Breytingar á skipulagi í Vatnsendahvarfi í kjölfar samráðs

Frá samráði við börn í skipulagsvinnu fyrir nýtt hverfi í Kópavogi.
Frá samráði við börn í skipulagsvinnu fyrir nýtt hverfi í Kópavogi.

Gert er ráð fyrir samreknum leik- og grunnskóla fyrir fyrsta skólastigið miðsvæðis í nýju hverfi í Vatnsendahvarfi. 

Nýtt hverfi í Vatnsendahvarf afmarkast af Kórahverfi, Hvörfunum í Vatnsenda og fyrirhuguðum Arnarnesvegi. Þar er áformað að rísi íbúðabyggð með um 500 íbúðum, bæði í sérbýli og fjölbýli. Gert er ráð fyrir góðum útivistasvæðum, hundagerði, leikskóla og verslun og þjónustu innan hverfisins.

Víðtækt samráð við íbúa Kópavogs hefur farið fram í tengslum við mótun deiliskipulag fyrir Vatnsendahvarf. Meðal annars var haldin kynningarfundur í félagsmiðstöð eldri borgara í Boðaþingi, vinnustofur með nemendaráðum Vatnsendaskóla og Hörðuvallaskóla auk opinna kynningarfunda fyrir almenning. Fjölmargar góðar ábendingar og athugasemdir hafa borist á forkynningartímabilinu. Þar má m.a. nefna eindregna ósk yngri kynslóðarinnar um að fá góða sleðabrekku í hverfið og verður gert ráð fyrir henni í deiliskipulaginu.

Þá verður brugðist við ábendingum um skólamál þannig að í deiliskipulaginu verði gert ráð fyrir samreknum leik- og grunnskóla fyrir fyrsta skólastigið miðsvæðis í hverfinu og í tengslum við útivistarsvæði. Einnig verður brugðist við ábendingum um staðsetningu verslunar- og þjónustu innan hverfisins.

Gera þarf breytingar á Aðalskipulagi Kópavogs svo unnt sé að koma til móts við ofangreindar ábendingar. Forkynning á þeim breytingum stendur nú yfir og verður opið hús þann 8. desember á Bæjarskrifstofum Kópavogs, Digranesvegi 1, þar sem tillögurnar verða kynntar og mögulegt verður að koma með fyrirspurnir.

Mótun deiliskipulags stendur enn yfir og ráðgert er að deiliskipulagið fari í auglýsingar- og kynningarferli í byrjun næsta árs. Þá verður haldið opið hús og breytingar tillögunni kynnt nánar. Einnig verða öll kynningargögn uppfærð á vef bæjarins og gerð aðgengileg. Athugasemdir sem berast á kynningartíma tillögunar verða notaðar til að fullmóta deiliskipulagið.

Kynningargögn vegna forkynningar á tillögu að breytingum á aðalskipulagi má finna á vef Kópavogsbæjar.