Frá vinstri: Kristján Jónatansson rekstrarstjóri Breiðabliks, Þórey Edda Elísdóttir, Verkís, Tanja Tómasdóttir framkvæmdastjóri Breiðablik, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, Herdís Guðrún Svansdóttir, Ana Tepavcevic og Gunnar Guðmundsson, Kópavogsbæ.
Knattspyrnuhöllin Fífan hefur verið tekin í notkun á ný eftir umfangsmiklar framkvæmdir. Í framkvæmdum fólst að skipt var um hitalagnir, tartanefni í hlaupabraut og gervigras. Nýja gervigrasið er án innfylliefna og Fífan er því fyrsti gervigrasvöllur landsins í fullri stærð með innfyllilaust gervigras, sem er umhverfisvæn lausn.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs heimsótti Fífuna og tók þátt í æfingu með Virkni og vellíðan, sem er heilsuefling 60 ára og eldri í Kópavogi. Virkni og vellíðan nýtir sér aðstöðuna í Fífunni á morgnana og voru þátttakendur hæstánægðir með breytinguna.
„Það er ánægjulegt að við séum búin að endurnýja gervigras og hlaupabraut í Fífunni. Hér eru fjölmargir íþróttaiðkendur á hverjum degi frá morgni til kvölds og þessi endurnýjun er mikilvægt skref sem við höfum stigið í átt að sjálfbærni og betri umhverfisvernd,“ segir Ásdís.
Verkís sá um eftirlit framkvæmdanna sem hófust í júlí síðastliðnum. Fagurverk sá um jarðvinnu og lagnir, Exton um að leggja gervigrasið og Sport-Tæki um hlaupabrautina. Gervigrasið sem varð fyrir valinu er í samræmi við reglur Evrópusambandsins en frá 2030 verður gúmmíkurl bannað í gervigrasi.
