Listaverk Kópavogsdaga lifa áfram

Listaverk prýðir útivegg
Listaverk prýðir útivegg

Kópavogsdögum, menningarhátíð Kópavogs, lauk um helgina og var góður rómur gerður að fjölbreyttum viðburðum hátíðarinnar. Fjölmargir lögðu leið sína á menningarhátíð Smáraskóla, á handverkssýningar eldri borgara, á pönktónleika og á vinnustofur listamanna. Tilgangur hátíðarinnar er að vekja athygli á því mikla menningarstarfi sem fram fer í bænum allan ársins hring. 

Karlakór Kópavogs rúntaði um bæinn á laugardeginum og kom m.a. við á menningartorfunni, í sundi, í  Smáralind og á myndlistarsýningum. Leiksýningar voru settar upp fyrir börn í Bókasafni Kópavogs og tónleikar haldnir í Salnum og Tónlistarsafni Íslands. Danshópurinn Raven sýndi einnig listir sínar við Gerðarsafn og fékk til liðs við sig börn úr grunnskólum Kópavogs.

Listaverk fæddust á hátíðinni og má þar nefna stórt verk sem nú prýðir gaflinn á Hamraborg 9. Listakonan Kristín Þorláksdóttir á heiðurinn að því verki. Hún vísar í verkinu til Kópavogsskáldsins Jóns úr Vör og ljóðs hans Ómáluð mynd.

Tréið við Café Dix í Hamraborginni hefur einnig öðlast nýtt líf, því listakonan Eygló Benediktsdóttir, hengdi á það handgerð postulínslaufblöð í upphafi Kópavogsdaganna með hjálp leikskólabarna.

Verðlaunaljóð grunnskólabarna og handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör fljóta enn í sundlaugum Kópavogs og þau hanga einnig í strætisvögnum sem eiga leið um bæinn, svo sem leið 2, leið 4, leið 28 og leið 35.

Kópavogsbær þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera hátíðina sem veglegasta.