Hálf öld með Skólahljómsveit Kópavogs

Á myndinni eru auk nemenda í B-sveit hljómsveitarinnar Jóhann Björn Ævarsson, kennari og stjórnandi…
Á myndinni eru auk nemenda í B-sveit hljómsveitarinnar Jóhann Björn Ævarsson, kennari og stjórnandi B-sveitar, Össur Geirsson, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri og Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, heimsótti Össur Geirsson skólastjóra Skólahljómsveitar Kópavogs í húsnæði hljómsveitarinnar á Álfhólsvegi og færði honum blómvönd í tilefni þess að hann fékk á dögunum viðurkenningu Barnaheilla á Íslandi 2022. Ásdís notaði tækifærið og þakkaði Össuri fyrir gott starf um árabil hjá Skólahljómsveit Kópavogs.

Í Skólahljómsveit Kópavogs eru um 170 nemendur í þremur hljómsveitum, A-sveit, B-sveit og C-sveit. B-sveit var við æfingar þegar bæjarstjórinn fór í heimsókn og voru við æfingar á jólalögum enda stutt í jólatónleika.

Össur greindi frá því við tilefnið að hann hefur verið viðloðandi Skólahljómsveitina í 50 ár, en hann slóst í nemendahópinn árið 1972. Síðar varð hann kennari en Össur hefur stýrt Skólahljómsveitinni frá árinu 1993 og tók þá við af Birni Á Guðjónssyni, stofnanda sveitarinnar.

„Össur hefur í störfum sínum veitt miklum fjölda barna og ungmenna innblástur og hvatningu. Hann hefur óbilandi trú á ungu fólki og hefur einstakt lag á að laða fram það besta í hverju og einu barni. Hann leggur áherslu á samvinnu meðal nemenda í störfum sínum og kallar fram jákvæðan aga, metnað og samkennd,“ sagði í umsögn Barnaheilla.

Skólahljómsveit Kópavogs er til húsa í húsnæði sem er sambyggt Álfhólsskóla Digranesi. Húsið sem var tekið í notkun í febrúar 2020 er sérhannað til tónlistarkennslu.