Framtíð nemenda í fyrsta sæti

Nemendur í Kópavogi á góðri stundu. Mynd/Sigríður Marrow.
Nemendur í Kópavogi á góðri stundu. Mynd/Sigríður Marrow.

Kópavogsbær hyggst svara ákalli foreldra, kennara og nemenda um að efla enn frekar gæði náms og kennslu. Stöðu- og framvindupróf (Matsferill Miðstöðvar menntunar og þjónustu, MMS), samstarf um þróun á nýju námsumsjónarkerfi og samræmt námsmat er meðal þeirra aðgerða sem farið verður í. Í kjölfar víðtæks samráðsferlis haustið 2024, þar sem rætt var við yfir 300 skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra í öllum tíu grunnskólum bæjarins, liggja nú fyrir 16 umbótaaðgerðir sem svara skýrt ákalli skólasamfélagsins, nemenda og foreldra. 

Á meðal lykilaðgerða eru innleiðing samræmdra stöðu- og framvinduprófa í 4.–10. bekk í öllum skólum Kópavogs, þróun nýs námsumsjónarkerfis sem veitir betri yfirsýn yfir námsframvindu og skýrara námsmat með áherslu á uppbyggilega endurgjöf. Þá er áhersla lögð á að fjölga fagmenntuðum kennurum og styðja við helgun kennara í starfi.

„Með þessum aðgerðum viljum við tryggja að skólar í Kópavogi séu áfram í fremstu röð og leiðandi í umbótum í skólastarfi. Ég heyrði í heimsóknum mínum sterkt ákall þess efnis að foreldrar og nemendur vilji fá betri mynd af stöðu og framvindu í námi. Því munu nemendur í Kópavogi fara ár hvert í samræmd stöðu- og framvindupróf frá 4.-10.bekk og nýtast niðurstöður þeirra kennurum, nemendum og foreldrum til að styðja betur við nám og framfarir nemenda. Við leggjum sérstaka áherslu á að fjölga fagmenntuðum kennurum og styrkja samstarf heimilis og skóla. Við hlustum á skólasamfélagið og foreldra og erum nú að bregðast við með markvissum og faglegum hætti,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.

Meðal þeirra aðgerða sem ráðist verður í eru:

  • Samræmd stöðu- og framvindupróf – Matsferill MMS: Frá og með vori 2026 verða stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði lögð fyrir árlega í 4.-10. bekk í öllum grunnskólum Kópavogs. Niðurstöðurnar verða markvisst nýttar til að greina námslega stöðu nemenda og auðvelda kennurum að bregðast við í samræmi. Foreldrar fá jafnframt skýrari og betri upplýsingar um námsstöðu barna sinna.
  • Nýtt námsumsjónarkerfi: Kópavogsbær hefur hafið samstarf um þróun á heildstæðu námsumsjónarkerfi. Tilraunakeyrsla á því hefst í öllum skólum í Kópavogi í haust í samstarfi við skólastjórnendur, kennara og foreldra. Ef reynslan verður jákvæð verður kerfið tekið í notkun haustið 2026.
  • Skýrara námsmat: Áhersla verður lögð á að auka samræmi milli skóla við framkvæmd námsmats og aukin áhersla verður á umsagnir og leiðbeinandi námsmat. Lokamat í 10. bekk verður endurmetið.
  • Fjölga faglærðum kennurum: Heildstæð áætlun um símenntun verður unnin í samstarfi við kennara og skólastjórnendur, með áherslu á greinar þar sem kennaraskortur er mestur. Þá verður lögð áhersla á að styðja og hvetja leiðbeinendur sem hafa áhuga á kennaranámi til að hefja nám og laða að faglærða kennara sem vilja snúa aftur til kennslu.
  • Aðrar umbætur: Heildstæð læsisáætlun verður innleidd í leik- og grunnskólum og frístundastarfi. Áfram verður unnið að eftirfylgni með reglum um skólasókn og símanotkun í skólastarfi, auk móttökuferla fyrir börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Þá verða öryggi og aðgengi að skólahúsnæði og skólalóð sérstaklega skoðuð.

Hlutverk foreldra í umbótunum

Í samráðsferlinu komu fram ábendingar frá foreldrum sem hafa tekið þátt í að móta umbótatillögurnar, og áfram verður leitað til þeirra í innleiðingarferlinu. Kópavogsbær hvetur foreldra til að taka þátt í umræðum, veita endurgjöf og nýta þau tæki og tól sem verða í boði til að styðja við nám barna.

„Foreldrar gegna lykilhlutverki í að styðja við nám barna sinna og eiga að hafa skýra yfirsýn yfir námsstöðu þeirra. Með því að innleiða samræmd stöðu- og framvindupróf samkvæmt Matsferli MMS skapast traustari grunnur fyrir foreldra og skóla til að fylgjast með framvindu og styðja börnin markvisst í náminu. Það er því fagnaðarefni að Kópavogsbær hyggist stíga þetta mikilvæga skref strax á næsta ári og bæta um betur með því að hafa prófin árlega í öllum skólum bæjarins. Ég hlakka einnig til að prófa nýtt námsumsjónarkerfi og treysti því að það verði til þess að efla enn frekar gott samstarf milli heimila og skóla, “ segir Karen Rúnarsdóttir, formaður stjórnar Samkóp og fulltrúi foreldra í samráðshópi umbótaverkefna.

Hlutverk kennara í umbótunum

Til að styðja kennara í þessu hlutverki mun Kópavogsbær leggja enn meiri áherslu á símenntun og þróun námskeiða sem byggja á þörfum kennara og skólasamfélagsins. Sérstök áhersla verður lögð á greinar þar sem skortur er á kennurum, svo sem í náttúrufræði og stærðfræði. Þá verða kennarar virkir þátttakendur í þróun og innleiðingu nýs námsumsjónarkerfis.

„Við í kennarasamfélaginu fögnum aðgerðum til umbóta í skólamálum í Kópavogsbæ. Við blasir að kennarar munu gegna lykilhlutverki í að hrinda umbótunum í framkvæmd og mikilvægt að halda áfram samráði við skólastjórnendur, kennara og foreldra til að tryggja að þær skili raunverulegum árangri. Tækifæri felast í aðgerðum sem þessum til að aðlaga betur kennslu að ólíkum þörfum nemenda og veita uppbyggilega og hvetjandi endurgjöf í námsmati,“ segir Brynjar Marinó Ólafsson, skólastjóri Snælandsskóla.

Framtíðin í fyrsta sæti - umbótatillögur