Viðburðaríkt sumar í Kópavogi

Viðburðir í sumar í Kópavogi eru af ýmsum toga.
Viðburðir í sumar í Kópavogi eru af ýmsum toga.

Fjölbreytt dagskrá er á boðstólum í Kópavogi í sumar í menningarhúsum bæjarins og víðar um bæinn. Tónleikar, göngur, leiðsagnir, viðburðir Skapandi sumarstarfa og ýmis konar smiðjur fyrir börn er meðal þess sem boðið er upp á þetta sumarið.

Sumar í Kópavogi - yfirlit viðburða

 

Sumartónar í Salnum

Sumartónar í Salnum nefnist ný tónleikaröð sem hófst í júní. Fram koma meðal annars Katrín Halldóra, Los Bomboneros, Blood Harmony og Ragnheiður Gröndal. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Klúbbar og smiðjur í bókasafninu

Á aðalsafni bókasafnsins verða hannyrðaklúbbarnir Kaðlín, og Garn og gaman með sína reglubundnu dagskrá og sama má segja um Bróderíklúbbinn á Lindasafni. Þar og í Lindasafni verða enn fremur skemmtilegar og fjölbreytilegar sumarsmiðjur fyrir börn alla miðvikudaga milli þrjú og fimm. Þá stendur umhverfiskisan Gloría ásamt Náttúrufræðistofu og bókasafninu fyrir leiknum Umhverfisofurhetjan þar sem börn geta valið fimm umhverfistengd verkefni úr lista og fá að þeim loknum fræ í verðlaun sem þau geta gróðursett heima eða þar sem hentar best. Meðal verkefna eru til dæmis að fara með flokkað rusl og efni á endurvinnslustöð, borða afganga og taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu.

Skapandi sumarstörf

Skapandi sumarstörf í Kópavogi veita ungu listafólki á aldrinum 18-25 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur það reynst mikilvægur stökkpallur fyrir margt af efnilegasta listafólki landsins. Þátttakendur sýna afrakstur starfsins víðsvegar um bæinn í sumar sem nær hápunkti með veglegri uppskeruhátíð í Salnum 24. júlí.

Leiðsagnir í Gerðarsafni

Í Gerðarsafni verða leiðsagnir um hinar geysivinsælu sýningar safnsins á verkum Barböru Árnason og Guðrúnar Bergsdóttur. Þann 20. ágúst verður sýningin Corpus i sýningarstjórn Dariu Sólar Andrews opnuð, sem er samsýning listamanna frá ýmsum löndum þar sem mannslíkaminn er í fyrirrúmi.

Lautarferðin

Lautarferðin er ný og spennandi viðburðartvenna sem verður haldin í Vinabæjarlundi neðan við Digraneskirkju 13. júlí og í Rósagarðinum í Fossvogi 10. ágúst. Þar er gestum boðið að njóta lifandi tónlistar með teppi og snarl í góðra vina hópi. Á fyrri tónleikunum koma fram tónlistarkonurnar MGT og Marína Ósk en Silja Rós og Unnur Malín á þeim seinni.

Sumargöngur

Sumargöngur er nýtt verkefni sem Kópavogsbær blæs til á þessu sumri undir leiðsögn Einars Skúlasonar. Fyrri gangan var umhverfis Vatnsendahlíð en sú síðari verður 12. ágúst. Þá verður gengið upp Selfjall og um Lækjarbotna. Gangan tekur rúmlega klukkutíma og er við flestra hæfi.