaldandi uppbyggingar í bæjarfélaginu. Fljótlega verður úthlutað lóðum í nýju hverfi í efri byggðum sem mun kalla á uppbyggingu innviða. Þá mun nýr Kársnesskóli rísa á árinu og leikskólar verða byggðir til að mæta fyrirliggjandi fjölgun íbúa. Áform eru um áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Á árinu 2023 var rík áhersla lögð á að stíga markviss skref til að leysa mönnunarvanda leikskóla. Þær breytingar hafa skilað góðum árangri, vistunartími barna hefur styst og mönnun gengur mun betur en undanfarin ár. Ekki hefur þurft að loka deildum sökum manneklu og leikskólabörn upplifa minna álag og stöðugleika i þjónustunni. Á árinu 2024 verður ráðist í markvissar aðgerðir til að bæta enn frekar umhverfi leikskóla.
Rekstur Kópavogsbæjar mun áfram fela í sér hóflegar álögur, öfluga þjónustu við íbúa á öllum aldri og uppbyggingu innviða fyrir framtíð bæjarins.” segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri
Fasteignaskattar lækkaðir
Fjárhagsáætlun sýnir að fjárhagur bæjarins er traustur. Hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í árið 2023 hafa haft jákvæð áhrif á reksturinn sem skapar rými til að forgangsraða enn frekar í þágu grunnþjónustu í mennta- og velferðarmálum.
Spár greiningaraðila gera ráð fyrir að verðbólgan lækki og verði á bilinu 5-6% á árinu. Efnahagsumhverfi verður hins vegar áfram krefjandi, kjarasamningar eru lausir á næsta ári með tilheyrandi óvissu.
Ellefta árið í röð lækka fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði til að koma til móts við hækkun fasteignamats. Þá lækka einnig önnur fasteignagjöld á árinu. Með þessum aðgerðum lækka álögur á íbúa Kópavogs um 200 milljónir samanlagt.
Útsvarsprósenta helst áfram óbreytt.
Breytt verklag og viðmið í gjaldskrárbreytingum var samþykkt í bæjarstjórn sumarið 2023 með það að leiðarljósi að fanga betur kostnaðarbreytingar í rekstri. Gjaldskrár taka því nú mið af uppreiknaðri vísitölu samkvæmt vísitölum Hagstofu Íslands í hlutfalli við vægi einstakra kostnaðarliða í rekstri. Verða gjaldskrár endurskoðaðar að jafnaði tvisvar til fjórum sinnum á ári.
Velferð og menntun í barnvænu sveitarfélagi
Á árinu 2024 verður rík áhersla á málefni leik- og grunnskóla og á að halda úti góðri velferðarþjónustu. Kópavogur er barnvænt sveitarfélag og verkefni sveitarfélagsins taka mið af því. Unnið verður áfram að innleiðingu farsældarlaga. Þá verður fylgt enn frekari eftir breytingar á starfsumhverfi leikskóla sem tóku gildi á árinu 2023, árangur verður mældur og viðhorf foreldra og barna gagnvart breytingunum. Gert er ráð fyrir að starfsumhverfi leikskólanna verði styrkt enn frekar ef fjárhagslegur ávinningur skapast. Í samræmi við ábendingar foreldra verður sveigjanleiki í skráningu dvalartíma barna aukinn enn frekar og breytingar gerðar á tekjutengdum afslætti til að mæta betur tekjulágum heimilum og einstæðum foreldrum. Á árinu 2023 voru teknar upp heimgreiðslur og verður þeim haldið áfram.Samræmd móttaka flóttafólks verður efld og ráðið í fleiri stöðugildi til að sinna henni. Endurgreiddur kostnaður ríkisins mætir þeim kostnaði ekki að fullu.
Málaflokkur fatlaðs fólks er verulega vanfjármagnaður af hálfu ríkisins og mikilvægt að ná niðurstöðu í þeim efnum hið fyrsta. Frá árinu 2018 er uppsafnaður hallarekstur Kópavogsbæjar ríflega þrír milljarðar króna. Áfram verður viðbótarfjármagn veitt vegna stuðnings- og stoðþjónustu, auk þess sem verulegur kostnaður fellur til vegna vistunar barna utan heimilis í sértækum úrræðum.
Heilsuefling eldri bæjarbúa verður eflt áfram í gegnum verkefnið „Virkni og vellíðan“ en auk þess verður farið í tilraunaverkefni í hálft ár frá og með áramótum þar sem félagsmiðstöðvar aldraðra verða opnar á laugardögum einu sinni í mánuði.
Fjárfestingar og ný hverfi
Umfangsmiklar framkvæmdir á vegum bæjarins eru áætlaðar á næsta ári fyrir rúmlega sex milljarða króna og áfram tryggt að innviðir mæti þörfum bæjarbúa. Lokið verður við uppbyggingu á Kársnesskóla og leikskóla tengdum skólanum. Þá verður hafist handa við byggingu nýs leikskóla við Skólatröð. Unnið verður að undirbúningi byggingar leikskóla í Naustavör og leik- og grunnskóla í Vatnsendahvarfi.
Vatnsendahvarf er nýtt hverfi í Kópavogi og verður hafist handa við úthlutun lóða og uppbyggingu á hverfinu á næsta ári. Eins og venja er í fjárhagsáætlun Kópavog er ekki gert ráð fyrir tekjum fyrir úthlutun lóða/byggingarréttar í fjárhagsáætlun.
Stefnt er að því að hefja byggingu aðalvallar HK við Kórinn. Þá verður byggður nýr gervigrasvöllur vestan Fífunnar.
Stækkun hjúkrunarheimilisins Boðans heldur áfram og gert ráð fyrir 175 milljónum til þess verks á árinu.
Um 1,8 milljörðum króna verður varið í gatnagerð og skipulagsmál árið 2024.
Framkvæmdir hefjast 2024 á fyrstu hæð Bókasafns og Náttúrufræðistofu Kópavogs en þar verður nýtt upplifunarrými sem tengja mun saman lestur, tónlist, list og náttúrufræði. Stefnt er að opnun rýmisins sumarið 2024.
Stefnumiðuð áætlun
Gert er ráð fyrir 2% fjölgun íbúa og að þeir verði þeir orðnir 41.418 kr. í lok árs 2024.
Fjárhagsáætlunin tekur mið af stefnum og aðgerðaáætlunum bæjarins, mælanlegum markmiðum og aðgerðum og er þetta þriðja árið í röð sem unnið er með stefnumiðaða fjárhagsáætlunargerð.
Með fjárhagsáætlun 2024 er einnig lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2025, 2026 og 2027 til fyrri umræðu.
Fjárhagsáætlun 2024 fyrri umræða