Læsi eflt með lestrartölvuleik

Á mynd. F.v. Tryggvi Hjaltason, verkefnastjóri, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri menntamálasto…
Á mynd. F.v. Tryggvi Hjaltason, verkefnastjóri, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri menntamálastofnunar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, Védís Hervör Árnadóttir, forstöðumaður miðlunarsviðs SA, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, leikari, Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, læsisfræðingur, Birgir Örn Birgisson, stjórnarformaður Billboard og Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Billboard. Í bakgrunni má sjá meðlimi í Barnakór Ísaksskóla sem fengu leyfi til þess að vera með á myndinni.

Kópavogsbær er einn af samstarfsaðilum verkefnis sem snýst um að efla læsi með notkun finnska lestrartölvuleiksins Graphogame og mun leiða fyrstu skrefin í prófun á íslensku staðfærslunni árið 2024 með notkun leiksins í fyrsta bekk grunnskóla og rannsókn á árangri. 

Graphogame verður aðgengilegur á Íslandi frá fyrsta ársfjórðungi 2024 en unnið hefur verið að staðfærslu hans undanfarin misseri.

„Við erum stolt af því að taka þátt í þessu verkefni enda læsi lykill að góðri kunnáttu í lestri sem er grunnur alls náms. Kópavogur býr yfir sérfræðiþekkingu sem mun vonandi nýtast vel þegar Graphogame verður tekið í notkun," segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Leikurinn er liður í viðbragði við vaxandi áskorun barna þegar kemur að lestri og málskilningi en Graphogame grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. Graphogame hefur verið aðgengilegur öllum finnskum börnum undanfarin ár í lestrarnámi þeirra með góðum árangri.

Í tilefni af byrjun viku íslenskrar tungu var verkefnið formlega kynnt í sal Ísaksskóla þar sem Ásmundur Einar Daðason,  mennta- og barnamálaráðherra flutti ávarp og Tryggvi Hjaltason og Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir verkefnastjórar kynntu verkefnið að viðstöddum aðstandendum undir heitinu Samfélagssáttmáli um læsi. 

Tryggvi Hjaltason og Billboard ehf standa saman að útgáfu tölvuleiksins Graphogame í íslenskri útgáfu, sem verður gjaldfrjáls í fimm ár. Billboard fjármagnar verkefnið ásamt því að tryggja og viðhalda vitund almennings fyrir leiknum næstu fimm árin.

Graphogame hefur verið staðfært á 11 tungumál um allan heim og hlaut á dögunum UNESCO menntaverðlaunin fyrir afburðaárangur. Það þýðir að aðferðafræðin hefur skilað framúrskarandi mælanlegum árangri í læsi þvert á tungumál.

Aðstandendur verkefnisins vonast til að að hér sé kærkomin viðbót í verkfærakistu þjóðarinnar til að efla læsi allra.

Auk Kópavogsbæjar eru aðstandendur verkefnisins:

 • Samtök atvinnulífsins standa vörð um íslenska tungu og hafa unnið að verkefnum sem ætlað er að styrkja íslenska máltækni. SA eru stoltur stofnaðili  Almannaróms miðstöðvar máltækni, sem ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda. Þá standa samtökin fyrir reglulegri fræðslu og hvatningu til allra fyrirtækja sem vilja styrkja íslenskuna og verjast erlendum áhrifum í gróskumiklu alþjóðaumhverfi.
 • Félag læsisfræðinga hefur veitt stuðning við staðfærslu leiksins og ýmsa ráðgjöf um íslenska málnotkun, sérreglur og fleira.
 • Menntamálastofnun vinnur nú að kennsluleiðbeiningum um notkun leiksins í skólastarfi.
 • Fleiri aðilar munu koma að verkefninu á síðari stigum og verða þeir kynntir sérstaklega. Sem dæmi ætlar Skopp að verðlauna duglega lestrarhesta með frímiðum í Skopp á næstu vikum.

Tímalína verkefnisins

 • Íslensk staðfærsla smáforritsins er á lokametrunum undir verkefnastjórn Tryggva Hjaltasonar og Sigurlaugar Rúnar Brynleifsdóttur.
 • Leikararnir Ilmur Kristjánsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson eru raddir leiksins.
 • Bragi Valdimar Skúlason brýtur nú heilann um íslenskt nafn á Graphogame.
 • Kópavogsbær leiðir fyrstu skrefin í prófun á íslensku staðfærslunni á nýju ári 2024.
 • Í kjölfarið verður íslenska útgáfan gjaldfrjáls og aðgengileg öllum börnum og fjölskyldum á Íslandi á vormánuðum 2024.
 • Samhliða öllu ofangreindu er „stærsta lestrarbók í heimi“ sýnileg með stafalærdómi víðsvegar um höfuðborgarsvæðið á skiltum og strætóskýlum. Eins konar upptaktur að útgáfu leiksins í vor.
 • Mennta- og barnamálaráðuneytið leggur blessun sína yfir verkefnið og styður með dug og dáð.
 • SA leggur verkefninu lið með yfirgripsmikilli þekkingu og árlegu fjárframlagi.
 • Verkefnið er fjármagnað af Billboard ehf sem hefur greitt fyrir staðfæringu á leiknum ásamt afnotaleyfi til 5 ára, svo að leikurinn geti verið aðgengilegur öllum gjaldfrjálst.

Graphogame á enskri tungu verður í boði á Íslandi gjaldfrjálst sem hluti af verkefninu.

Frétt Samtaka atvinnulífsins.