Áhersla á grunnþjónustu í erfiðu rekstrarumhverfi

Fjárhagsáætlun 2023 hefur verið lögð fram til fyrri umræðu.
Fjárhagsáætlun 2023 hefur verið lögð fram til fyrri umræðu.

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2023 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag, þriðjudaginn 8. nóvember.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar verði jákvæð sem nemur 83 milljónum og að niðurstaða A-hluta verði jákvæð um 30 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað ríflega fjórir milljarðar króna á samstæðu bæjarins.

Grunnþjónusta bæjarins verður efld og áhersla lögð á mennta- og velferðarmál. Áætlun næsta árs ber hins vegar svip af krefjandi efnahagsumhverfi og óvissu í kjaramálum en kjarasamningar á almennum og opinberum vinnumarkaði eru lausir á næsta ári.

Fasteignaskattar lækka á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði til að koma til móts við gríðarlega hækkun fasteignamats. Almenn fasteignagjöld munu að meðaltali fylgja verðlagsþróun næsta árs en ekki hækka um tug prósenta vegna fasteignamatshækkana.

Kópavogur mun leggja sitt af mörkum við að ná verðbólgu niður og liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þannig munu gjaldskrár ekki hækka í samræmi við miklar kostnaðarhækkanir, heldur í samræmi við forsendur fjárlaga.

Áfram verður staðið vörð um traustan rekstur en erfitt efnahagsumhverfi mun áfram lita rekstur bæjarins á næsta ári. Hagræðing eru nauðsynleg en grunnþjónusta verður undanskilin þeim aðgerðum. Ráðist verður í hagræðingaraðgerðir sem nema 230 milljónum króna á árinu 2023 eða sem nemur 0,5% af heildarútgjöldum samstæðunnar.

Umfangsmiklar framkvæmdir á vegum bæjarins eru áætlaðar á næsta ári og tryggt að innviðir mæti þörfum bæjarbúa. Stærstu fjárfestingar ársins verða bygging Kársnesskóla og nýs leikskóla samhliða. Þá verður farið í markvisst viðhald fasteigna og loftgæði verða bætt í stofnunum bæjarins.

“Áætlun ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun þar sem álögum og gjöldum er stillt í hóf og þjónusta við bæjarbúa er í forgangi. Ráðist verður í nauðsynlegar hagræðingar en staðið vörð um grunnþjónustu bæjarins. Kópavogsbær leggur einnig sitt af mörkum til að ná niður verðbólgu og liðka fyrir gerð kjarasamninga með því að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf og lækka fasteignaskatta.

Við leggjum áherslu á að leysa mönnunarvanda á leikskólum bæjarins og verða markviss skref stigin á árinu til að bæta starfsumhverfi. Þá verður boðið uppá heimgreiðslur fyrir foreldra sem ekki fá leikskólapláss við tólf mánaða aldur. Lagt verður til viðbótarfjármagn í velferðarþjónustu en þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og mikilvægt að ná niðurstöðu í þeim efnum hið fyrsta.” segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Gert er ráð fyrir 2,17 % fjölgun íbúa og að þeir verði þeir orðnir 40.729 í lok árs 2023. Með fjárhagsáætlun 2023 er einnig lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2024, 2025 og 2026 til fyrri umræðu.

Fjárhagsáætlunin tekur mið af stefnum og aðgerðaáætlunum bæjarins, mælanlegum markmiðum og aðgerðum og er þetta annað árið í röð sem unnið er með stefnumiðaða fjárhagsáætlunargerð.

Fjárhagsáætlun 2023

Þriggja ára áætlun 2024, 2025, 2026

Kynning bæjarstjóra á fjárhagsáætlun 2023

Nánar:

Skattar og gjöld

Fasteignaskattar á íbúðar- og atvinnuhúsnæði lækka sem um nemur raunhækkun fasteignamats. Lagt er til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr 0,2% í 0,17% og fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar úr 1,44% í 1,42%. Önnur fasteignagjöld lækka að undanskildu sorphirðugjaldi sem hækkar vegna aukinna útgjalda við sorphirðu og sorpeyðingu.

Útsvar fyrir árið 2023 verður óbreytt eða 14,48%. Almennar gjaldskrárhækkanir verða 7,7% sem er í samræmi við forsendur fjárlaga.

Umfangsmiklar fjárfestingar

Framkvæmt verður fyrir sex milljarða árið 2023.

Nýr Kársnesskóli við Skólagerði er í byggingu auk þess sem nýr leikskóli mun rísa samhliða. Verður 3,6 milljörðum króna varið í það verkefni á næstu þremur árum. Á árinu 2023 verður 2 milljörðum króna varið í byggingu skólans.

Byggður verður nýr leikskóli við Skólatröð, áætluð fjárfesting árið 2023 vegna þess eru um 250 milljónir króna.

Um 1,8 milljörðum króna verður varið í gatnagerð og skipulagsmál næsta ári.

Gert er ráð fyrir að verja um 901 milljónum króna í viðhald fasteigna og lóða hjá eignasjóði þar sem áhersla verður lögð á fyrirbyggjandi viðhald með umhverfisvænum lausnum. Áætlaðar eru um 300 milljónir til viðhalds og endurbóta félagslegra íbúða.

Barnvænt samfélag

Markvisst verður unnið að innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Lagt er til að greiddar verði heimgreiðslur til foreldra barna sem ekki eru hjá dagforeldrum og bíða eftir leikskólaplássi í Kópavogi, frá 12 mánaða aldri og þar til barn kemst inn á leikskóla eða til dagforeldris.

Einnig er lagt til að hugað verði að því að skapa aðstöðu fyrir dagforeldra með það að markmiði að fjölga dagforeldrum í Kópavogi.

Ráðist verður í markvissar aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskólanna meðal annars til að mæta auknu álagi á starfsfólk.

Aukin verður þjónusta talmeinafræðinga og aukin fjárheimild til að mæta nemendum með íslensku sem annað tungumál.

Á árinu verður íþrótt eða tómstund gjaldfrjáls fyrir fimm ára börn og stuðningur aukinn í frístund vegna nemenda með sérstakar stuðningsþarfir.

Á árinu 2023 verður áfram unnið að innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, í samstarfi við menntasvið Kópavogsbæjar.

Unnið verður að útfærslu og innleiðingu á nýju skipulagi á starfsemi velferðarsviðs með það að markmiði að skipulagsheildin mæti sívaxandi þörf fyrir sérhæfingu samhliða samstilltri og skilvirkni þjónustu.

Á árinu verður unnið að undirbúningi vegna opnun nýs íbúakjarna fyrir fatlað fólk í Kleifakór. Fyrirhugð verklok eru áætluð á árinu 2024.

Hjúkrunarheimilið Boðaþing verður stækkað og ráðgert fjármagn er 175 milljónir króna á árinu 2023.

Annað

Heilsuefling eldri borgara, „Virkni og vellíðan“ verður eflt en það er vel heppnað samstarfsverkefni Kópavogs og þriggja stærstu íþróttafélaga bæjarins.

Svarað verður ákalli eldri bæjarbúa og Boðalaug við Boðaþing verður opin á sumrin.

Þá verður íbúalýðræðisverkefnið „Okkar Kópavogur“ fram haldið. Áfram verður unnið að því að bæta umhverfi bæjarins, gróður og stíga.