Framúrskarandi skólastarf verðlaunað

Handhafar Kópsins ásamt Margréti Friðriksdóttur formanni menntaráðs.
Handhafar Kópsins ásamt Margréti Friðriksdóttur formanni menntaráðs.

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi skólastarf

Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi skólastarf í grunnskólum Kópavogs, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 31. maí. Alls bárust 20 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skólastarfi.

Verkefnin

Samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og skólahljómsveitar Kópavogs, sem Össur Geirsson stýrir.

Ég og bærinn minn í Salaskóla, þróunarverkefni sem leitt var af Hrafnhildi Georgsdóttur og Þorvaldi Hermannssyni.

Rafrænar ferilmöppur í list- og verkgreinum, Árni Jónsson, Eygló Jósephsdóttir, Ingibjörg Ólafía Ólafsdóttir og Helga Björg Barðadóttir í Álfhólsskóla

Teymiskennsla í 1.-5.bekk Lindaskóla: Nanna Hlín Skúladóttir, Elsa Sif Guðmundsdóttir, Kristgerður Garðarsdóttir, Paloma Ruiz Martinez og Sigrún Dóra Jónsdóttir, Lára Sif Jónsdóttir, Sigurrós Óskarsdóttir, Auðbjörg Njálsdóttir,Ásta Björk Agnarsdóttir, Ásdís Björk Jónsdóttir og Guðrún Friðbjörg Eyjólfsdóttir.

Lestrarnámskeið í samstarfi nemenda, foreldra og sérkennara undir stjórn Kristínar Arnardóttur, sérkennara í Kópavogsskóla.

Appmótun: Tæknilæsi – myndlæsi – menningarlæsi. Ingibjörg Hannesdóttir Smáraskóla.

Nánar um verkefnin

Össur Geirsson og Skólahljómsveit Kópavogs fengu viðurkenningu fyrir Samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Skólahljómsveitar Kópavogs. SK hefur verið með sameiginlegt tónleikahald með SÍ í vetur, annars vegar með jólatónleika í Hörpu í desember og hins vegar skólatónleikar í Kórnum 2. júní. Hugmyndafræði verkefnisins snýst um að hvetja ungt fólk í Kópavogi til tónlistarnáms og þá sérstaklega í efri byggðum bæjarins.

Hrafnhildur Georgsdóttir og Þorvaldur Hermannsson í Salaskóla hlutu viðurkenningu fyrir þróunarverkefnið Ég og bærinn minn. Verkefnið gekk út á að settur var upp lítill bær þar sem 18 fyrirtæki voru starfandi með 33 ólíkum störfum. Áður en nemendur mættu í bæinn lærðu þeir ýmislegt um fyrirtæki, störf og þjónustu sem við þurfum í borgum og bæjum um t.d. efnahag og lýðræði.

Árni Jónsson, Eygló Jósephsdóttir, Ingibjörg Ólafía Ólafsdóttir og Helga Björg Barðadóttir í Álfhólsskóla hlutu viðurkenningu fyrir Rafrænar ferilmöppur í list- og verkgreinum. Um er að ræða vinnuferli þar sem nemendur skrá ferli verkefna sem þau vinna í list- og verkgreinum frá upphafi til lokaafurðar. Nemendur taka myndir á meðan verkefnin eru unnin og lýsa einnig vinnu við verkefnin með því að nota orð og hugtök sem tengjast faginu hverju sinni.

Nanna Hlín Skúladóttir, Elsa Sif Guðmundsdóttir, Kristgerður Garðarsdóttir, Paloma Ruiz Martinez og Sigrún Dóra Jónsdóttir, Lára Sif Jónsdóttir, Sigurrós Óskarsdóttir, Auðbjörg Njálsdóttir,Ásta Björk Agnarsdóttir, Ásdís Björk Jónsdóttir og Guðrún Friðbjörg Eyjólfsdóttir umsjónarkennarar í 1.- 5. bekk í Lindaskóla fengu viðurkenningu fyrir Teymiskennslu. Í teymiskennslu er heill árgangur saman í bekk með tvo til þrjá umsjónarkennara. Þeir bera sameiginlega ábyrgð á námi nemenda sinna, kennslu og undirbúningi hennar og daglegum samskiptum. Það sem einkennir kennsluhætti í öllum árgöngum eru hringekjur þar sem nemendur vinna í smærri hópum á ýmsum stöðvum þar sem ákveðin verkefni eru unnin.

Kristín Arnardóttir, sérkennari í Kópavogsskóla, fékk viðurkenningu fyrir Lestrarnámskeið í samstarfi nemenda, foreldra og sérkennara. Um er að ræða lestrarnámskeið fyrir foreldra í framhaldi af lestrarstuðningi fyrir nemendur yngsta stigs. Til að tryggja sem bestan árangur af stuðningi við nemendur er eftirfylgni foreldra lykilatriði. Þeim er því boðið á námskeið þar sem þeim er kennt að aðstoða barnið á jákvæðan og uppbyggjandi hátt heima.

Ingibjörg Hannesdóttir í Smáraskóla hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið Appmótun: Tæknilæsi – myndlæsi – menningarlæsi  sem hún hefur unnið í samstarfi við innleiðingarteymi spjaldtölvuvæðingar Kópavogs, Listasafni Íslands, Menntamálastofnun og áhugasömum nemendum úr fjölmörgum skólum bæjarins. Verkefnið er þegar hafið með vinnuframlagi allra aðila, búið að móta hóp nemenda sem hafa hist nokkrum sinnum nú á vorönn og unnið þess á milli kannanir og hugmynda- og mótunarvinnu á netinu undir leiðsögn verkefnastjóra og kennsluráðgjafa. Menntamálstofnun hefur komið með kynningu forritara til hópsins og verkefnið hefur nú nýverið fengið 1.800.000,- kr. styrk úr Sprotasjóði.