Salaskóli tekur þátt í alþjóðlegu skólaneti UNESCO

Menntamálaráðherra og fulltrúar þeirra skóla sem hafa fengið viðurkenningu sem UNESCO-skólar.
Menntamálaráðherra og fulltrúar þeirra skóla sem hafa fengið viðurkenningu sem UNESCO-skólar.

Salaskóli er í hópi fyrstu íslensku skólanna sem eru þátttakendur í alþjóðlegu skólaneti UNESCO.

Miðvikudaginn 24. október, á Degi Sameinuðu þjóðanna, veitti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fyrstu íslensku skólunum viðurkenningu fyrir þátttöku í alþjóðlegu skólaneti UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Skólarnir sem um ræðir eru Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Kvennaskólinn í Reykjavík, Landakotsskóli og Salaskóli í Kópavogi.

Afhending viðurkenningarinnar fór fram í Salaskóla. Áður en hún var afhent og tóku nemendur í 9. og 10. bekk þátt í Heimsins stærstu kennslustund ásamt frú Elizu Reid. Forsetafrúin er verndari Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og hvatti hún nemendur til að vinna að framgangi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.  Heimsins stærsta kennslustund (e. The World Largest Lesson) mun fara fram um allan heim á næstu vikum, en markmiðið með henni er að efla vitund og virkni ungs fólks og hvetja þau til aðgerða er tengjast sjálfbærri þróun.

UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953. Þeir eru nú yfir 10.000 talsins og starfa í 181 landi.

Að vera UNESCO-skóli felur í sér langvarandi samkomulag og samvinnu milli skólans og UNESCO, þar sem skólinn innleiðir verkefni tengdum einhverju af fjórum þemum UNESCO-skóla: fjölmenningarfræðslu, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, sjálfbærri þróun og/eða friði og mannréttindum.

Félag Sameinuðu þjóðanna sér um innleiðingu verkefnisins hér á landi í samstarfi við Íslensku UNESCO–nefndina. Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Verkefnið heldur úti skólavef þar sem skólar geta nálgast fjölbreytt námsefni sem tengist sjálfbærri þróun og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.  

Heimsmarkmiðin 17 eru flokkur markmiða og undirmarkmiða sem taka til alls heimsins og ber ríkjum að ná þeim fyrir 2030. Íslenska ríkisstjórnin  hefur skipað verkefnastjórn sem nú vinnur að innleiðingu markmiðana og eitt af forgangsmarkmiðum hennar er að efla menntun og fræðslu á sviðum sjálfbærni, friðar og mannréttinda.

Að innleiða kennsluefni um markmiðin gefur nemendum sýn á þetta ferli og aukinn skilning á alþjóðamálum. Markmiðið er að nemendur þjálfist í gagnrýnni hugsun og öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun í heiminum.