Íþróttakona og íþróttakarl ársins kosin af íbúum

Íþróttakarl 2016 Jón Margeir Sverrisson sundmaður úr Ösp/Fjölni og íþróttakona 2016  Svana Katla Þo…
Íþróttakarl 2016 Jón Margeir Sverrisson sundmaður úr Ösp/Fjölni og íþróttakona 2016 Svana Katla Þorsteinsdóttir karatekona úr Breiðablik.

Kópavogsbúar 18 ára og eldri geta nú í annað sinn kosið um íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2017. Valið stendur á milli 10 íþróttamanna sem íþróttaráð Kópavogs valdi úr innsendum tilefningum frá íþróttafélögunum. Vægi atkvæðis íbúa er 40% á móti vægi íþróttaráðs. Kjósa má einn karl og eina konu. Val á íþróttakarli og íþróttakonu verður kynnt á íþróttahátíð Kópavogs sem haldin verður í Kórnum 11. janúar nk.

Íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fá í sinn hlut farandbikar og eignarbikar auk peningaverðlauna frá Kópavogsbæ.

Kosning hófst þann 27.desember og lýkur 7.janúar .

Kosningin er rafræn og fer fram í gegnum íbúagátt Kópavogs

Hér má lesa um það íþróttafólk sem er í kjöri og skarað hefur framúr á árinu 2017. 

 

Birgir Leifur Hafþórsson Kylfingur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar

Birgir Leifur Hafþórsson  

Birgir Leifur náði sínum besta árangri á ferlinum þegar hann sigraði á Cordon golf Open mótinu í Frakklandi síðast liðið sumar.  Þetta mót er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu (Challenge Tour), sem er næst efsta deild atvinnumennskunnar í golfheiminum í dag. Með sigrinum tryggði Birgir Leifur sér þátttökurétt í 12 mótum á næstu tveimur leiktíðum Evrópumótaraðarinnar (European Tour) Hér heima leiddi Birgir Leifur sveit Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar til sigurs í Íslandsmóti golfklúbba, í fyrsta sinn síðan 2012 og í fimmta sinn alls. Enginn íslenskur kylfingur hefur náð jafngóðum árangri og Birgir Leifur, og því óhætt að segja að Birgir Leifur sé enn í framför eftir 20 ár í atvinnumennsku í golfi.

Birgir Leifur er frábær fyrirmynd annara, yngri sem eldri, reglusamur, vinnusamur,  ávallt jákvæður og ekki síst þrautseigur. Hann er öflugur liðsmaður, hvetjandi og drífandi.

 

Máni Matthíasson Blakmaður úr HK   

Máni Matthíasson

Máni er lykilleikmaður HK í meistaraflokksliði karla í blaki sem vann sinn 6. Íslandsmeistaratitil í röð jafnframt því að liðið varð meistari meistaranna. Meiðsli hjá aðaluppspilara liðsins gerðu það að verkum að Mána var kastað út í djúpu laugina og hann gerður að fyrsta uppspilara liðsins. Það kom því í hlut hins 17 ára uppspilara að leiða liðið á erfiðum tíma en liðið var einnig að ganga í gegnum þjálfara skipti fyrir tímabilið. Hann stóð sig með mikilli prýði og var í lok tímabilsins með bestu nýtinguna uppspilara í Mizuno-deildinni og úrslitakeppni fyrir Íslandsmeistaratitillinn.  Máni er ekki aðeins fyrirmynd inn á vellinum heldur er hann duglegur að hjálpa við þjálfun yngri flokka í blakdeild HK. Þetta árið fékk hann líka meiri spilatíma með A-landsliði  Íslands ásamt því að hafa spilað með U19- landsliðinu.

 

Sindri Hrafn Guðmundsson Spjótkastari úr Breiðablik

Sindri Hrafn Guðmundsson

Sindri Hrafn náði sínu lengsta kasti á árinu í Bandaríkjunum í maí er hann kastaði spjótinu 77,19 metra og sigraði á mótinu. Þetta kast skipar honum í 10. sæti í Evrópu í hans aldursflokki (U23).  

Þetta var jafnframt lengsta kast Íslendings á árinu sem tryggði honum rétt til þátttöku á Evrópumeistaramóti U23.  Þar komst hann í úrslitakeppnina en hafnaði í 9. sæti með kasti upp á 74,42m. , en vegna alvarlegra meiðsla og skurðaðgerðar haustið 2016 þurfti Sindri að fara sparlega með olnbogann allt árið 2017.

