Kópavogsbúar rækta garðinn sinn

Mæðginin Níels Jóhann Júlíusson og Katrín Níelsdóttir í skólagörðum í Kópavogsdal sumarið 2014.
Mæðginin Níels Jóhann Júlíusson og Katrín Níelsdóttir í skólagörðum í Kópavogsdal sumarið 2014.

Um 200 krakkar eru í Skólagörðum Kópavogs í sumar. Skólagarðar eru á þremur stöðum, í Fossvogsdal, Kópavogsdal og við Hörðuvallaskóla. Þá hafa um 150 íbúar Kópavogs nýtt sér aðgang að garðlöndum bæjarins. Þau eru á fimm stöðum í bænum.

Skólagarðar hafa verið reknir á vegum Kópavogsbæjar síðastliðin fimmtíu ár eða svo. Þeir eru ætlaðir börnum á aldrinum sex til þrettán ára. Börnin fá kartöfluútsæði, plöntur og fræ í skólagörðunum ásamt leiðsögn við ræktun algengustu matjurta.

Leiðbeinendur og aðstoðarmenn starfa með börnunum, en auk ræktunarinnar er bryddað upp á ýmsu skemmtilegu, farið í skoðunarferðir, grillað og fleira.

Kópavogsbær hefur einnig  leigt út garðlönd til íbúa bæjarins um árabil. Hvert garðland er 25 fermetrar að stærð. Hver leigjandi getur verið með tvo skika en skilyrði fyrir úthlutun er að eiga lögheimili í Kópavogi.

Um 180 skikar eru í útleigu í ár, sem er fækkun síðan í fyrra. Kuldatíðin í fyrrasumar er meginskýring þess að færri Kópavogsbúar leigðu sér garðskika í ár að mati Friðriks Baldurssonar garðyrkjustjóra, léleg spretta í fyrra dró úr áhuganum.

Fyrirtaks spretta hefur hins vegar verið í skólagörðum og garðlöndum í sumar enda júní óvenju hlýr. Þá hefur vætutíð haft góð áhrif á gróðurinn.

Garðlöndin eru á fimm stöðum í bænum, neðan Kjarrhólma og við Víðigrund í Fossvogsdal, við Kópavogstún, Núpalind og Arnaresveg á mörkum Sala- og Kórahverfis. Notendur garðanna hafa aðgang að vatni og verkfærum.