- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Rekstur Kópavogsbæjar styrktist verulega árið 2024 og var afkoman sú besta í fjölda ára. Áhersla á traustan rekstur og fyrsta úthlutun í nýju hverfi í Vatnsendahvarfi er meginskýring niðurstöðu ársreiknings sem lagður var fram í bæjarráði Kópavogs í morgun.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 6,5 milljarða króna fyrir fjármagnsliði og rekstrarafgangur 4,2 milljarðar króna en áætlun gerði ráð fyrir að afkoman yrði neikvæð um 146 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 7,4 milljarða og rekstrarafgangur samstæðunnar 4,5 milljarðar króna.
Heildarskuldir og skuldbindingar lækka að raunvirði. Þá lækkar skuldaviðmið í 77 % úr 92% og er vel undir lögbundnu hámarki sem er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Lóðum í fyrsta áfanga í Vatnsendahvarfi var úthlutað árið 2024 sem skilar sér inn í ársreikninginn, en samkvæmt venju er ekki gert ráð fyrir lóðaúthlutun í fjárhagsáætlun. Í ár verður lokið við úthlutun í Vatnsendahvarfi sem mun skila sér inn í niðurstöðu ársreiknings fyrir 2025.
„Rekstur Kópavogsbæjar styrkist umtalsvert milli ára sem endurspeglar ríka áherslu okkar á traustan rekstur. Afgangur af rekstri bæjarins er 4,5 milljarðar króna og afkoman því sú besta í 17 ár. Veltufé frá rekstri er 4,8 milljarðar króna sem endurspeglar það svigrúm sem reksturinn gefur til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.
Þrátt fyrir miklar fjárfestingar í leik- og grunnskólum og öðrum nauðsynlegum innviðum sveitarfélagsins eru heildarskuldir og skuldbindingar að lækka að raunvirði. Þá heldur skuldahlutfall Kópavogsbæjar áfram að lækka og er langt undir lögbundnu skuldaviðmiði.
Kópavogsbær er stækkandi bæjarfélag og standa nú yfir úthlutanir í nýju hverfi í efri byggðum Kópavogs. Mikill áhugi er á hverfinu og var fyrsta úthlutun á árinu 2024. Við klárum úthlutanir á þessu ári.
Ábyrg fjármálastjórn er forsenda þess að unnt sé að veita framúrskarandi þjónustu til bæjarbúa. Verkefnið nú sem endranær er að standa vörð um góðan rekstur þannig að áfram sé unnt að skila ábatanum til bæjarbúa í formi lægri skatta og bættrar þjónustu,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði Kópavogs fimmtudaginn 10.apríl og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs þann 29.apríl næstkomandi.
Umfangsmiklar framkvæmdir
Fjárfestingar og framkvæmdir í leik- og grunnskólum ásamt öðrum mannvirkjum námu um 5,7 milljörðum króna. Tekjur vegna lóðaúthlutunar í Vatnsendahvarfi þýða að verulega dregur úr þörf fyrir lántöku vegna framkvæmda.
Viðamesta framkvæmdin er bygging við Barnaskóla Kársness við Skólagerði en kostnaður við hana nam um 2,3 milljörðum árið 2024.
Kostnaður við viðhald og framkvæmdir við aðra leik- og grunnskóla nam á annan milljarð króna.
Aðrar stórar fjárfestingar voru meðal annars bygging nýs íbúðakjarna við Kleifakór þar sem kostnaður var um 300 milljónir króna. Auk þess voru framkvæmdir við Kópavogsvöll og Kórinn sem nema um 330 milljónum króna. 240 milljónum var varið í nýtt hjúkrunarheimili í Boðaþingi og 100 milljónum í húsnæði velferðarsviðs við Vallakór. Þá var um 600 milljónum varið í gatnagerð.
Skuldaviðmið lækkar áfram
Skuldaviðmið A- og B-hluta lækkar frá fyrra ári og er 77% en var 92% í árslok 2023. Skuldaviðmið A-hluta er 73% en var 88% árið áður.
Vaxtaberandi skuldir í ársreikningi fyrir 2024 eru tæplega 38 milljarðar hjá samstæðu. Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu Kópavogsbæjar lækka lítillega eða úr 58,3 í 58,1 milljarð.
Veltufé frá rekstri samstæðunnar, A- og B-hluta eru 4,8 milljarðar. Eigið fé samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi A- og B-hluta í árslok 2024 nam 43,6 milljörðum króna en eigið fé A hluta nam 21,7 milljörðum króna.
Laun og launatengd gjöld um helmingur af tekjum
Laun og launatengd gjöld A-og B-hluta á árinu námu alls 28,3 milljörðum króna sem er 9% hækkun frá fyrra ári. Launakostnaður vegur í dag um helming af rekstrartekjum.
Fjöldi starfsmanna á launaskrá í árslok var 3.386 en meðal fjöldi stöðugilda á árinu var 2.023.
Íbúar Kópavogsbæjar þann 1. desember 2024 voru 41.351 samkvæmt Þjóðskrá Íslands og fjölgaði þeim um 785 frá fyrra ári eða um 1,93%.