Sindri tók meiðslunum sem áskorun og þegar hann loks varð laus meina sinna náði hann frábærum árangri  og bætti skólametið (Utah State University) í spjótkasti sem og mótsmetið á svæðismóti háskólanna (Mountain West Conference).  Þá náði hann sjötta sæti á Bandaríska háskólameistaramótinu (NCAA National Championships) á fyrsta ári hans þar. 

Valgarð Reinhardsson Fimleikamaður úr Gerplu

Valgarð Reinhardsson

Valgarð hefur verið einn besti fimleikamaður landsins um nokkurt skeið.  Valgarð var einn af burðarásum í bikarliði Gerplu sem sigraði á bikarmóti Fimleikasambands Íslands og færði titilinn aftur heim í Kópavog.   Valgarð sigraði fjölþrautarkeppnina á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum en sterkir keppendur voru mættir til leiks á mótinu þar sem Valgarð gaf ekkert eftir og hampaði Íslandsmeistaratitlinum.  Á Norður Evrópumótinu varð hann með efstu mönnum mótsins í fjölþraut og vann til verðlauna í æfingum á svifrá.  Þetta er besti árangur Íslendings á svifránni hingað til en Norður Evrópumótið er feiknarsterk mót þar sem til leiks mæta keppendur sem unnið hafa til fjölda verðlauna á alþjóðavettvangi. Hann leggur mikinn metnað og alúð við æfingar sínar. Hann stundar hvorki nám né vinnu meðfram æfingum og æfir 2x á dag og stefnir á Ólympíuleikana 2020

 

Ævar Örn Guðjónsson Hestaíþróttamaður úr Spretti

Ævar Örn Guðjónsson

Ævar Örn Guðjónsson hestaíþróttamaður úr Spretti hefur um árabil verið í fremstu röð knapa á landinu. Hann hefur unnið fjölda titla í íþrótta- og gæðingakeppni og sýnt fjölmörg kynbótahross til fyrstu verðlauna.

Á Íslandsmeistaramótinu síðast liðið sumar varð hann Íslandsmeistari í 250 metra skeiði, í fjórða sæti í 100 metra skeiði og í sjöunda sæti í tölti. Hann var í framhaldinu valinn í Íslenska landsliðið í hestaíþróttum og tók þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi í ágúst. Á því móti varð hann í sjötta sæti í 100 metra skeiði og í því áttunda í 250 metra skeiði.

Ævar vann bæði B-flokk gæðinga hjá hestamannafélögunum Spretti og Smára í sumar svo fátt eitt sé nefnt.

Ævar hefur tvisvar verið valinn íþróttamaður hestamannafélagsins Spretts nú síðast á þessu ári. 

 

Agnes Suto Tuuha   Fimleikakona úr Gerplu

Agnes Suto Tuuha

Agnes Suto-Tuuha er ein reyndasta fimleikakona Íslands.  Hún er mikill leiðtogi og fyrirmynd, en með dugnaði sínum og elju, gefur hún yngri iðkenda í fimleikum gott fordæmi. Hún var í toppbáráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í vor og var hársbreidd frá því að vinna þar sem einungis örfá stig skildu að efstu 3 sætin en hún varð í 3.sæti í fjölþraut ásamt því að vinna til verðlauna á einstökum áhöldum.  Agnes var valin í öll landsliðsverkefni FSÍ á árinu 2017, Evrópumót, N0orður-Evrópumót og Heimsmeistaramót.  Á Norður Evrópumótinu lenti Íslenska liðið í 2. sæti í liðakeppni en Agnes náði næst bestum árangri í fjölþraut af Íslensku keppendunum. Á því móti vann hún silfur á jafnvægisslá í úrslitum á áhöldum.  Á bikarmóti Íslands varð Gerpluliðið í 2.sæti en þar spilaði Agnes stórt hlutverk sem reynslumikill keppandi og taldi á öllum áhöldum.

