Þróunarverkefni í skóla og frístundastarfi hljóta styrk

Fulltrúar Kópavogsbæjar við afhendingu styrkjanna.
Fulltrúar Kópavogsbæjar við afhendingu styrkjanna.

Þrjú spennandi þróunarverkefni í skóla- og frístundastarfi Kópavogs hafa hlotið styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu í tengslum við aðgerðaráætlun til ársins 2030. Verkefnin styðja við farsæld barna og ungmenna, efla sköpun, inngildingu og stafræna borgaravitund og tengjast innleiðingu laga um samþættingu þjónustu, Barnasáttmálans og Menntastefnu Kópavogs til ársins 2030.

Verkefnin eru:

Draumagerðarsmiðja

Draumagerðarsmiðju er ætlað að gefa nemendum færi á að vinna út frá eigin áhugasviði og nýta fjölbreyttan námsgagna- og tækjakost ásamt sérþekkingu kennara. Ætlunin er að smiðjan búi yfir hljóð- og upptökuveri sem og búnaði sem hentar vel til nýsköpunar. Nemendur fá þannig tækifæri til að þróa eigin verkefni undir handleiðslu kennara, læra að sýna seiglu og þrautseigju og skapa þekkingu í samvinnu við aðra.

Tengiliður er Sigríður Halldórsdóttir. 

Vitundin – Stafræn tilvera

Vitundin er eitt af þremur nýsköpunar- og skólaþróunarverkefnum sem hlotið hafa styrk ráðuneytisins. Verkefnið leggur grunn að heildstæðri námskrá í stafrænni borgaravitund og gerir íslenskum grunnskólum kleift að kenna börnum og ungmennum ábyrga og gagnrýna netnotkun með staðfærðu og aðgengilegu námsefni. Með vefnum Vitundin.is fá kennarar, foreldrar og skólastjórnendur verkfæri til að efla stafræna ábyrgð nemenda og styðja þau í að verða meðvitaðir og virkir þátttakendur í stafrænu samfélagi framtíðarinnar.

Tengiliður Bergþóra Þórhallsdóttir.

Velkomin

Velkomin er samfélagsverkefni fyrir börn í Kópavogi á aldrinum 10–18 ára sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarlegan bakgrunn. Markmiðið er að styðja börnin við að aðlagast skólanum og samfélaginu í gegnum íþrótta- og frístundastarf. Þátttakan styrkir félagsfærni, vinnur gegn félagslegri einangrun og þjálfar lýðræðisvitund. Verkefnið hjálpar börnunum að upplifa sig sem hluta af heild, ná betri árangri í námi og taka virkan þátt í samfélaginu. Velkomin er samstarfsverkefni á milli skóla, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og annarra stofnana í Kópavogi.

Tengiliður Amanda K. Ólafsdóttir.

Öll verkefnin styðja við farsæld barna, Barnasáttmálann og Menntastefnu Kópavogs til ársins 2030.

Auk verkefna sem Kópavogsbær stendur fyrir styrkti Mennta- og barnamálaráðuneytið ýmis verkefni um land allt. Nánari upplýsingar um þau er að finna á vef ráðuneytisins.