Samráð um Barnasáttmála SÞ

Vináttuganga skóla í Kópavogi 2019.
Vináttuganga skóla í Kópavogi 2019.

Opnuð hefur verið rafræn samráðsgátt um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi. Fjölskyldur í Kópavogi eru hvattar til að kynna sér málið og koma með ábendingar eftir því sem við á. Samráðsgáttin verður opin til 15. desember 2019.

Í gáttinni má finna yfirlit yfir þær aðgerðir sem lögð er áhersla í Kópavogi en þær fjalla um þátttöku barna, umhverfismál, jafnræði, samkennd og virðingu, stjórnsýslu, menntun og skóla, mælaborð fyrir börn og fræðslu.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í maí 2018 að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna Kópavogi. Stýrihópur skipaður bæjarfulltrúum, starfsfólki, börnum og ungmennum lagði drög að aðgerðaáætlun innleiðingarinnar.

Innleiðingarferlið er unnið samkvæmt forskrift frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF á Íslandi en að úttekt lokinni mun Kópavogsbær komast í alþjóðlegan hóp Barnvænna sveitarfélaga (e. Child Friendly City).

Barnvænt sveitafélag er samfélag sem stýrt er af sveitar- eða bæjarstjórn þar sem markmiðið er að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda barna. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni, UNICEF, Child Friendly Cities (CFC), sem innleitt hefur verið í fjölda sveitarfélaga víðsvegar um heim.

Þess má geta að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verður 30 ára í næstu viku og verður haldið upp á það með pompi og prakt í Kópavogi.

Auk allra íbúa í Kópavogi hafa starfsmenn bæjarins aðgang að gáttinni.

Samráðsgátt