Nám með vinnu á leikskóla er allra hagur

Bryndís Gunnarsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Mynd/Fréttablaðið Ernir.
Bryndís Gunnarsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Mynd/Fréttablaðið Ernir.

Í vor útskrifuðust fjórir starfsmenn leikskólans Grænatúns úr leikskólafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en Kópavogsbær veitir starfsmönnum leikskóla sinna styrki til náms í formi launaðs leyfis vegna mætinga í bók- og verknám í leikskólafræðum. Sigríður Ólafsdóttir skólastjóri Grænatúns og Bryndís Gunnarsdóttir deildarstjóri á miðdeild hafa góða reynslu af þessu fyrirkomulagi.

„Ég var búin að starfa á leikskólanum í sjö ár þegar ég ákvað að fara í námið eftir hvatningu frá Grænatúni og styrkurinn frá Kópavogsbæ var ekki síður hvatning,“ segir Bryndís sem lýkur MT námi í vor . „Við erum sex héðan núna að nýta okkur þennan möguleika og ég held að engin okkar hefði farið í leikskólakennaranámið ef það hefði þýtt að hætta að vinna.“ Hún segir samninginn ganga út á að hún geti sinnt námi meðfram starfi sínu á leikskólanum. „Ég fæ 280 tíma eða allt að 35 dögum til að sinna vettvangsnámi og staðlotum í skólanum. Kópavogsbær borgar skólagjöld og skólabækur og svo er komið til móts við mig þannig að ég gat aðeins minnkað við mig vinnu til þess að sinna náminu án þess að það komi niður á laununum. Ég nýti svo það sem ég lærði inni á vinnustaðnum.“

Vítamínsprauta inn í starfið

Sigríður segir að einmitt sá möguleiki breyti gríðarlega miklu fyrir Grænatún. „Leikskólar almennt eru misvel búnir af fagfólki svo okkur finnst við mjög rík að hafa sex nema hjá okkur sem eykur á lærdómssamfélag innan skólans og fagmennsku. Nemarnir læra saman á kvöldin í skólanum og um helgar því Grænatún er ávallt opinn fyrir þær. Nám þeirra er mikil vítamínsprauta inn í starfið sem gefur okkur hinum tækifæri til að fylgjast með því sem er að gerast í fræðunum og halda okkur á tánum. Stundum koma álagspunktar á starfsfólk leikskólans vegna nema í kringum próf og vettvangsnám en það eru allir jákvæðir því við græðum öll á þessu að lokum.“

Bryndís segir þetta fyrirkomulag, nám með vinnu, ekki bara henta vinnustaðnum heldur líka nemanum. „Námið og vinnan dansa svo vel saman. Ég finn að þeir staðnemar sem eru með mér í náminu sakna þess að fá ekki tækifæri til að prófa það sem við erum að læra. Og svo nýtist það í hina áttina líka, við getum unnið verkefni út frá því sem er að gerast í vinnunni meðfram því sem við lesum um í bókunum.“

Mikilvægt að læra í verki

Breytingar voru gerðar á leikskólafræðináminu síðastliðinn vetur og nú er krafist meiri viðveru í skólastofu eða á skólatíma. „Þegar ég hóf nám mættu fjarnámsnemar á staðlotu tvisvar yfir önnina en núna er fjarnámið meira hugsað sem viðvera á Zoom tvisvar þrisvar í viku,“ segir Berglind. Sigríður bendir á að útgangspunkturinn með náminu sé fjölgun fagfólks í leikskólum sem mikil þörf sé á. „Fyrsta árs neminn okkar er miklu meira í staðnámi en hinar voru, sem þýðir að hún er meira fjarverandi og það breytir forsendum samningsins af hendi vinnuveitandans. Menntavísindasvið þyrfti að endurskoða þessar breytingar í samvinnu við sveitafélögin“

Bryndís samsinnir þessu og bætir við: „Maðurinn minn er grunnskólakennari sem fór í gegnum fimm ára staðnám og upplifði mikil viðbrigði þegar hann hóf störf sem kennari. Við hinsvegar erum að læra á meðan við erum að vinna og það er mun auðveldara að þróa starfsþekkingu og starfsvitund með þessum hætti.“ Frá 2014 hafa 116 starfsmenn leikskóla Kópavogs fengið styrk til náms í leikskólakennarafræðum.

Sem dæmi þá voru 51 starfsmaður í námi í leikskólakennarafræðum og útskrifuðust 13 starfsmenn í vor. Bryndís lítur björtum augum til framtíðar.

„Starfendarannsóknin mín fjallaði um útinám í leikskólum og ég prófaði ákveðna aðferð til að sjá hvort það sé hægt að aðlaga hana öllum aldurshópum. Við sem fáum þennan samning erum bundin því að vinna á einum af leikskólum Kópavogsbæjar í tvö ár eftir að námi lýkur þar sem gefst áfram tækifæri til að þróa aðferðir og þekkingu. Þetta er beggja hagur,“ segir hún að lokum.