Næsti viðmælandi okkar í Kópavogssögum er Auður Jóhannesdóttir sem er Kópavogsbúi í húð og hár. Í Kópavogssögum segir fólk sem eru uppaldir Kópavogsbúar eða hafa sterk tengsl við bæinn frá skemmtilegum atvikum úr lífi sínu í Kópavogi.
Auður Jóhannesdóttir ólst upp í Hólmunum og hafði viðkomu í Túnunum, Kórunum og Sölunum áður en hún settist að í Smárahverfi. Hún starfar á Heilsugæslunni í Salahverfi, dansar og stundar ræktina í Sporthúsinu, sækir alla þjónustu í Kópavog og er farin að skoða sig um í Sunnuhlíð. Hún segist ekki sjá tilganginn í því að búa neinsstaðar annarsstaðar.
„Það var æðislegt að alast upp í Vallhólmanum, við krakkarnir í hverfinu gengum næstum sjálfala í Fossvogsdalnum og lékum okkur sólarhringum saman, meðal annars að gefa hestum og renna okkur á skíðum. “ Auður æfði samkvæmisdansa í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar til 18 ára aldurs. „Ég man að við vorum fengin til að sýna á Sumardaginn fyrsta á sviði við Kópavogsskóla, úti í kuldanum en það gleymdist strax því þetta var svo gaman,“ segir Auður meðal annars í sinni frásögn.