Árlega er lögð fyrir könnun Rannsóknar og greiningar meðal grunnskólanemenda í 8., 9. og 10. bekk.
Niðurstöður nýrrar rannsóknar Rannsókna og greiningar meðal nemenda í 8.–10. bekk í grunnskólum Kópavogs sýna sterka stöðu í forvörnum, námi og líðan.
Vorið 2025 var lögð fyrir árleg könnun Rannsóknar og greiningar meðal grunnskólanemenda í 8., 9. og 10. bekk. Niðurstöðurnar sem nú liggja fyrir sýna að margt gengur vel í velferð og skólaumhverfi barna í Kópavogi og bera vott um árangursríkt forvarnarstarf, góðan stuðning foreldra og virka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi.
Foreldratengsl og aðhald mikilvæg forvörn
Meirihluti nemenda segir að foreldrar sýni umhyggju, hafi góðan skilning á þeirra daglega lífi og setji skýr mörk. Nánast öll börn telja að foreldrar þeirra séu mjög eða algjörlega mótfallnir neyslu áfengis og annarra vímuefna, og þá segjast nemendur verja reglulegum tíma með foreldrum sínum bæði á virkum dögum og um helgar.
Góð líðan í skóla og áhersla á nám
Mikill meirihluti nemenda segir að námið skipti þau máli og yfir helmingur upplifir að þau fá nægan stuðning frá kennurum. Færri nemendur en áður vilja hætta í skóla eða skipta um skóla, og fleiri telja sig vel undirbúin í kennslustundum.
Virk þátttaka í íþróttum og frístundastarfi
Stór hluti nemenda í Kópavogi taka þátt í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi að minnsta kosti vikulega. Fjöldi þeirra sem æfir íþróttir fjórum sinnum í viku eða oftar er einnig hærri en víða annars staðar. Þetta endurspeglar gott aðgengi að tómstundum og sterkt tengslanet við íþróttafélög og félagsmiðstöðvar í bænum.
Samvinna og skýr stefna skilar árangri
Niðurstöðurnar sýna svart á hvítu að sameiginlegt átak samfélagsins í kringum börn og ungmenni skilar árangri. Með samstilltu átaki foreldra, starfsfólks skóla- og frístundastarfs, sem og barnanna og ungmennanna sjálfra, heldur Kópavogur áfram að skapa öruggt og hvetjandi umhverfi fyrir börn og ungmenni að búa í.
Skýrsla Rannsóknar og greiningar