Þrettán mánaða börn tekin inn í leikskóla í Kópavogi

Þrettán mánaða börn voru tekin inn í leikskóla Kópavogs haustið 2025.
Þrettán mánaða börn voru tekin inn í leikskóla Kópavogs haustið 2025.

Yngstu börn sem fengið hafa leikskólavist í haust í leikskólum Kópavogs eru fædd í júlí 2024 og voru því þrettán mánaða þegar aðlögun hófst í ágúst.

Aðlögun yngstu barna er nú nær lokið í Kópavogi en hún fór að mestu leyti fram í ágúst og september. Vel hefur gengið að ráða starfsfólk og starfsemi leikskólanna komin á skrið eftir sumarleyfi.

Leikskólarýmum í Kópavogi hefur fjölgað frá í fyrra en 40 börn eru í leikskólahluta Barnaskóla Kársness sem tók til starfa í ágúst. Á næsta ári er svo stefnt að opnun nýs leikskóla við Skólatröð.

Frá því Kópavogsmódelið var innleitt árið 2023 hefur bæði skipulag og starfsumhverfi -leikskóla í Kópavogi tekið stakkaskiptum. Betur gengur að manna leikskóla í Kópavogi og því hægt að bjóða fleiri börnum leikskólapláss. Boðið er upp á mikinn sveigjanleika í skráningu leikskólatíma sem foreldrar hafa nýtt sér. Þá hafa tæplega 30% foreldra nýtt sér gjaldfrjálsan leikskóla og stytt dvöl barna í 30 tíma á viku.

Þess má geta að hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara í Kópavogi er með því hæsta á landinu eða 36%, alls eru um 51% með háskólamenntun í leikskólum bæjarins. Starfsfólk sem er í leikskólakennaranámi fær umtalsverða námsstyrki frá sveitarfélaginu til þess að geta stundað námið á vinnutíma og eru um 50 starfsmenn í leikskólakennaranámi um þessar mundir.