Viðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar 2020

Andri Steinn Hilmarsson, Kári Stefánsson og Ármann Kr. Ólafsson. Kári hlaut viðurkenningu í flokknu…
Andri Steinn Hilmarsson, Kári Stefánsson og Ármann Kr. Ólafsson. Kári hlaut viðurkenningu í flokknum umhverfi og samfélag.

Umhverfisviðurkenningar umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs 2020 voru veittar miðvikudaginn 26.ágúst. Afhending viðurkenninga var með óhefðbundnum hætti vegna Covid-19 og mættu handhafar viðurkenninga hver í sínu lagi í Salinn í Kópavogi.

Veittar voru fimm viðurkenningar að þessu sinni. Kári Stefánsson hlaut heiðursviðurkenningu í flokknum umhverfi og samfélag, Byko fyrir framlag til umhverfismála, Guðmundur Gunnlaugsson hjá Archus fyrir hönnun á Dalaþingi 23, ÁF hús og Tvíhorf arkitektar fyrir frágang húss og lóðar að Álalind 14 og loks hlutu Aðalheiður St. Eiríksdóttir og Örn Alexanderson viðurkenningu fyrir umhirðu húss og lóðar.

Viðurkenningarnar hafa verið veittar frá árinu 1964 en með núverandi fyrirkomulagi frá árinu 1995. Einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa í gegnum tíðina fengið viðurkenningar í ýmsum flokkum, til dæmis umhirðu húss og lóðar, endurgerð húsnæðis, hönnun, framlag til umhverfis og samfélags svo eitthvað sé nefnt.

Myndir frá afhendingu viðurkenningar má sjá á Facebook-síðu Kópavogs.

NÁNAR:

Umhverfi og samfélag: Heiðursviðurkenning

Heiðursviðurkenning fékk Kári Stefánsson viðurkenningu fyrir framlag sitt til bætts samfélags.

Kári Stefánsson hefur lagt fram til samfélagsins skimun fyrir kórónuveiru/codiv19 og hefur að unnið að rannsóknum að mótefni við kórónuveiru/covid19 til að vinna gegn veirunni á heimsvísu. Þá hefur Kári tekið þátt í ákvarðanatöku varðandi velferð íbúa landsins útaf kórónaveiru/covid19. Vegna þess og rannsókna á erfðum og erfðamengi í gegnum tíðina fær hann heiðursviðurkenningu í flokknum umhverfi og samfélag.

Framlag til umhverfismála

Byko fær viðurkenningu fyrir framlag sitt til að stuðla að umhverfismálum hjá fyrirtækinu og vera leiðarljós fyrir önnur fyrirtæki.

BYKO er leiðandi fyrirtæki á íslenskum byggingarvörumarkaði fyrir fagmenn og einstaklinga í framkvæmdahug. Ábyrgð BYKO í umhverfismálum er tvöföld, í fyrsta lagi að auka framboð og vægi vistvænna vara til byggingariðnaðarins og í öðru lagi innra umhverfisstarf, svo sem orkuskipti, sorpflokkun, fræðsla og skógrækt sem dæmi. Áhersla fyrirtækisins er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðjunni og má finna allar upplýsingar í samfélagsskýrslu BYKO sem var gefin út á árinu í fyrsta skipti á heimasíðu BYKO.

Hönnun: Dalaþing 23

Guðmundur Gunnlaugsson, Teiknistofan Archus

Lóðin Dalaþing 23 er fyrir neðan götu og hefur fagurt útsýni yfir Elliðavatn, opið svæði er vestan megin við húsið, klætt náttúrulegum gróðri og holtagrjóti. Óskir eigenda voru um fallegt fjölskylduhús á einni hæð sem fengi gott dvalarsvæði til suðurs og vesturs, en einnig til austurs að vatninu og að stofur myndu snúa þangað, ásamt eldhúsinu.

Þá og voru óskir um viðhaldsfrítt hús og því notuð sinkklæðning á stórum hluta hússins. Hún spilar með láréttri timburklæðningu undir stórum inndregnum dvalarsvæðum, sem skapar hlýlega ásýnd hússins. Stofuhluti og garðveggir standa sem sjónsteypa. Gluggar eru ætíð gólfsíðir til að tengja náttúruna inn í húsið, nema í hjónaherbergi þar sem úbyggður gluggi gefur sjónarhorn til vatnsins og er glugginn setbekkur um leið. Innandyra er rýmið flæðandi og opin sjónlína til útsýnisins og stofuhluta beint frá innkomu.

Frágangur húss og lóðar á nýbyggingarsvæði

Álalind 14: ÁF Hús, Tvíhorf arkitektar.

Frá upphafi hönnunarferlisins lögðu arkitektar áherslu á að byggingin framkallaði óvænta og síbreytilega upplifun þess sem á hana horfir, hvort sem er úr fjarlægð eða nálægð. Samspil málm- og viðarklæðninga ljá byggingunni nútímalegt og vandað yfirbragð. Þrítóna litur álklæðningarinnar breytist eftir sjónarhorni og kallast á við hlýleika og efniskennd viðarins. Uppbrot í lögun svalanna myndar skemmtilega hreyfingu í formgerð og útliti. Við hönnun lóðarinnar var leitast við að skapa árstíðabundna stemningu, hlýleika og skjól. Með efnisvali og línum í lóðarhönnun er mynduð tenging við nálægar lóðir og stutt við heildaryfirbragð hverfisins. Blómstrandi plöntur í bland við sígrænar gefa svæðinu sterka árstíðartilfinningu en form gróðursvæða tengjast breytilegum línum í byggingunni. Arkitektar ogaðalhönnuðir eru Tvíhorf arkitektar. Lóðarhönnun var unnin í samstarfi við Landmótun.

Umhirða húss og lóðar

Austurkór 47: Aðalheiður St. Eiríksdóttir og Örn Alexandersson

Hjónin Aðalheiður St.Eiríksdóttir og Örn Alexandersson keyptu Austurkór 47 vorið 2016 og byrjuðu strax að byggja upp lóðina, smíða pall og ganga frá lóðinni að framanverðu. Árið 2017 var byrjað að gróðursetja birki og Þorláksvíði og síðan þá hefur verið bætt smátt og smátt við trjám, runnum, blómum og matjurtum. Grjótið í garðinum eru frá flestum landshlutum og fallega akkerið að framanverðu er af gamalli fiskiskútu og oft má sjá íslenska fánann blakta við hún í Austurkór 47.  „Heimilið og garðurinn er okkar áhugamál og hefur gefið okkur ótrúlega mikið og okkur dettur alltaf eitthvað nýtt  í hug á hverjum degi  á þessum ótrúlega stað sem er í hundraðmetra hæð með stórkostlegu útsýni í allar áttir,“ segir Aðalheiður.

Myndir af verðlaunaafhendingunni er að finna á Facebook-síðu Kópavogsbæjar.