Líf og fjör í Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Aðsókn í menningarhúsin í Kópavogi jókst verulega í sumar samanborið við síðasta sumar. Aukninguna má meðal annars rekja til vel heppnaðra breytinga á menningarmiðju Kópavogs vorið 2024, sem hefur slegið í gegn.
„Við erum stolt og ánægð með þá aðsókn sem hefur verið í menningarhúsin í sumar. Það er ljóst að gestir kunna vel að meta framboð viðburða, fjölbreytta og skemmtilega gæðadagskrá sem boðið er upp á í okkar glæsilegu húsum. Þá hafa breytingarnar á menningarmiðjunni, endurnýjaðri Náttúrufræðistofu og barnabókadeild bókasafnsins, mælst afar vel fyrir,“ segir Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.
Aðsóknartölur í Gerðarsafni sýna rúmlega tvöfalda aukningu á gestaheimsóknum þetta sumarið miðað við sömu mánuði í fyrra, eða úr 15.000 gestum í 32.000 gesti. Má það meðal annars rekja til geysivinsælla sýninga á verkum Barböru Árnason og Guðrúnar Berg. Í safninu voru líka starfræktar smiðjur fyrir börn sem voru afar vel sóttar. Safnverslun Gerðarsafns hefur vaxið fiskur um hrygg svo um munar og einnig má nefna að gestafjöldi í Krónikuna tvöfaldaðist frá sama tíma á síðasta ári.
Í bókasafninu er jafnan líf og fjör og merkjanlegt að gestir nýta sér safnið ekki einvörðungu til að ná sér í lesefni heldur dvelur það lengur á safninu eftir gagngerar breytingar sem safnið hefur undirgengist á undanförnum árum. Greinilegt er að gestir kunna að meta aðstöðuna og dvelja þarf frá morgni til kvölds við lestur og leik. Í júlímánuði einum sóttu 2.000 fleiri gestir bókasafnið heim miðað við sumarið fyrra.
Aukin aðsókn í Náttúrfræðistofu Kópavogs helst í hendur við aðsóknina í bókasafnið enda bæði söfnin staðsett í sömu byggingu. Aðsóknin þar fór úr tæplega nítján þúsundum í 22.400 gesti. En í báðum söfnunum var boðið upp á spennandi smiðjur fyrir börn meira og minna alla daga sumarsins.
Salurinn tók líka hástökk í aðsókn yfir sumartímann en gestaheimsóknum fjölgaði þar um tæp 50% á milli ára. Sumartónleikar Salarins sem menningar- og mannlífsnefnd styrkir og eru ókeypis njóta sívaxandi vinsælda og var stappað út úr dyrum á hverja og einustu þeirra. Í sumar varð algjör aðsóknarsprengja á sumartónleikana og fjölgaði gestum úr tæpum 600 í tæpa 1.200 eða um rúman helming.