Birgit Rós Becker    Kraftlyftingakona úr Breiðabliki

Birgit Rós Becker

Birgit Rós Becker náði þeim frábæra árangri að vinna til bronsverðlauna í hnébeygju á Evrópumeistaramótinu í Kraftlyftingum. Hún jafnaði sinn besta árangur í hnébeygju með því að lyfta 165kg og í bekkpressu er hún lyfti 72,5kg og þar með sitt eigið Íslandsmet.   Í samanlögðu lyfti hún 317,5kg en vegna meiðsla náði hún ekki að beita sér að fullu í réttstöðunni og hafnaði í 9. sæti í samanlögðum árangri. Birgit Rós keppir í -72kg flokki sem er sá flokkur kvenna þar sem samkeppnin er hvað mest. Birgit Rós æfði Crossfit áður en hún snéri sér að kraftlyftingum fyrir þrem árum. Árið 2015 varð hún bikarmeistari og setti 4 Íslandsmet á fyrsta móti.  Hún var valin í landsliðið 2016 og varð  3.sæti á Reykjavík International Games á eftir tveim af bestu kraftlyfingakonum heims.  

Elísabet Einarsdóttir       Blakkona úr HK

Elísabet Einarsdóttir

Elísabet Einarsdóttir var lykilleikmaður í sterku meistaraflokksliði HK í blaki.  Hún átti framúrskarandi tímabil síðasta vetur og stóð upp úr í meistaraliði sem vann bæði deildar- og Íslandsmeistaratitil í vor. Elísabet varð einnig Íslandsmeistari í strandblaki, en hún á að baki 14 Íslandsmeistaratitla í strandblaki frá upphafi. Hún er fastamaður í landsliði Íslands og spilar stórt hlutverk þar. Eftir frábært tímabil hér heima þá skrifaði Elísabet undir atvinnumannasamning við Volley Lugano í Sviss fyrir núverandi tímabil.  Elísabet, sem er einungis 19 ára, er á allan hátt mjög góður íþróttamaður og góð fyrirmynd innan vallar sem utan.  Hún leggur hart að sér á æfingum, er ósérhlífin og mikil hvatning og fyrirmynd fyrir aðra leikmenn, hvort heldur sem er innan liðs eða með landsliðinu.  Hennar mikilvægasti eiginleiki er að hún sem liðsmaður stígur upp á réttum tíma fyrir liðið til þess að það nái enn betri árangri.

 

Fanndís Friðriksdóttir  Knattspyrnukona úr Breiðabliki

Fanndís Friðriksdóttir

Fanndís Friðriksdóttir var lykilleikmaður í meistaraflokksliði Breiðabliks sem varð í öðru sæti á Íslandsmótinu og skoraði 10 mörk í 13 leikjum.    Fanndís var einn besti maður Íslands á Evrópumeistaramótinu í Hollandi sl. sumar.  Lék hún alla 3 leiki liðsins í byrjunarliði og skoraði eina mark Íslands á EM.   Fanndís  gekk til liðs við Marseille í frönsku úrvalsdeildinni í ágúst en liðið varð í 4.sæti deildarinnar í ár.  Franska deildin er ein sú sterkasta í heimi og nægir þar að nefna að tvo frönsk lið léku úrslitaleikinn í meistaradeildinni á árinu. 

Fanndís átti framúrskarandi leik með Íslandi sem vann Ólympíumeistara Þjóðverja í undankeppni HM í sumar, sem var fyrsti ósigur Þýskalands í undankeppni HM í 20 ár.

Fanndís er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.  Hún er mikil keppnismanneskja sem drífur samherja sína áfram með sigurvilja sínum.

 

Svana Katla Þorsteinsdóttir   Karatekona úr Breiðabliki

Svana Katla Þorsteinsdóttir

Svana Katla Þorsteinsdóttir varð Íslandsmeistari í kata kvenna, 3ja árið í röð.  Hafnaði í 2.sæti í hópkata kvenna og á bikarmeistaramótaröð Karatesambands Íslands, þar sem hún sigraði allar kata-viðureignir. Á erlendum vettvangi vann hún silfur í hópkata kvenna á Norðurlandameistaramótinu, brons í kata kvenna á Smáþjóðamótinu í Andorra og brons í hópkata kvenna á sama móti.  Svana Katla er  í 281.sæti á lista World Karate Federation fyrir kata kvenna.  Svana Katla er góður íþróttamaður og um leið fyrirmynd annarra þeirra sem stunda karate. 

Svana Katla hefur um árabil verið ein af sterkustu karatekonum landsins og fastur landsliðsmaður síðustu ár og verið í landsliði Íslands í hópkata sem hefur unnið til verðlauna á Norðurlandamótum síðustu 7 ár, þar af gull árið 2012.  Hér heima hefur hún verið nær ósigrandi í kata síðustu ár og er núna Íslandsmeistari í kata kvenna þriðja árið í röð.