Velkomin í Kópavogsskóla

Félagsmiðstöðin var skreytt frá toppi til táar vegna tilefnisins.
Félagsmiðstöðin var skreytt frá toppi til táar vegna tilefnisins.

 Námskeiðið Velkomin hóf göngu sína fyrir þremur árum í Kjarnanum, félagsmiðstöð Kópavogsskóla,  en þetta er í annað skipti sem það er haldið yfir sumar. Tólf börn á miðstigi og sjö á unglingastigi sækja námskeiðið í ár en nokkur barnanna fæddust hérlendis á meðan önnur fluttu til landsins fyrir minna en tveimur mánuðum. Tilgangur námskeiðsins er að virkja ungmenni með annað móðurmál en íslensku í frístunda- og félagsstörfum.

Nemendurnir eiga rætur að rekja til ellefu landa og tala fimmtán tungumál í heildina. Þar má nefna tungumál á borð við kínversku, arabísku, sómalísku og lettnesku. Á námskeiðinu fara krakkarnir í leiki og vettvangsferðir en í sumar fóru þau í Húsdýragarðinn, Flyover Iceland og í frisbý golf, svo fátt sé nefnt.

Halldór Hlöðversson, forstöðumaður Kjarnans, og Donata H. Bukowska, kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku, standa að baki námskeiðinu Velkomin sem er hluti af stærra verkefni sem hefur verið í þróun síðustu þrjú ár. Margir aðilar koma að verkefninu hjá Kópavogsbæ en það er unnið í nánu samstarfi skólastofnana, félagsmiðstöðva, Samfés og Vinnuskóla Kópavogsbæjar. Námskeiðið hlaut styrk úr Sprotasjóði Menntamálaráðuneytisins sem er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi.

Meðal þátttakenda í ár er Kópavogsbúinn Qiang Ji sem fagnaði 12 ára afmælisdegi sínum eldsnemma að morgni með foreldrum sínum og félögum í Kjarnanum. Halldór Hlöðversson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar, og Sigrún Gyða Sveinsdóttir, frístundaleiðbeinandi, eyddu morgninum í að blása upp blöðrur og skreyta salinn.

Nemendurnir héldu upp á áfangann með því að fara í leiki og borða saman pítsu sem félagsmiðstöðin bauð upp á í hádeginu. Afmælislagið var sungið á bæði íslensku og kínversku og endaði dagurinn á því að afmælisbarnið blés á kertin á kökunni sem foreldrar hans, Hongxia Ji og Hongxiu Ji, komu með. 

Leiðbeinendur námskeiðsins leggja mikið upp úr því að mæta nemendunum á þeirra forsendum og lögð er áhersla á að finna styrkleika barnanna og rækta þá. Leitast er eftir upplýsingum um áhugamál barnanna strax við skráningu en skráningarsíðan þeirra býður upp á viðmót á tólf tungumálum. Halldór tekur dæmi um nemanda sem var hjá þeim síðasta sumar sem ætlar sér að verða atvinnumaður í rafíþróttum. Vegna áhugasviðs nemandans fór hópurinn í kynningarferð til tölvuleikjaframleiðandans CCP.

Ásamt því að að kynna fyrir nemendum frístunda- og félagsstarf Kópavogs fer einnig fram tungumálakennsla. Nemendunum er ekki kennd íslenska með hefðbundnu sniði heldur safna þau þýðingum í svokallaðan orðabanka. Leiðbeinandi leggur til íslenskt orð og hver og einn nemandi segir orðið á sínu móðurmáli. Börnin öðlast því ríkulegri orðaforða og læra af hvoru öðru. Halldór telur að tvítyngi og fjöltyngi séu ávísun á betri frammistöðu í námi. 

Fyrir Halldóri felst markmið námskeiðsins í heiti þess en það er að bjóða nemendurna velkomna í íslenskt samfélag. Hann segir námskeiðið gert í þeim tilgangi að valdefla og virkja ungmennin ásamt því að kynna fyrir þeim hvað Kópavogur hefur upp á að bjóða. Þrátt fyrir að námskeiðið einblíni á aðlögun nemenda úr mismunandi menningarheimum telur Halldór Íslendinga einnig þurfa að aðlagast: “​Samfélagið þarf að vera meðvitað og tilbúið að bjóða þetta fólk velkomið.“

 Hjónin Hongxiu Ji og Hongxia Ji komu með köku handa syni sínum og félögum hans.   

  Ungmennin léku sér í góða veðrinu á meðan þau biðu eftir pítsunum.

Þátttakendur á námskeiðinu söfnuðu orðum á ólíkum tungumálum í sameiginlegan orðabanka.