Fjórtán mánaða börn fá leikskólapláss í Kópavogi

Yngstu börn eru 14 mánaða sem fá pláss í leikskólum Kópavogs í haust.
Yngstu börn eru 14 mánaða sem fá pláss í leikskólum Kópavogs í haust.

Fyrri úthlutun í leikskóla Kópavogs fyrir haustið er lokið og var öllum börnum sem fædd eru í júní 2024 og eldri boðið leikskólapláss. Yngstu börn verða því fjórtán mánaða þegar aðlögun hefst í leikskólum Kópavogs að loknu sumarfríi. Úthlutun náði til 540 barna sem sótt var um fyrir 10.mars, sem eru um 90% barna sem hefja leikskólagöngu í haust.

“Frá því við innleiddum Kópavogsmódelið hefur starfsumhverfi leikskóla í Kópavogi breyst til batnaðar. Mönnun leikskóla gengur vel og frábært að sjá að ríflega helmingur starfsmanna er með háskólamenntun, sem er hátt hlutfall á landsvísu. Þá hefur faglega starfið og þjónustan batnað til muna. Það ríkir mikil tilhlökkun að taka á móti börnunum sem hefja skólagöngu í leikskólum Kópavogs í haust," segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi.

Eftir páska verður opnað fyrir umsóknir sem bárust eftir 10.mars og verður úthlutað jafnt og þétt fram á sumar.

Leikskólarýmum hefur fjölgað síðan í fyrra vegna þess að nýr leikskóli, Barnaskóli Kársness, tekur til starfa í ágúst. Þar hefur þegar verið úthlutað í 40 rými. Þá eru framkvæmdir hafnar við nýjan 60 barna leikskóla við Skólatröð sem tekinn verður í notkun árið 2026. Þá verður reistur nýr leikskóli í Naustavör sem mun rúma um 100 börn og er stefnt á að opna hann árið 2027.

Frá því Kópavogsmódelið var innleitt árið 2023 hefur bæði skipulag og starfsumhverfi -leikskóla í Kópavogi tekið stakkaskiptum. Betur gengur að manna leikskóla í Kópavogi og því hægt að bjóða fleiri börnum leikskólapláss. Boðið er upp á mikinn sveigjanleika í skráningu leikskólatíma sem foreldrar hafa nýtt sér. Þá hafa 26% foreldra nýtt sér gjaldfrjálsan leikskóla og stytt dvöl barna í 30 tíma á viku.

Þess má geta að hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara í Kópavogi er með því hæsta á landinu eða 37%, alls eru 54% með háskólamenntun í leikskólum bæjarins. Starfsfólk sem er í leikskólakennaranámi fær umtalsverða námsstyrki frá sveitarfélaginu til þess að geta stundað námið á vinnutíma um 50 starfsmenn í leikskólakennaranámi.